Tilkynning frá ríkisstjórninni

59. fundur
Mánudaginn 23. nóvember 1992, kl. 14:10:03 (2520)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Í einn og hálfan mánuð hefur það legið ljóst fyrir að mikill fjöldi samtaka í þjóðfélaginu er reiðubúinn að taka höndum saman með ríkisstjórninni til þess að skapa hér grundvöll fyrir varanlegar efnahagsaðgerðir sem hefðu það að markmiði að treysta atvinnulífið í landinu, halda stöðugleika í verðlagsmálum og leggja grundvöll að nýrri sókn í atvinnulífi Íslendinga. Það er einn og hálfur mánuður síðan Alþb. lýsti sig formlega reiðubúið í umræðum um stefnuræðu forsrh. til samstarfs við ríkisstjórnina og aðra stjórnmálaflokka um slíkar aðgerðir. Fulltrúar Alþýðusambands Íslands hafa vikum saman unnið að því að reyna að skapa grundvöll að nýrri þjóðarsátt í þessum málum. Satt að segja hefur engin ríkisstjórn um langt árabil búið við það eins og sú sem nú situr að allir stjórnmálaflokkarnir í landinu, líka þeir sem eru í stjórnarandstöðu, samtök launafólks og samtök atvinnulífsins væru reiðubúin að taka höndum saman um nýja þjóðarsátt til að bjarga íslensku atvinnulífi.
    Því miður er það þannig að sú niðurstaða sem ríkisstjórnin náði á næturfundum sínum um helgina eyðir á svipstundu þessum möguleika á þjóðarsátt. Fulltrúar Alþýðusambands Íslands hafa þegar lýst því yfir að þessar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar séu eins og blaut tuska í andlit launafólksins í landinu. Sá maður sem hefur sýnt ríkisstjórninni hvað mesta tiltrú í þessum efnum, Ásmundur Stefánsson, lýsir yfir djúpum vonbrigðum sínum með þessa niðurstöðu. Forsvarsmenn atvinnulífsins segja að aðgerðirnar hljóti bara að vísa á nýjar aðgerðir.
     Hæstv. forsrh. Hvernig stendur á því að þú kaust ekki að taka í þessar útréttu hendur? Þú hafnaðir því að taka í útréttar hendur okkar í stjórnarandstöðinni. Þú hafnaðir því að taka í útréttar hendur samtaka launafólks og kaust í staðinn á næturfundum að leiða ríkisstjórnina inn á brautir þar sem friðurinn er slitinn í sundur, þar sem í staðinn kemur tímabil óvissu og átaka, upplausnar og sundrungar.
    Ef reynt er að draga saman í örstuttu máli kjarnann í því sem ríkisstjórnin hefur nú ákveðið má draga hann saman í sex þætti. Í fyrsta lagi er því hafnað að fara leið þjóðarsáttar til að ráða fram úr hinum mikla vanda okkar Íslendinga og friðurinn slitinn við samtök launafólks og önnur stjórnmálaöfl í landinu.
    Í öðru lagi er hafnað þeirri leið sem bæði við í Alþb., Alþýðusambandi Íslands og aðrir hafa lagt til, að herkostnaðurinn af þessum aðgerðum væri fyrst og fremst borinn af fjármagnseigendum og hátekjufólkinu í landinu. Þessu er hafnað. Fjármagnseigendur verða á næsta ári algerlega stikkfrí eins og í ár. Þeir leggja ekki krónu í þennan pott. Hátekjuaðallinn í landinu fær á sig byrðar sem eru svo litlar að þær mælast varla meira en upp í nös á ketti. Í staðinn er ákveðið að hækka almennan tekjuskatt, lækka barnabætur, lækka vaxtabætur og leggja stórfelldar auknar byrðar á almennt launafólk í landinu, fólk með 70, 80 og 90 þús. kr. mánaðartekjur. Í stað þess að láta fjármagnseigendur og hátekjufólkið bera fórnarkostnaðinn af þessum aðgerðum er hann lagður á almennt launafólk í landinu.
    Í þriðja lagi eru engar sérstakar nýjar aðgerðir til atvinnuskapandi framfara í landinu á næsta ári í þessari niðurstöðu. Við í Alþb. lögðum fram tillögur sem fela í sér möguleika á því að hér yrðu sköpuð 1.200--1.800 ný störf á næstu 8--12 mánuðum. Slíkum tillögum er hafnað. Það eina nýja sem er í þeim texta sem forsrh. las áðan eru 500 millj. sem hann segir að eigi að fara í einhvers konar aðgerðir á þessu svið og þó kemur það ekki skýrt fram hvort það eru 500 millj. kr. til viðbótar við það sem búið var að ákveða áður. Allt annað sem hann las upp hefur áður verið tilkynnt og ákveðið. Það er ekkert nýtt sem tekin var ákvörðun um á þessum næturfundum til að skapa hér aukna atvinnu heldur mun þessi stefna helgarinnar og næturinnar leiða til þess að atvinnuleysið mun því miður halda áfram að aukast. Atvinnuleysið mun halda áfram að aukast eftir þessar aðgerðir. Það er ekkert í þessum aðgerðum sem stöðvar aukningu atvinnuleysisins á Íslandi.
    Í fjórða lagi er alveg ljóst að aðgerðirnar rjúfa stöðugleikann. Þær stefna í hættu þeim mikla árangri sem við höfum náð í baráttunni gegn verðbólgunni. Verðbólguhugsunarhátturinn byrjar í dag. Hækkanahugsunarháttur gamla tímans byrjar í dag. Gengisfellingarhugsunarháttur gamla tímans byrjar í dag. Kollsteypuhugsunarháttur gamla tímans byrjar í dag. Óstöðugleikinn þar sem menn bíða eftir næstu gengisfellingu byrjar í dag. Á einni helgi, á einni nóttu er kippt grundvellinum undan þeim mikla árangri sem við höfum í sameiningu náð, síðasta ríkisstjórn og launafólkið í landinu, og sem þessi ríkisstjórn hafði fram að þessari helgi sagt að hún mundi standa við. Nú veit enginn lengur hvað verður hér í næstu viku, næsta mánuði eða byrjun næsta árs í þessum efnum. Tölurnar fara aftur að stíga upp á við.
    Í fimmta lagi rýfur ríkisstjórnin fyrirheitið sem hún gaf samtökum launafólks í síðustu kjarasamningum og samkvæmt texta kjarasamninganna hefur Alþýðusamband Íslands, BSRB og Kennarasamband Íslands fullan samningsbundinn rétt til að segja upp samningum nú þegar. Það er ríkisstjórnin í landinu sem hefur ákveðið að rifta kjarasamningunum með þessum hætti og hún treystir kannski á það að launafólkið í landinu muni ekki notfæra sér þetta ákvæði kjarasamninganna. En það er alveg ljóst að búið er að brjóta einn meginhornstein síðustu kjarasamninga og innleiða þannig á nýjan leik gömlu óvissuna á vinnumarkaðinum, gamla óstöðugleikann. Enn á ný ofan á gamla verðbólguhugsunarháttinn, gömlu aðferðirnar er búið með þessari gömlu aðferð um slit á kjarasamningum að skapa gamla ástandið um óvissu á vinnumarkaði. Við þurfum svo að bíða eftir því næstu daga og vikur að fá að vita það hvort samtök launafólks muni notfæra sér þann rétt sem þau hafa í kjarasamningunum eftir þetta brot ríkisstjórnarinnar á þeim fyrirheitum sem hún gaf.
    Í sjötta og síðasta lagi er það auðvitað eitt megineinkenni þessara aðgerða að þær fela í sér ávísun á nýja gengisfellingu. Það hljóta allir menn að sjá, allir þeir sem þekkja atvinnulífið í landinu, allir þeir sem sitja í ríkisstjórn og eiga að heita ábyrgir menn með opin augu að sjá það að þessar aðgerðir eru bara boðskort að nýrri gengisfellingu. Það er bara spurning um einhverjar vikur og einhverja mánuði hvenær hún verður framkvæmd. Með öðrum orðum, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrh., þið eru komnir inn á hina gömlu braut ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar þegar gengið var fellt og gengið svo aftur fellt og þannig koll af kolli. Það er ekki nokkur forustumaður í íslensku atvinnulífi í dag sem trúir því að þessar ráðstafanir dugi atvinnulífinu. Því trúir enginn forustumaður í sjávarútvegi, enginn forustumaður í iðnaði og ég veit að hæstv. sjútvrh. mun auðvitað ekki koma hér upp og segja að þessar ráðstafanir dugi sjávarútveginum. Svo eftir þetta næturverk er spurningin bara: Hvenær kemur næsta gengisfelling? Það hljóta allir í viðskiptalífinu og atvinnulífinu að miða sínar ákvarðanir við það að ríkisstjórnin hefur nú vakið þá spurningu. Í stað stöðugleikans í verðlagsmálum, stöðugleikans á vinnumarkaði og stöðugleikans í gengismálum er búið að innleiða hina gömlu tíma óvissunnar í þessum efnum. Því miður, hæstv. forsrh.
    Við í Alþb. vorum tilbúin til að leggja mikið á okkur og einnig félagar okkar í stjórnarandstöðunni til að taka höndum saman við ríkisstjórnina í þessum verkum. Við gerðum okkur grein fyrir því að það kynni kannski að treysta ríkisstjórnina í sessi. En við töldum málið svo mikilvægt, erfiðleikana svo afgerandi að það væri nauðsynlegt að við sýndum vilja okkar í þessum efnum og værum reiðubúin að rétta fram útrétta hönd og við hvöttum til þess að forustusveit samtaka launafólks gerði slíkt hið sama. Við hvöttum til þess að forustumenn atvinnulífsins gerðu slíkt hið sama. En því miður er það þannig að ríkisstjórnin hefur slegið á þessar útréttu hendur og það verður mjög erfitt fyrir ríkisstjórnina að koma sér á ný upp trúnaðarsambandi við forustumenn samtaka launafólks og atvinnulífsins eftir það sem nú hefur gerst.
    Erfiðleikarnir eru það miklir að við þurftum einmitt á því að halda nú að ríkisstjórnin teymdi þjóðina saman þannig að við sætum öll saman við árar í þeim lífróðri sem nú þarf að róa. Við höfum enga tryggingu fyrir því að efnahagslegt sjálfstæði Íslendinga verði veruleiki eftir fjögur eða fimm ár. Erfiðleikarnir eru svo djúpstæðir að við getum ekki sagt með vissu: Við munum ná höfn.
    Ég trúði því nánast alveg þangað til um þessa helgi að ríkisstjórninni væri alvara með að vilja ná þessari víðtæku samstöðu. En það hefur ekki gerst. Ég hélt að fundurinn með okkur í stjórnarandstöðu síðasta miðvikudag væri byrjunin á víðtæku samráði. Það var ekki svo. Við fulltrúar Alþb. komum til utanrrh. og forsrh. fyrir einum og hálfum mánuði síðan og sögðum: Við erum tilbúnir í viðræður um stuðning við aðgerðir, og utanrrh. og forsrh. sögðu við okkur: Við skulum ræða saman eftir næstu helgi. Síðan er liðinn rúmur mánuður og það eina sem hefur gerst er þessi fundur sem var í síðustu viku, á miðvikudaginn var. Tilboði stjórnarandstöðunnar um víðtæka samvinnu hefur í reynd verið hafnað, því miður.
    Forseti Alþýðusambandsins, Ásmundur Stefánsson, var allt fram á síðasta föstudag að vinna að því að reyna að ná víðtæku samkomulagi um réttlátar aðgerðir. Með þessum ákvörðunum um helgina hefur líka verið gefið til kynna að menn ætli ekki að fylgja slíkri aðgerð.
    Virðulegi forseti. Ef litið er yfir feril ríkisstjórnarinnar á undanförnum vikum er hann auðvitað allur með þeim hætti, þegar niðurstaða helgarinnar er skoðuð, að tiltrú manna á að ríkisstjórnin ráði við verkið hlýtur að vera algerlega horfin. Fyrir rúmum tveimur mánuðum sagði hæstv. forsrh. Davíð Oddsson að ekki væri þörf á neinum aðgerðum. Fyrir einum og hálfum mánuði síðan lagði fjmrh. fram fjárlagafrv. þar sem ein meginforsenda frv. var að botninum í efnahagslífinu væri náð og þess vegna þyrfti ekki á öðrum aðgerðum að halda. Hvort tveggja reyndist algerlega rangt.
    Fyrir helgina sagði hæstv. forsrh. að gengislækkun sænsku krónunnar væri góð tíðindi fyrir okkur og það væri algerlega þarflaust fyrir Íslendinga að hreyfa við gengi íslensku krónunnar nema norska krónan félli. Norska krónan stendur enn og hefur styrkst á síðasta sólarhring eftir fréttum að dæma. En forsrh. tók helgina í að gera þveröfugt við það sem hann sagði þjóðinni.
    Þær aðgerðir sem hér voru raktar af hálfu hæstv. forsrh. eru auðvitað slík öfugmælavísa þegar horft er á stefnuyfirlýsingar Sjálfstfl. fyrir síðustu kosningar að þessir menn þurfa satt að segja kjark til að koma aftur til kjósenda og biðja um stuðning. Sjálfstfl. lofaði því að lækka skattana á einstaklingum, lækka tekjuskattinn, lækka eignarskattinn o.s.frv. Tilkynningin sem birtist okkur í dag hefur það í för með sér að árið 1993 verður algert og sérstakt metár í skattheimtu á einstaklinga af hálfu ríkisins. Það hefur stundum verið notað orðið skattmann á fjmrh. Það dugir ekki lengur á þessa stærðargráðu. Það verður að fara í aðra

veru kvikmyndaheimsins, ófreskjuna King Kong, til þess að finna einhverja samlíkingu við það risavaxna stökk sem skattheimta fjmrh. Friðriks Sophussonar og Davíðs Oddssonar á einstaklingana mun hafa í för með sér á árinu 1993. Þeir sem lofuðu ekkjunum lækkun á ekknaskattinum og eignarskattinum. Það hlýtur að vera undarlegt sálarlífið hjá þeim að þurfa að horfast í augu við það enn á ný að sá skattur var ekki lækkaður í fyrra, hann er ekki lækkaður í ár og hann verður ekki lækkaður á næsta ári, hann verður ekki lækkaður á þessu kjörtímabili. Allt það sem kjósendum í Reykjavík var lofað af hálfu Sjálfstfl. í skattamálum hefur verið svikið. Það litla sem eftir stóð af loforðunum fauk með ákvörðunum helgarinnar og næturinnar.
    Hvað á ríkisstjórn að gera sem er komin í þessa stöðu? Hún er komin í þá stöðu að henni hefur mistekist að skapa hér breiða þjóðarsamstöðu um aðgerðir. Hún hefur fengið verkalýðshreyfinguna upp á móti sér. Hún hefur slitið forsendur kjarasamninganna. Hún hefur gengið á bak kosningaloforðanna sem flokkur forsrh. gaf fólkinu í landinu og hún kemur með aðgerðapakka sem hlýtur að vera ávísun á nýja gengisfellingu eftir skamman tíma. Hún skapar ekki stöðugleika í atvinnulífi, á vinnumarkaði eða á gengismarkaði. Í raun og veru, hæstv. forsrh., hefði verið meiri manndómsbragur að því og það hefði verið skynsamlegra að viðurkenna einfaldlega að ríkisstjórninni hafi ekki tekist að standa við fyrirheit sín, að henni hafi brugðist bogalistin og að hún hefði farið út af þeirri braut sem hún ætlaði að ganga. Ríkisstjórnir sem lenda í þeirri stöðu og vilja sýna manndóm, skynsemi og heiðarleika eiga auðvitað að biðjast lausnar. Það hefði verið hin rökrétta ákvörðun helgarinnar að þingflokkar Sjálfstfl. og Alþfl. hefðu í gærkvöldi ákveðið að beðist yrði lausnar fyrir ráðuneyti Davíðs Oddssonar og það yrði reynt að skapa breiða samstöðu á þingi og utan þings um það sem gera þarf.
    Hlutur Alþfl. í þessum aðgerðum er auðvitað sérstakur kapítuli og ég veit ekki hvort maður á í upphafi þessara umræðna að eyða löngu máli í það. Alþfl. hefur sagt á undanförnum vikum: Fjármagnstekjuskattur er algert skilyrði fyrir því að Alþfl. taki þátt í þessum aðgerðum. Hver er niðurstaðan? Algerlega óbreytt ástand. Alþfl. fær bara endurprentaða í þessari tilkynningu gömlu yfirlýsinguna frá því fyrir ári um að lofa fjármagnsskatti einhvern tíma í framtíðinni. Alþfl. hefur sagt það á undanförnum vikum að umtalsverður hátekjuskattur væri skilyrði fyrir því að Alþfl. tæki þátt í þessu. Hver er niðurstaðan? Hátekjuskattur sem nær varla máli.
    Alþfl. hefur sagt það undanfarnar vikur að það komi ekki til greina að samþykkja almenna tekjuskattshækkun. Alþfl. hafnaði því með miklum yfirlýsingum hér fyrir um það bil tíu dögum síðan. Hver er niðurstaðan? Niðurstaðan er almennur tekjuskattur, hækkun upp á 1,5% plús lækkun á barnabótum, plús lækkun á vaxtabótum.
    Alþfl. hefur sagt það í mörg missiri að ný sjávarútvegsstefna frá áramótunum 1992--1993 væri forsenda fyrir því að Alþfl. tæki áfram þátt í þessu samstarfi. Hver er niðurstaðan? Niðurstaðan er stórkostlegur sigur fyrir Kristján Ragnarsson og Þorstein Pálsson. Ef einhverjir eru sigurvegarar þessarar helgar í fiskveiðimálum eru það þeir. Alþfl. verður að sætta sig við það að forsrh. lauk á hógværan hátt ræðu sinni áðan með því að segja að þar með sé störfum tvíhöfða nefndarinnar lokið. Það stendur að vísu í þessu plaggi að það eigi á árinu 1997, tveimur árum eftir næstu kosningar, þegar næsta kjörtímabil er hálfnað og utanrrh. verður fyrir löngu orðinn sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum, kannski að taka upp einhvers konar gjald. (Gripið fram í.) Ég hélt að við Ísfirðingar héldum öðruvísi á málum. Við létum ekki bjóða okkur svona meðferð.
    Fjármagnstekjukröfum Alþfl. er hafnað. Hátekjukröfum Alþfl. er hafnað. Tekjuskattsandstöðu Alþfl. er ýtt til hliðar. Kröfu Alþfl. um nýja fiskveiðistefnu er ýtt til hliðar. Aflagjald er sett á tveimur árum eftir næstu kosningar. Það vita auðvitað allir að það getur enginn hér í salnum bundið þann þingmeirihluta sem kann að verða hér eftir næstu kosningar. Ósigur Alþfl. í þessum efnum er því alger.
    Það er dálítið um vaxtamálin í þessum textum. Ég vil orða það þannig að ef það er metið á jákvæðan hátt og með skilningi megi e.t.v. komast að þeirri niðurstöðu að þessar ráðstafanir kunni e.t.v. að lækka vextina örlítið. En það er túlkun byggð á mjög jákvæðu hugarfari gagnvart því sem hér er sagt. Það er hins vegar alveg eins líklegt að þessar aðgerðir, þegar þær verða komnar til framkvæmda, muni viðhalda því vaxtastigið sem er í landinu og jafnvel hækka það aðeins. Það verður engin umtalsverð breyting á vaxtastiginu í landinu í kjölfar þessara aðgerða, það eitt er víst. Þess vegna er það því miður þannig að þegar litið er yfir það sem hér var tilkynnt áðan, þá boðar það ekki þær breytingar sem við höfum lengi vonað að yrðu.
    Alþb. lagði fram sínar tillögur fyrir einum og hálfum mánuði. Þær standa enn. Þær tillögur fólu í sér að það yrðu fyrst og fremst fjármagnseigendurnir og hátekjufólkið í landinu sem yrði látið borga fjármagnskostnaðinn af því að rétta hlutina við. Því er hafnað í niðurstöðu ríkisstjórnarinnar. Tillögur Alþb. fólu í sér margvíslegar ráðstafanir til að skapa hér 1.200--1.800 ný störf á næstu missirum. Slíkri nálgun er algerlega hafnað í þessum tillögum. Tillögur Alþb. fólu í sér að í stað hinnar hörðu frjálshyggju, grundvallarhugmyndafræði ríkisstjórnarinnar, kæmi ný leið samhæfingar og samvinnu aðila atvinnulífs, samtaka launafólks og stjórnvalda. Því er líka hafnað í verki með þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin ákvað um helginga.
    Við hörmum það að ríkisstjórnin skuli ekki hafa borið gæfu til þess að taka í útrétta samvinnuhönd okkar og annarra. Við hörmum það að niðurstaðan af þessum aðgerðum verður aukið atvinnuleysi.

Við hörmum það að niðurstaðan af þessum aðgerðum verður fimmföld rýrnun kaupmáttar hjá launafólki á næsta ári samanborið við það sem orðið hefði ella en umfram allt er það auðvitað hin stóra sök þessarar ríkisstjórnar að með ákvörðunum næturinnar og helgarinnar er aftur gengið inn á hina gömlu braut verðhækkana, hina gömlu braut sífelldra gengisfellinga, hina gömlu braut óróleika á vinnumarkaði og hina gömlu braut átaka og togstreitu í þjóðfélaginu. Íslensk þjóð hefði þurft að fá annað í gjöf frá ríkisstjórn sinni á þessum degi en slík verk.
    Það hefði verið skynsamlegra fyrir hæstv. forsrh. að ákveða í nótt að horfast í augu vð þá staðreynd að honum og ríkisstjórn hans hefur mistekist að ráða fram úr erfiðleikum íslensku þjóðarinnar og skapa þá samstöðu sem við þurfum nú á að halda. Hann hefði átt að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt í dag.