Ferðamál

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 16:22:02 (2493)

     Flm. (Karen Erla Erlingsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég ber hér upp till. til þál. á þskj. 263 um að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að efla starf Ferðamálaráðs á sviði umhverfisverndar, vöruþróunar og markaðssetningar.
    Þegar talað er um atvinnumál á Íslandi er oft vitnað til ferðaþjónustunnar sem þeirrar atvinnugreinar sem hvað mestur vaxtarbroddur er í. Ferðamálaráð Íslands hefur undanfarin missiri unnið að stefnumótun í ferðaþjónustu, annars vegar í umhverfismálum og hins vegar í markaðsmálum. Í stefnumótun í markaðsmálum er eitt af höfuðmarkmiðum að auka fjölda ferðamanna til landsins um 6% á ári til aldamóta. Þessu markmiði á að ná án þess að til komi fjárfesting að nokkru ráði í aðstöðu svo sem í gistingu. Þetta á að gera með því að markaðssetja Ísland sem ferðamannaland utan háannatímans. Ferðamálaráð telur í stefnumótun sinni að gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu geti orðið allt að 130 milljarðar á þessum tíma.
    Það er nauðsynlegt að leggja á það áherslu hér að ferðaþjónusta er mjög mannfrek atvinnugrein. Lauslega er áætlað að við hana starfi eitthvað í kringum 6.000 manns í dag og raunhæft er talið að til aldamóta megi skapa um 2.200 ný störf til viðbótar. En þetta kemur auðvitað ekki allt af sjálfu sér. Til að þessi markmið nái fram að ganga þarf að koma til aukið fjármagn. Aukið fjármagn til vöruþróunar og aukið fjármagna til markaðssetningar ekki síst.
    Ég ætla ekki að tala mikið um umhverfisnefnd nú en vil aðeins ítreka það að umhverfið, náttúra landsins, er sú auðlind sem ferðaþjónusta byggir afkomu sína á. Ég ætla að leggja áherslu á vöruþróunina og ekki síður markaðssetninguna.
    Víða, ekki síst úti á landsbyggðinni, er verið að byggja upp ferðaþjónustu. Heilu landshlutarnir hafa mótað framtíðarstefnu í ferðamálum og aðrir eru að því um þessar mundir. Niðurstaðan úr þessari stefnumótun er víða að það þurfi að byggja upp afþreyingu fyrir ferðamenn. Margar góðar hugmyndir vakna. En menn standa frammi fyrir því vandamáli að það er næstum ekki hægt að fjármagna góða hugmynd. Hins vegar virðist það engum vandkvæðum bundið að fá fjármagn úr opinberum sjóðum til að fjárfesta í steinsteypu. Þá á ég t.d. við gistiaðstöðu enda hefur slík aðstaða sprottið upp nánast eins og gorkúlur á hinum síðustu og verstu tímum.
    En ferðamaðurinn kemur ekki til Íslands til að gista á einhverju hóteli eða borða á einhverjum skyndbitastað. Hann kemur til að skoða náttúruperlur landsins og til þess að upplifa eitthvað óvenjulegt oftast tengt náttúrunni, t.d. að fara á jökul, fara í hestaferð eða í bátsferð. Að fjármagna hugmynd sem tengist slíkri afþreyingu er nánast ekki hægt. Mitt mat er því að það þurfi að vera til sjóður sem veitir áhættufjármagn til slíkra hluta. Það þarf í raun og veru ekki að stofna slíkan sjóð. Hann er til og heitir Ferðamálasjóður. Vandamálið er hins vegar að hann er févana. Það þarf að veita aukið fé í þennan sjóð til þess að hann standi undir nafni sem slíku.
    Enn fremur þarf aukið fjármagn til kynningar á landinu. Það er auðvitað ekki nóg að byggð sé upp öflug ferðaþjónusta hér á landi ef enginn veit af því. Fólk kaupir ekki það sem það veit ekki um.
    Ísland mun mæta aukinni samkeppni á næstu árum sem ferðamannaland. Við eigum í bullandi samkeppni við önnur lönd um markað, svo sem Írland, Finnland og Noreg sem setja nú aukið fjármagn í markaðssetningu sína. Því er ljóst að til þess að mæta þeirri samkeppni og til þess að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur um 6% aukningu á fjölda ferðamanna til landsins, 130 milljarða gjaldeyristekjur á árinu 1992 til ársins 2000 og 2.200 ný atvinnutækifæri á sama tíma, verðum við að gera átak í kynningu á landinu. Þeirri spurningu verður örugglega varpað fram hvaðan þessir peningar skuli koma. Í núgildandi lögum frá 1978 um skipulag ferðamála á Íslandi stendur í 8. gr., með leyfi forseta:
    ,,Fríhöfnin í Keflavík skal greiða til Ferðamálaráðs gjald er nemur 10% af árlegri vörusölu.``
    Er ekki kominn tími til að farið verði eftir þessum lögum? Hafa ekki stjórnvöld ákveðið að ef EES-samningurinn nær fram að ganga að verja 100 millj. kr. á næsta ári til sérstaks markaðsátaks á

EES-markaði? Væri ekki hægt að nota hluta þessa fjármagns til markaðssetningar Íslands sem ferðamannalands á EES-markaði?
    Stjórnvöld hafa einnig ákveðið að verja 240 millj. til sérstakra þróunar- og rannsóknarverkefna árið 1993. Væri ekki hægt að úthluta einhverju af þessu fjármagni til uppbyggingar ferðaþjónustu úti á landsbyggðinni, þeirrar atvinnugreinar sem mestur vaxtarbroddur er í um þessar mundir?
    Ég mælist til þess, virðulegi forseti, að tillögunni verði vísað til samgn.