Tilkynning frá ríkisstjórninni

59. fundur
Mánudaginn 23. nóvember 1992, kl. 14:37:58 (2521)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í tæpan einn og hálfan mánuð hefur verið rætt um aðgerðir til að bæta stöðu atvinnulífsins og til að halda uppi vinnu í landinu. Stjórnarandstöðuflokkarnir áttu fund með forsrh. fyrir nokkrum vikum þar sem farið var yfir stöðuna. Þar vísaði hann fyrst og fremst á atvinnumálanefndina og gaf henni þá hálfan mánuð til þess að skila tillögum. En vikurnar liðu og þá voru höfð fögur orð um samráð og samstöðu. Hæstv. forsrh. sagði að það yrði ekki hægt að grípa til aðgerða án þess að um þær ríkti víðtæk samstaða sem flestra aðila í þjóðfélaginu. Þrátt fyrir það áttu viðræður sér stað án þess að fjölmörg samtök launþega væru kölluð til og án þess að stjórnarandstaðan fengi að fylgjast með rás viðburða þar til í síðustu viku að við áttum enn á ný fund með fulltrúum ríkisstjórnarinnar þar sem aftur var farið yfir stöðuna en virtist þó harla fátt hafa gerst. Síðan gerðist það í þann mund sem stjórnarandstaðan sat á fundi með fulltrúum ASÍ og VSÍ að atburðarásin fór af stað. Gengið féll í Svíþjóð og það má segja að rás viðburðanna úti í heimi hafi leitt það af sér að ríkisstjórnin ákvað loksins að taka málin í sínar hendur, að þessu sinni án samráðs við stjórnarandstöðuna og án þess að stór hluti vinnumarkaðarins fengi að fylgjast með. Það er því niðurstaðan af því sem hér hefur verið kynnt að hin pólitíska ábyrgð er hjá ríkisstjórninni og hún getur ekki vænst þess að samstaða muni ríkja um aðgerðir hennar enda eru þær nú flestar gamalkunnugar plástursaðgerðir og ýmis óljós áform sem ekki er hægt að samþykkja að mínum dómi.
    Ef við lítum á þessar aðgerðir, virðulegi forseti, þá verður auðvitað að segjast eins og er að við sem hér erum í dag höfum haft ákaflega stuttan tíma til að átta okkur á þeim. Að vísu er ýmislegt gamalkunnugt úr umræðunni en hér er líka að finna margt nýtt sem ekki hefur komið til tals og við hljótum að spyrja okkur hvað þýði og hvert eigi að stefna.
    Ég spyr mig: Hver eru markmiðin með þessum aðgerðum? Hvaða árangri á að ná? Hver eru langtímamarkmiðin sem þessi ríkisstjórn er að setja sér? Ég sé þau hvergi í þessum plöggum. Ég fæ ekki betur séð en þetta séu allt saman skammtímaaðgerðir.
    Í lok síðasta mánaðar voru 4.200 manns á atvinnuleysisskrá samkvæmt opinberum tölum og því má ljóst vera að það er afar brýnt að taka á þeim atvinnuleysisvanda sem við erum að glíma við. Ég spyr: Hvar eru þær aðgerðir? Hvar eru aðgerðirnar til þess að aðstoða það fólk sem nú þegar er atvinnulaust? Það sem getið er um hér eru gamalkunnugar aðgerðir sem kynntar voru í fjárlagafrv. Ég hlýt að benda á það að hér eru m.a. nefndar aðgerðir til að efla rannsóknir og þróun. Eins og við vitum eiga þeir peningar að koma frá sölu ríkisfyrirtækja en það er afar hæpið að þeir peningar muni skila sér.
    Þær aðgerðir sem bent er á í atvinnumálum eru fyrst og fremst í vegaframkvæmdum og byggingarframkvæmdum. Ég hlýt enn einu sinni að spyrja: Hvar eru þær aðgerðir sem eiga að koma konum til aðstoðar? Hvar eru aðgerðirnar sem eiga að veita konum vinnu því það er staðreynd að konur eru í meiri hluta atvinnulausra. Svona tillögur er ekki hægt að bera á borð fyrir okkur. Hér er að vísu vikið að sérstökum aðgerðum á Suðurnesjum sem ég fagna vissulega. En ég hlýt að spyrja: Hvað felst í þeim? Er það eitthvað annað en tvöföld Reykjanesbrautarinnar? Hvar er vinnan sem konurnar eiga að fá?
    Ég spyr líka: Hvað þýða þessar aðgerðir fyrir hina lægst launuðu? Ég fæ ekki betur séð við að skoða þessar tillögur en að hér sé um margfaldar álögur á heimilin í landinu að ræða. Hér er hækkun tekjuskatts upp á 1,5% sem leggst á alla. Kaupmáttarrýrnun mun fylgja í kjölfar gengisfellingarinnar. Niðurskurður er boðaður í ríkisbúskapnum og þar eru t.d. nefndar bæði barnabætur og vaxtabætur og við hljótum að spyrja: Hvað felst í þeim áformum? Hvernig munu þau koma niður á fjölskyldunum í landinu? Við minnumst þess að barnabætur voru skornar niður í fyrra hjá mörgum fjölskyldum. Hér á enn að höggva í þann knérunn og þetta eru allt saman álögur sem leggjast á fjölskyldurnar í landinu. Skuldir heimilanna, sem eru miklar að vöxtum og hafa farið mjög vaxandi á undanförnum árum, munu einnig vaxa með þessum aðgerðum. En það er afar óljóst hvort sú vaxtalækkun sem meiningin verður að ná með þessum aðgerðum muni nást.
    Það segir í plaggi ríkisstjórnarinnar að mikilvægasta vörnin fyrir þá sem lægst hafa launin sé að varðveita stöðugleikann enda er það meðal meginmarkmiða aðgerðanna, segir þar. Ég sé hvorki stöðugleika né að mikil vörn felist í þessum aðgerðum fyrir þá sem lægst hafa launin. Hér er verið að leggja auknar álögur á heimilin í landinu og það er ekki að sjá í þessu neinar aðgerðir til þess að verja hina lægst launuðu. Því hlýt ég að mótmæla.
    Það segir einnig hér að þessar breytingar feli það í sér að þeir sem betur mega sín beri byrðarnar. Þar er væntanlega átt við hátekjuskattinn upp á 5%. Sem betur fer var viðmiðuðun hækkuð frá því sem um var talað. Það var rætt um 160 þús. kr. tekjur fyrir einstakling en þau mörk hafa nú verið hækkuð upp í 200 þús. Vissulega tökum við kvennalistakonur undir það að löngu tímabært var að setja á hátekjuskattþrep en þessi skattur skilar afskaplega litlu. Enn einu sinni gefst ríkisstjórnin upp við það að koma á fjármagnsskatti. Enn einu sinni treystir hún sér ekki til þess að ganga gegn mótmælum fjármagnseigenda. Reyndar verð ég að segja það, virðulegi forseti, að mér leist ekki á þá útfærslu sem var til umræðu og hefði hugsanlega leitt af sér einhvern sparifjárflótta því að sjálfsögðu er mjög mikilvægt að verja hagsmuni sparifjáreigenda. En auðvitað eru þetta bara eins og hverjar aðrar tekjur og að fólk skuli geta haft milljónir króna í vaxtatekjur án þess að borga af því nokkurn skatt er aldeilis fráleitt og tíðkast hvergi nokkurs staðar í ríkjum Evrópu. Að mínum dómi hefði verið mun nær að snúa sér að því skattleggja neysluna með ríkari hætti en hér er gert. Þá ég einkum við það sem ég kalla lúxusskatta og tíðkast í mörgum ríkjum Evrópu. Hér er alltaf sama sagan, það má hvergi koma nálægt þeim ríkustu.
    Hér er staðfest að það á að hækka virðisaukaskatt á bókum, blöðum, útvarpi, sjónvarpi, ferðaþjónustu og húshitun. Ég hlýt að vara við þessum áformum og spyrja hvaða áhrif þetta hafi á þær atvinnugreinar sem standa að útgáfu blaða og bóka og ekki síður ferðaþjónustu sem til skamms tíma hefur verið einn helsti vaxtarbroddur í íslensku atvinnulífi. Við hljótum að spyrja okkur hvað það þýði fyrir þessa atvinnugrein. Það hefur verið að koma í ljós að þeir hafa verðlagt sína þjónustu heldur hátt og menn eru kvíðnir vegna þess að greinin er að koma sér í erfiða stöðu. Þetta verður ekki til þess að bæta hana og ég hlýt að spyrja hvað þetta þýði fyrir þessar atvinnugreinar.
    Ég hlýt líka að spyrja, hvað er átt við með virðisaukaskatti á húshitun? Er meiningin að skattleggja alla húshitun í landinu? Þetta er ekki nógu skýrt eins og það kemur hér fram. Það er boðað að ná eigi samstarfi við sveitarfélögin í landinu til þess að bæta þeim upp þann tekjumissi sem þau verða fyrir en samkvæmt reynslu okkar í fyrra af þeim aðgerðum sem þá var gripið til gegn sveitarfélögunum hljóta að vakna spurningar um það hvernig því samstarfi verði háttað. Sveitarfélögin hafa mörg hver mótmælt harðlega áformum um að leggja niður aðstöðugjaldið enda vegur það mjög þungt í tekjuöflun margra þeirra. Það verður auðvitað að tryggja það að sveitarfélögin nái þessum tekjum inn á annan hátt þó að við vitum öll að aðstöðugjaldið er óréttlátur skattur og hefur mjög mismunandi þýðingu fyrir hin ýmsu sveitarfélög. Hér er það ekki síst Reykjavíkurborg sem við verðum að taka tillit til og minnast þess hve mikla félagslega þjónustu Reykjavíkurborg hefur á sínum snærum. Ég vona að menn séu ekki með hugmyndir um að skerða hana.
    Sú spurning hlýtur einnig að vakna hvað þessar aðgerðir þýða fyrir kjarasamningana. Síðustu kjarasamningar byggðust á því að gengið yrði stöðugt og það hlýtur að verða rætt meðal samtaka launafólks hvernig brugðist verði við þessum aðgerðum. Það gæti farið svo að órói yrði á vinnumarkaðnum vegna þessara aðgerða. Ég get ekki annað en minnst á að það er ekki einu sinni búið að semja við öll samtök launafólks, þar á meðal eru ríkisstarfsmenn í BHMR.
    Virðulegi forseti. Það er ekki ástæða til þess að hafa mjög langt mál um þessar aðgerðir enda þarf að skoða þær betur. Sú spurning vaknar hvað þetta þýði fyrir stöðu atvinnuveganna. Hverju breytir þetta fyrir atvinnulífið? Ég tel að þessar aðgerðir dugi of skammt. Ég spyr líka: Hvað þýðir þetta fyrir stöðu heimilanna í landinu? Þeirra hagur versnar. Við verðum vissulega að horfast í augu við það, virðulegi forseti, að atvinnulífið á við mikinn vanda að stríða en hann verður ekki leystur með svona skammtímaaðgerðum. Uppstokkunar er þörf, bæði í sjávarútvegi og landbúnaði en fyrst og fremst er þó brýnt að hér eigi sér stað nýsköpun í atvinnulífinu. Við verðum að afla tekna. Það er ekki endalaust hægt að skera niður. Við verðum að afla tekna á móti. En ég sé þess engin merki í tillögum ríkisstjórnarinnar að slík stefnumörkun sé hér á ferð.
    Ég átti þess kost í síðustu viku að hlusta á hagfræðing sænska vinnuveitendasambandsins þar sem hann ætlaði sér að greina frá hinni svokölluð sænsku leið en hún tók svo miklum breytingum þann sólarhring sem hann var hér á ferð að hann varð að breyta nokkuð máli sínu. Það vakti athygli mína þegar hann sagði að sænskir vinnuveitendur hefðu bent stjórnvöldum á það fyrir u.þ.b. ári að það yrði að grípa til aðgerða. Þeir bentu á þá spennu sem var að myndast í sænsku atvinnulífi en það var ekkert á þá hlustað. Ég spyr mig: Hvaða ljós eru það sem blikka nú í íslensku atvinnulífi? Við höfum heyrt það undanfarna daga að fulltrúar sjávarútvegsins eru mjög áhyggjufullir vegna þeirrar stöðu sem þar er og ekki síst vegna þess hve illa veiðist þessar vikurnar. Ég spyr mig: Eru þau ljós að blikka sem boða enn meiri samdrátt og enn meiri erfiðleika á næsta ári? Ég held að við verðum að gefa því gaum hversu erfið staða það er sem við stöndum frammi fyrir og það er ekki útlit fyrir að við séum að komast út úr þessum vanda heldur virðist því miður blasa við okkur margra ára samdráttur. Því hljótum við að verða að spyrja okkur grundvallarspurninga um það hvernig við ætlum að reka okkar þjóðfélag og hvaða vinnu við ætlum að halda uppi í landinu.
    Ríkisstjórnin sér ekkert annað en niðurskurð. Þar skortir mjög á alla víðsýni og bjartsýni og að menn reyni að horfa á það hvar og hvernig hægt er að afla aukinna tekna. Það er ljóst af því sem hér hefur verið sagt í dag að helst má hvergi koma nærri þeim sem best hafa kjörin. Ég verð að segja að það er lítið um sálfræðileg trikk í þessum aðgerðum en hæstv. forsrh. boðaði það að sumar af þessum aðgerðum væru bara sálfræðilegar til þess að friða einhverja aðila úti í bæ.

    Hér er allt gamalkunnugt, eins og ég sagði áðan, og ég verð að segja það að lokum, virðulegi forseti, að ég óttast það að eftir nokkra mánuði þegar þessar aðgerðir hafa skilað sér úti í þjóðfélaginu með góðu og illu munum við aftur standa í sömu sporunum.