Ferðamál

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 16:41:03 (2498)


     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tel það alls ekki neitt vanmat á konum þó að ég ræði um þau málefni sem ég hef mjög mikinn áhuga á úr ræðustól á Alþingi og m.a. um það atriði að styðja við starfsemi Ferðamálaráðs. Ég hef komið nálægt þessum málum mjög lengi. Ég minnist þess að einhvern tíma fyrir 1980 var samgn. að fjalla um breytingu á lögum um ferðamál og þá var komið inn ákvæðinu um prósentu af hagnaði af verslun á Keflavíkurflugvelli sem að mínu mati hefði getað verið mjög mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustu í landinu ef það hefði orðið virkt. Því miður hefur það farið á annan veg.
    Ég tel síður en svo að ég sé að gera lítið úr konum þó ég taki undir málflutning þeirra og þakki fyrir það sem þær eru að flytja fram.