Lánasjóður íslenskra námsmanna

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 16:16:10 (2491)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Finnur Ingólfsson sagði að ekki hefði verið farið að reyna á lögin frá 1982. Skildi ég það ekki rétt? Hvernig er þá hægt að segja, ef þetta er rétt hjá hv. þm., að það sé komin nægileg reynsla á lögin frá sl. vori að það réttlæti endurskoðun á þeim? Mér finnst þetta ekki ríma saman. Og ég er þessu líka ósammála. Ég held að það hafi einmitt verið komin sú reynsla á lögin frá 1982 að það lá alveg ljóst fyrir að það yrði að endurskoða þau. Það yrði að gera það. Ég hef rakið það svo oft áður að ég ætla ekki að fara frekar út í það núna.
    Með því sem ég sagði um hlut hv. þm. Svavars Gestssonar í að breytt var frá frv. þar sem kveðið var á um 3% vexti var ég ekki með þeim orðum að koma einhverri ábyrgð yfir á hv. þm. Svavar Gestsson á þessu ákvæði laganna, alls ekki. Ég var bara að taka þetta sem dæmi um að það var tekið tillit til þess m.a. sem kom fram í umræðunum um lánasjóðsfrumvarpið á sl. vetri.
    Ég get svo hnýtt því aftan í vegna þess að þingmaðurinn sagði að það hefði verið eitt af skilyrðum stjórnarandstöðunnar að þetta ákvæði færi út ef við vildum eitthvert samstarf og samráð við hana, þá minni ég á orð foringja hans, hv. þm. Steingríms Hermannssonar, sem sagði í umræðunum um þetta mál að hann væri vel til viðtals um að ákvæði um vexti yrðu í lögunum en þeir yrðu þá að vera lágir. Það var einmitt það sem var gert.
    Það er talað um að vandamálum sjóðsins í dag sé vísað á framtíðina. Ég spyr á móti: Hverjir voru það sem vörpuðu vandamálum sjóðsins yfir á framtíðina? Það voru einmitt þeir sem umgengust hann með slíku kæruleysi að þar stefndi allt í gjaldþort. Hverjir eiga að leysa þennan vanda aðrir en þeir sem nú eru og verða?
    Ég vil svo aðeins segja varðandi lántökuna. Lántökuheimild 1992 er nýtt og gerir það að verkum að ríkisframlagið þarf ekki að nýta að fullu.
    Ég vil svo í lokin segja að mér finnst sjálfsagt að þetta mál fari til nefndar og verið þar skoðað. En ég tel ekki þörf á að samþykkja tillöguna