Ferðamál

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 16:55:26 (2506)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Það er þungt í hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni pundið og satt að segja finnst mér hann kominn út á heldur hálan og þunnan ís þegar hann greinir þinginu frá viðureign sinni við hæstv. félmrh. því eins og þingheimur varð vitni að í gær reið hann ekki feitu hrossi frá þeirri viðureign.
    Virðulegi forseti. Við erum að ræða till. til þál. um að efla starf Ferðamálaráðs, m.a. á sviði umhverfisverndar. Áðan kom ég fram með þá saklausu spurningu með hvaða hætti flm., hv. 1. þm. Austurl., hyggst beita Ferðamálaráði til þess að efla umhverfisvernd. Nú er ég þeirrar skoðunar að það þurfi að efla umhverfisvernd hér á landi. Ég er hins vegar ekki sannfærður um að Ferðamálaráð sé rétti aðilinn til þess að gera það þó að ég taki undir ákveðnar ábendingar sem fram hafa komið, svo sem að Ferðamálaráð taki þátt í að merkja göngustíga o.s.frv. Ef ég hins vegar á að geta haldið uppteknum hætti og stutt framsóknarmenn til góðra verka þá þarf kannski ekki að stafa hana ofan í okkur, en a.m.k. að greina okkur frá stærstu dráttunum í því hvernig Framsfl. hyggst fara að þessu. Mér er það nefnilega hulið.
    Ég tek líka undir það með hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni að það er ekki alls kostar rétt sem virðist koma fram í greinargerð að ekki sé til vettvangur til þess að draga frá fé til að efla fyrirbæri eins og bátsferðir, jöklaferðir og hestaferðir.
    Nú er mér kunnugt um að flm. hefur unnið afskaplega gott starf á þessu sviði í sínu kjördæmi og hef heyrt hana flytja mjög gott erindi um það sem ég hreifst mjög af. Ég veit að hún er kunnáttumanneskja á þessu sviði. Eigi að síður þarf rétt að vera rétt og í dag er staðan sú að Byggðastofnun hefur unnið ágætt verk á þessu sviði.
    Þegar menn tala um hvaðan eigi að draga fram peninga og fjármagn til þess að efla ferðaþjónustu, þá tel ég að Reykjavíkurborg þurfi að ganga í það mál með miklu vaskari hætti. Ég tel að höfuðborgin skipti hér miklu máli og mér finnst hún ekki sinna þessu máli nóg. Ef menn eru að tala um að efla ferðaþjónustu og draga hingað útlenda ferðamenn tel ég mjög brýnt að Reykjavíkurborg beiti sér í miklu ríkari mæli í þeim efnum. Hér vantar t.d. ráðstefnuhöll. Meiri hluti sjálfstæðismanna í Reykjavíkurborg hefur árum saman verið að tala um þetta en lítið hefur orðið um efndir. Hann hefur lítið gert nema talað. Ég verð að segja að mér finnst kominn tími til að meiri hluti sjálfstæðismanna í Reykjavík taki miklu vaskar á þessu máli. Ég tel til að mynda að hann eigi að taka fast og rösklega undir hugmyndir sem fram hafa komið um að hefja byggingu tónlistarhúss sem um leið er hægt að nota sem ráðstefnuhús. Ég tel að það væri til að mynda mjög jákvætt framlag af hálfu Reykjavíkurborgar ef hún vildi leggja fram áætlun í þessu efni. Þá gæti hún gengið fyrir dyr okkar framsóknarmanna og annarra vandamanna í þinginu um einhvers konar mótframlag. Ég verð að segja að ég mundi óska eftir því að Reykjavíkurborg gengi fram fyrir skjöldu í þessu máli.
    Við vitum að fyrir þá sem koma um langan veg, e.t.v. úr öðrum álfum hingað til Íslands á ráðstefnu, er það einstök ferð í lífi flestra sem búa fjarri landinu, slíkir ferðalangar fara í Austurlandskjördæmi og á jökul með hv. þm. Karen Erlu. Það gefur auga leið.
    Upplýsingar liggja fyrir um það að þar sem menn hafa farið út í að byggja ráðstefnuhús á svæðum þar sem ekki er um neitt slíkt að ræða dregur það að ósköpin öll af ferðafólki, ósköpin öll af fjármagni og skapar mikla vinnu. Ég segi því og tek undir með framsóknarmönnum, sem væntanlega eiga eftir að koma fram með þessa tillögu í borgarstjórn Reykjavíkur eftir að hafa heyrt hana hér, að það er nauðsynlegt að Reykjavíkurborg taki vaskar á þessu máli.

    Síðan vil ég segja það að mér finnst með ólíkindum að sjá tvískinnunginn í málflutningi framsóknarmanna. Það er stórkostlegt stundum. Þessir menn hafa komið og rifið sig niður í rass út af því að það á að fara að selja Búnaðarbankann og hvað eru þeir síðan að gera? Varla hafa þeir sleppt orðinu þegar þeir eru farnir að slást um peningana sem á að draga úr þeirri sölu til þess að byggja upp rannsóknir og þróun. Hér liggur fyrir tillaga sem hlýtur að hafa verið samþykkt í þingflokki Framsfl. þar sem beinlínis er byggt á því að nota eigi fjármagn sem dregið er úr sölu Búnaðarbankans til þess að efla ferðaþjónustu á Íslandi. Ég hlýt að óska eftir því að formaður þingflokks Framsfl. komi hingað og lýsi því yfir hvort í þessu felist að Framsfl. hafi loksins slegist í fylgd með hæstv. viðskrh. í viðleitni hans til þess að selja Búnaðarbankann.