Ferðamál

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 17:00:52 (2507)

     Flm. (Karen Erla Erlingsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Ég lýsi ánægju minni yfir því að mínir menn skuli styðja svo dyggilega við bakið á mér í þessu máli. Það er meira en aðrir geta sagt. ( Gripið fram í: Össur er einn af okkur.)
    Mér var alls ekki ljóst að ríkisstjórnin þyrfti að selja eignir sínar til þess að geta staðið við þau áform um að verja þessum milljónum til sérstakra þróunar- og rannsóknarverkefna. Það hlýtur að vera mögulegt að fá peninginn annars staðar frá þar sem um svo mikilvægan málaflokk er að ræða, þ.e. þróunar- og rannsóknarverkefni.
    Varðandi umhverfisþátt Ferðamálaráðs vil ég segja þetta, af því að það virðist eitthvað óljóst, að eitt af hlutverkum Ferðamálaráðs samkvæmt lögum eru umhverfismál. Á nýlegri ráðstefnu um ferðamál sem fram fór í Stykkishólmi var eindregið lagst gegn því að umhverfisþátturinn yrði færður undir umhvrn. heldur var talið að umhverfisþátturinn og markaðssetningin á landinu væru óaðskiljanlegir þættir því það er einmitt umhverfið eða náttúra landsins sem er sú auðlind sem ferðaþjónustan byggir afkomu sína á. Báðir þessir þættir áttu því að heyra áfram undir samgrn. Hins vegar var hvatt til aukins samstarfs við Náttúruverndarráð á þessu sviði.
    Ferðamálaráð hefur starfsmann á sínum vegum sem sér um umhverfismál, sér um að taka út ferðamannastaði og ráðleggja hvað betur mætti fara á þessum stöðum, og er búið að fara í alla landshluta af þessu tilefni. Vandamálið er að það er varla hægt að fjármagna einu sinni þessa stöðu og t.d. mætti koma aukið fjármagn til þessara hluta.
    Einnig úthlutar Ferðamálaráð styrkjum til úrbóta í umhverfismálum, svo sem til salernisgerða, stígagerða og annarra mála. Vandamálið hér er líka mjög takmarkað fjármagn í þessum sjóði og þar mætti gera úrbót.
    Þingmaður benti á að ég vinn að ferðamálum og hef gert um nokkurt skeið. Reynsla mín í þeim málum er að mjög erfitt er að fá fjármagn til þess að framkvæma góðar hugmyndir þó að einstaka dæmi hafi verið tekið um annað. Það er auðvitað líka til og þá hefur Byggðastofnun staðið sig nokkuð vel í því. En mitt mat er að hér megi enn auka við til þess að við getum náð þeim árangri sem við setjum okkur í þessum málum.