Aðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 16:51:32 (2503)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Ég upplýsi það hér en það kann að vera ókunnugleika mínum um að kenna að ég leit svo á að þegar aukaaðild Íslendinga að Vestur-Evrópusambandinu var kynnt í utanrmn. og var reyndar rædd hér áðan, taldi ég ótvírætt að málið kæmi til kasta Alþingis. Það hefur hins vegar verið upplýst að það var alls ekki svo ótvírætt heldur varð það í rauninni niðurstaða umræðu sem var núna í utanrmn. að ráðherra mundi beita sér fyrir því í ríkisstjórninni að málið kæmi til kasta Alþingis í formi þingsályktunar. Í því sambandi vek ég athygli á hversu málum er sérkennilega háttað á hinu háa Alþingi vegna þess að á borðum hjá okkur liggur m.a. frv. til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að leyfa Sveinbirni Runólfssyni sf. innflutning á gröfupramma. Þetta mál á að koma til kasta Alþingis og fá þinglega meðferð í þremur umræðum og í nefnd, en stórmál eins og aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu átti ekki að fara til umfjöllunar þingsins nema með einhverri sérstakri aðgerð af hálfu ríkisstjórnarinnar.
    Hér er um pólitíska skuldbindingu að ræða. Hér er stórt mál á ferðinni og í slíkum málum teljum við kvennalistakonur almennt eðlilegt að sótt sé umboð til Alþingis og viljum minna á að þegar farið var til viðræðna um stofnun Evrópsks efnahagssvæðis ásamt EB og öðrum EFTA-ríkjum, var það skoðun Kvennalistans að það ætti að sækja umboð til Alþingis til þess að fara til þeirra viðræðna. Það var ekki gert. Við erum líka þeirrar skoðunar í þessu máli að sækja hefði átt umboð til Alþingis. Hins vegar er ljóst að það verður heldur ekki gert. Engu að síður tel ég að eftir atvikum sé niðurstaðan sem fékkst í þetta mál eftir fund utanrmn. viðunandi sérstaklega ef mál fara fram eins og ráðherra hefur lýst.