Tilkynning frá ríkisstjórninni

59. fundur
Mánudaginn 23. nóvember 1992, kl. 14:54:18 (2522)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 8. þm. Reykn. komst svo að orði í ræðu sinni áðan að sá vandi sem steðjar að okkur Íslendingum væri djúpstæður og erfiður. Það er rétt hjá honum. Það var kannski það eina í ræðu hans sem minnti á þann stjórnarandstöðuforingja sem fyrir fáum vikum síðan sagði: Gamla stjórnarandstöðupólitíkin að vera á móti öllu sem frá ríkisstjórninni kemur er fyrir bí. Það er úrelt. Svoleiðis vinnubrögðu stundum við ekki framar. Það var í anda þess hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar sem boðaði hina útréttu sáttahönd. En það var líka það eina í ræðu hv. þm. sem var í anda hins nýja Ólafs Ragnars. Afgangurinn var gamli Nixon, ekki ,,new Nixon``.
    Það er alveg rétt að vandinn er mikill og djúpstæður. Við megum hins vegar ekki standa í þeirri trú að við Íslendingar séum einir á báti í þeim efnum. Allt í kringum okkur sigla þjóðir krappan sjó í djúpri efnahagslægð. Að sumu leyti eigum við við svipuð vandamál að etja af þeim sökum, önnur eru sértæk fyrir okkar þjóðarbúskap. Það er ekkert nýtt þegar ég segi að vandinn er einkum þríþættur, svo ég noti algengt orðalag virðulegs prófessors. Aflabrestur, sem hefur víðtækar samdráttarafleiðingar um allt þjóðfélagið. Djúp efnhagslægð í efnahagsumhverfinu, sem hefur m.a. orðið til þess að við höfum orðið að fresta áformum um stórtækar nýjar fjárfestingar sem hefðu þýtt nýja sókn í atvinnulífinu. Og hið þriðja er uppsafnaður vandi frá langri fortíð, skuldavandi þjóðarinnar sjálfrar, atvinnuveganna og þá sérstaklega sjávarútvegsins sem takmarkar mjög svigrúm okkar til að bregðast við þegar kreppir að.
    Það er vegna þess að menn voru sammála um að vandinn væri djúpstæður og erfiður sem forustumenn í íslensku þjóðlífi, forustumenn verkalýðshreyfingarinnar, vinnuveitenda og ýmsir forustumenn stjórnmálaflokka, sögðu: Nú þurfum við að efna til sem víðtækastrar samstöðu um það hvaða leið er skynsamlegust út úr þessum vanda, ekki bara til skamms tíma heldur til frambúðar.
    Það var mikið fagnaðarefni og góðs viti ef við það hefði verið staðið. Ég er alveg sannfærður um að frumkvæði aðila vinnumarkaðarins á undanförnum vikum hefur skilað góðu verki og þess sér rækilega merki í þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur boðað. Förum aðeins yfir það. Hvað voru þeir að segja, þessir góðu menn? Þeir sögðu: Fyrst og síðast viljum við forðast að við lendum aftur í nýrri kollsteypu víxlverkana verðbólgu. Fyrst og síðast viljum við varðveita þann árangur sem náðst hefur á sl. þremur árum. Seinast af öllu viljum við fórna honum fyrir skyndiaðgerðir t.d. risavaxna gengisfellingu. Við skulum sameinast um þau úrræði sem duga til þess að festa stöðugleikann í sessi --- og lögðu fram ákveðnar tillögur til þess.
    Þeir sögðu með öðrum orðum: Við skulum reyna að fara þessa kostnaðarlækkunarleið frekar en gengislækkunarleið. Um það var víðtæk samstaða. Hvað annað fólst sérstaklega í þessu?
    Þeir sögðu: Aðstöðugjaldið er skattur af því tagi sem samrýmist ekki inngöngu okkar í EES. Það er óréttlátur skattur. Það ber að leggja hann af. Aðstöðugjaldið er lagt af í þessum aðgerðum.
    Þeir vildu að tryggingagjöld í sjávarútvegi og í atvinnulífinu yrðu einnig lækkuð. Það var í hinum upphaflegu tillögum okkar en var dregið til baka í ljósi þess að við urðum að bregðast við gengisfellingu gjaldmiðla allt í kringum okkur. Það var því dregið til baka. Gengisfellingin hins vegar bætir stöðu útflutnings- og samkeppnisgreinanna betur en það hefði gert í því dæmi.
    Í annan stað sögðu aðilar vinnumarkaðarins: Við viljum að í þessum aðgerðum komi fram eftirfarandi þættir: Við vitum að það er verið að létta sköttum af atvinnulífinu sem þýðir tekjutap fyrir ríkissjóð og þeir komu með ákveðnar tillögur í því efni:
    Í fyrsta lagi vildu þeir að sett yrði upp tímabundið hátekjuþrep í tekjuskattinum. Það er í þessum tillögum.
    Í annan stað sögðu þeir: Við leggjum á það höfuðáherslu að í þessum aðgerðum verði markvisst stefnt að því að vextir geti lækkað, nafnvextir og raunvextir. Þeir viðurkenndu að til þess að ná því markmiði var eitt sem sker úr. Það var að treysta stöðu ríkisfjármála. --- Hefur það tekist? Já, það hefur tekist með umtalsverðum hætti. Hér hafa verið miklar umræður um það að fjárlagafrv., eins og það var lagt fram, hafi verið á ótraustum grunni. Við höfum viðurkennt það, hæstv. fjmrh. og aðrir talsmenn ríkisstjórnarinnar.
    Nú er það svo að þrátt fyrir að gjöldum er létt af atvinnuvegunum, sem nemur mörgum milljörðum, náðist samt sá árangur að ýmsum veikleikamerkjum í fjárlagafrv. var rutt úr vegi og niðurstöðutölur að því er varðar halla eru lægri þrátt fyrir auknar aðgerðir til atvinnusköpunar. Þetta er umtalsverður árangur og þetta er forsenda fyrir vaxtalækkun.
    Nú gátum við ekki ætlast til þess að aðilar vinnumarkaðarins leystu ríkissjóðsdæmið. Það hlutum við að gera sjálfir. Þeir lögðu auðvitað ekki fram tillögur í því efni. Sannleikurinn er sá, svo hann sé sagður, ef farið hefði verið að þeirra ýtrustu tillögum hefði ríkisfjárhagurinn verið veiktur svo verulega að vaxtalækkunarmarkmiðið hefði ekki verið trúverðugt. Þess vegna urðum við að ganga lengra í þeim efnum, sérstaklega með lækkun ríkisútgjalda. Hv. stjórnarandstæðingar geta ekki talað eins og heyrðist áðan: Ríkisstjórnin er uppfull af því að skera niður og skera niður. Það er krafa á þessa ríkisstjórn þegar fyrirtæki í

landinu og heimili í landinu standa frammi fyrir þrengingum að draga saman seglin í ríkisútgjöldum til þess að skapa svigrúm fyrir atvinnulífið, fyrir fyrirtækin, skapa forsendur fyrir lækkun vaxta. Það er það sem við erum að reyna að gera. Það eina sem hægt er að gagnrýna er að við höfum ekki gengið nægilega langt í því.
    Þeir sögðu: Það verður að vera lækkun vaxta. Hvað er síðan gert til þess fyrir utan að reyna að tryggja þessar forsendur? Það eru sértækar aðgerðir sem gripið er til sem eiga að stuðla að lækkun vaxta, hnykkja á því markmiði. Hvað er það? Þeir báðu um lækkun bindiskyldu. Það er lækkun bindiskyldu. Þeir báðu um lækkun dráttarvaxta. Það er lækkun dráttarvaxta. Í samtölunum kom fram að það væri til þess að styðja það markmið að ná samningum við lífeyrissjóðina um að þeir verðu ákveðnum hluta af sínu mikla ráðstöfunarfé, helmingnum af öllum sparnaði þjóðarinnar, til þess að styðja við bakið á atvinnulífinu í formi samnings um kaup hlutabréfa í atvinnulífinu. Sá samningur er gerður.
    Allt eru þetta aðgerðir sem gefa raunhæfar vonir um lækkun vaxta. En af hverju var þá ekki orðið við tillögunni um vaxtaskattinn? Við skulum fara yfir það. Tillagan var skilyrt. Hún var um þetta: Það var lagt til að fara út í skatt á vexti í staðgreiðslukerfinu en undanskilið skyldi vera: Ekki á lífeyrissjóðina. Nei. Ekki á fyrirtækin. Nei. Heldur bara á sparnað almennings, kannski einn fimmta af öllum sparnaði þjóðarinnar, sparisjóðsbækur hjá almenningi án frítekjumarks. Því miður, sögðum við. Það er ekki hægt. Um leið og þið biðjið okkur um að gera allt sem hægt er til þess að lækka vexti þá gengur þessi tillaga ekki upp. Hún er bæði óréttlát og gengur móti því meginmarkmiði sem þið eruð að biðja okkur um að styðja.
    Þess vegna hrín það ekki á mér þegar hv. 8. þm. Reykn. segir: Hvað varð um fjármagnstekjuskattinn? Fjármagnstekjuskatturinn er í stefnuyfirlýsingu þessarar ríkisstjórnar. Það liggur fyrir viðamikið nefndarálit um það hvernig hann skuli framkvæmdur. Það er staðreynd að það er ekki hægt að koma honum á nema með lengri undirbúningstíma. En það er jafnframt ljóst að til þess að undirbúa það verðum við t.d. að koma fram með frv. um svokallaða upplýsingaskyldu eða leysa það mál, því ella hangir í lausu lofti sú ákvörðun að tekjutengja t.d. grunnlífeyri ellilífeyrisþega, þannig að fjármagnseigendur með verulegar tekjur af fjármagni sitji við sama borð og aðrir ellilífeyrisþegar sem hafa tekjur af t.d. vinnu sinni. Þau frýjuorð um að þessum skatti hafi ekki verið komið á hér og nú eru þess vegna óraunsæi og ósannur áróður. Ríkisstjórnin er ekki fallin frá markmiði sínu en vegna þess að við tókum alvarlega áskorun um lækkun vaxta, gat ríkisstjórnin ekki gert annað en það sem hún hefur gert.
    Hvað var það annað sem talsmenn atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar báðu um? Í þessum viðræðum sögðu þeir, og það var kannski ekki hvað síst gagnlegasti partur þessara viðræðna: Við viðurkennum núna að efnahagsaðgerðir við þessi skilyrði geta ekki treyst atvinnu eða skilað árangri nema með því að við tökum á skuldavanda sjávarútvegsins. Ég þarf ekkert að nefna tölur í því efni. Yfir 100 milljarðar í atvinnugrein sem á seinasta ári skilaði söluverðmæti upp á 70--80 milljarða og skuldadreifingin slík að almennar efnahagsaðgerðir duga ekki til til þess að tryggja heilbrigðan rekstur slíkra fyrirtækja í framtíðinni.
    Þetta er hrikalega stórt vandamál. Verkalýðshreyfingin lagði til að ríkissjóður legði fram á næsta ári 1,8 milljarða í því skyni. Hvað gerði ríkisstjórnin? Ríkisstjórnin tilkynnir hér með í sínum efnahagsaðgerðum að samkomulag hafi tekist um að stofna þróunarfélag í sjávarútvegi. Leggur því til heimanmund upp á 4 milljarða ísl. kr. í formi skuldabréfa sem skulu vera afborgunarlaus næstu þrjú árin. Leggur jafnframt fram tillögur um það hvernig staðið skuli undir þessum áfallna kostnaði með því að inn í þetta félag renna gjöld af greininni sjálfri sem hún þegar greiðir í formi úreldingargjalds af skipum og nýtt gjald komi til sem úreldingargjald af fiskvinnslu. Í þriðja lagi komi frá og með fiskveiðiárinu 1996--1997, í trausti þess að þá hafi ræst úr að því er varðar afrakstur fiskstofna og afkomu í greininni, sérstakt þróunargjald sem við köllum svo.
    Þetta er sá þáttur þessara tillagna þegar upp er staðið, þegar allir verða búnir að gleyma smáatriðunum og aukaatriðunum í þessum ,,krísupakka``, sem mun standa upp úr og þykja merkilegast til framtíðar vegna þess að í þessum aðgerðum er í fyrsta sinn með skipulögðum og vel undirbúnum hætti tekist á við þennan skuldavanda.
    Af hverju skiptir það svo miklu máli núna? Það er einfaldlega vegna þess að ef þetta verk tekst sæmilega felst í því að þau fyrirtæki sem verða fjárhagslega endurskipulögð og munu fá annaðhvort í sinn hlut til veiða eða vinnslu stærri hlut af heildarafla fá sína stöðu bætta til frambúðar. Það þýðir að afkoma þess sjávarútvegs og þeirra sjávarútvegsfyrirtækja sem hafa traustan fjárhagslegan grundvöll mun batna verulega. Arðsemin mun batna verulega. Þjóðhagsstofnun hefur ekki haft tíma og ekki forsendur til að meta það hversu stór þáttur í afkomubata í sjávarútvegi þessar aðgerðir verða þegar tímar líðar fram. En í samtölum okkar er það alveg ljóst að þetta er ekki veigaminnsti þátturinn.
    Þegar menn spyrja: Hvernig verður með afkomu í sjávarútveginum að loknum þessum aðgerðum? Aðgerðir af gengislækkuninni skila sér í bata. Afnám aðstöðugjaldsins skilar sér að sjálfsögðu í bata og óbein áhrif afnáms aðstöðugjaldsins sömuleiðis. Síðan er munur á hækkun erlends kostnaðar og áhrifa hækkunar verðs á sjávarafurðum erlendis sem skilar nokkru. Áhrif vaxtalækkunar, ef hún tekst, verða til að bæta mjög hag sjávarútvegsins og annarra greina. Sérstakar aðgerðir til þess að lækka dráttarvexti munu skila greininni umtalsverðum bata. Þessi fjárhagslega endurskipulagning sem mun ekki fara að skila sér að ráði

fyrr en að nokkrum tíma liðnum mun gera mjög stórt strik í þennan reikning. Við höfum látið meta það vandlega hverju það gæti numið. Ég tel ekki rétt á þessari stundu að nefna neinar tölur um það vegna þess að í þessu eru mörg álitamál.
    Í því sem ég hef hér sagt hef ég svarað þeim spurningum hvort samráðið við aðila vinnumarkaðarins hafi verið hundsað. Svarið við því er nei. Ég er búin að telja upp hver eru aðalatriðin í því sem þeir lögðu áherslu á. Ég er búinn að svara hvernig ríkisstjórnin brást við og ég held því fram að það starf sem þeir unnu hafi vissulega borið mikinn árangur og þess sjáist rækilega merki í þeim tillögum sem hér liggja fyrir hv. þm.
    Síðan er þess að geta, sem rétt er að halda til haga, að í þessum tillögum er að sumu leyti um að ræða varanlegar aðgerðir, ekki bara viðbrögð við efnahagsvanda, sem munu skila árangri til frambúðar. Í því efni nefni ég t.d. afnám aðstöðugjaldsins sem var ekki bara óréttlátur skattur heldur skattur sem hafði uppsöfnunaráhrif í verði og á, við eðlileg samkeppnisskilyrði, að skila verðlækkunum sem einnig munu koma að gagni.
    Annað dæmi um varanlegar umbætur eru þær tillögur sem hér liggja fyrir um breytingar á virðisaukaskatti. Það eru tillögur sem kveða upp úr um það að við ætlum að hafa hér tveggja þrepa virðisaukaskatt. Af tvennu illu er það skárra en núverandi kerfi úr því að ekki er hægt að hafa hér einfaldan eins þreps skatt, sem menn greinir ekki á um að er hagkvæmasta kerfið. Þetta er ákvörðun um óbreytta efri prósentu að svo stöddu og 14% lægra þrep.
    Svo eru sérstakar aðgerðir til að taka á þeim vandamálum sem mest hafa vafist fyrir mönnum. Ég nefni vaxtarbroddinn, ferðaþjónustuna. Hún var nefnd hér af hv. þm. Steingrími Hermannssyni. Hvað er um hana að segja? Um hana er það að segja að það er mat manna að 14% virðisaukaskattur á ferðaiðnaðinn allan, þ.e. hótel, gistingu, samgöngur, flutninga, muni leggja á hana um 600 millj. kr. Á hún að sitja uppi með það? Svarið er nei. Vegna þess að afnám aðstöðugjaldsins léttir af henni sem svarar 300 millj. kr. og sérstök lækkun tryggingagjalds í þessari grein léttir af henni um 200 millj. kr. Síðan eru áhrif gengisfellingarinnar sem auðvitað vega þungt í þessari grein sem er nánast útflutningsgrein. Við metum það þess vegna svo að þarna hafi tekist með skynsamlegri tillögu að koma fram kerfisbreytingu til frambúðar en jafnframt taka tillit til sérstakra aðstæðna í þessari vaxtargrein.
    Að því er varðar virðisaukaskatt á hitunarkostnað er líka ljóst að þeirri aðgerð hljóta að fylgja mildandi aðgerðir að því er varðar hin köldu svæði. Þær eru ekki að fullu mótaðar en ég veit að iðnrh. mun gera nánari grein fyrir þeim hugmyndum.
    Virðulegi forseti. Ef við reynum að meta þessar aðgerðir og spyrja spurninga eins og þessara: Munu þessar aðgerðir duga? Þá skulum við líta á það sem hv. 8. þm. Reykn. sagði og þarfnast dálítilla skýringa. Hann segir: Svarið er nei. Það mætti kannski biðja hv. þm. sem það fullyrðir að líta á það hvert mat Þjóðhagsstofnunar er á annars vegar þróun verðbólgu og hins vegar afkomu í sjávarútvegi. Lítum á þjóðhagsleg áhrif aðgerða ríkisstjórnarinnar og lítum á verðbólgutölur. Ríkisstjórnin tók ákvörðun um þessa gengisfellingu út frá þessum forsendum: Kjarninn í þessum efnahagsaðgerðum er sú kostnaðarlækkunarleið sem við höfum unnið að og undirbúið á mörgum undanfarandi vikum. Gengislækkunin er fyrst og fremst viðbrögð við staðreyndum lífsins sem orðið hafa um gengisfellingar á mörkuðunum allt í kringum okkur. Gengisfellingunni er haldið í hófi af því að við ætlum ekki að láta hrekja okkur af leið stöðugleikans umfram það sem við erum nauðbeygðir til af óviðráðanlegum ytri aðstæðum. Verðbólgan er talin verða um 4,5% 1993. Hv. þm. sagði: Þetta er nú bara gamli tíminn. Þetta er bara kollsteypan. Nei, það er ekki rétt. Þetta er ekki gamli tíminn. Þetta er ekki kollsteypan. Enda er spáin sú að verðbólga verði hér 0,8% á árinu 1994. Hvernig getur nokkur maður haldið því fram að leið sem svona er sett fram og svona hugsuð og svona metin sé afturhvarf til fyrri tíma? Sameiginlega stóðum við að því, hv. þm., í ríkisstjórn árið 1989 að fella gengið, ég man ekki hve oft, allt upp í 30%. Þá var því haldið fram að það væri gamli tíminn. Það var heldur ekki gamli tíminn. Það var tilraun til að fikra sig út úr vandanum við þáverandi skilyrði til þess að ná stöðugleika. Við höfum ekkert snúið baki við því markmiði. Ég veit að innst inni er hv. þm. sammála mér. Hann sagði það fullum fetum áður en gripið var til aðgerðanna að hann væri ekki gengisfellingarmaður. Hann vildi varðveita stöðugleikann og hann kynni að meta hann. ( Gripið fram í: Og segir enn.) Og segir enn, takk. Um það er samstaða. Þess vegna er þessi leið í fullu samræmi við sjónarmið þeirra manna í forustu stjórnarandstöðuflokkanna og í forustu á vinnumarkaðnum sem segja: Fórnum ekki þeim dýrkeypta árangri sem náðst hefur á undanförnum árum, líka í tíð fyrrv. ríkisstjórnar, í að draga úr verðbólgu og að koma á stöðugleika. Því að við vitum ekki þó við eigum að vita það af gamalli reynslu til hvers það leiðir.
    Ég held því fram að með þeirri kostnaðarlækkunarleið sem hefur verið mótuð með þessari gengisaðlögun höfum við verið að vinna í anda samkomulags og sátta, í anda sáttfýsi og samstöðu. Meginatriðin í þessum tillögum eru í sátt og samlyndi við sjónarmið aðila vinnumarkaðarins. Ég lýsi engri undrun minni á því þótt þeir lýsi efasemdum sínum um að þetta sé nóg. Um það var engin samstaða í þessum hópi. Það var fullt af aðilum í sjávarútvegi sem voru eindregið þeirrar skoðunar að hér ætti að vera 30% gengisfelling. Því hefur verið hafnað. Það er minnihlutasjónarmið. Það er sérhagsmunasjónarmið. Það er óábyrgt sjónarmið.
    Þetta þarf að meta á mælikvarða þess að varðveita stöðugleikann en gera samt það sem gera þurfti

til að draga úr hættu á atvinnuleysi, til þess að styrkja afkomu atvinnulífs, til þess að koma í veg fyrir verðbólgukollsteypu, til þess að styrkja samkeppnisstöðu, einkum og sér í lagi útflutnings- og samkeppnisgreina og til þess að draga úr viðskiptahalla og þar með erlendri skuldasöfnun. Lítið á töflurnar. Samkvæmt þessari leið er verið að draga verulega úr viðskiptahalla í samanburði við grunndæmi sem lagt var fram, þ.e. grunndæmið kostnaðarlækkunin ein sér. Samkvæmt þessari leið er verið að draga úr hættunni á vaxandi erlendri skuldasöfnun á þrengingartímum. Þegar allt er lagt saman í sjávarútveginum er auðvitað ekki búið að koma öllum sjávarútvegi Íslands upp á eitthvert meðaltalsnúll. Það stóð aldrei til. Það er ekki vinnandi vegur. Það er ekki hægt. Það sem hins vegar er gert er að verða við flestum óskum.
    Auðvitað segja menn: Við hefðum kosið að sjá meira. Og auðvitað eru þar uppi álitamál. Ég nefni t.d. óskir um að sveitarfélögin legðu í þetta púkk með því að létta af sjávarútveginum hafnargjöldum. Þau hafa ekki boðið sig fram til þess en þau gætu svo sem gert það. Því sannleikurinn er sá að þeirra hlutur í þessum aðgerðum er óeðlilega góður. Þegar verið er að jafna byrðum á alla aðila sker einn aðili sig úr og fær að fullu bættan miðað við óeðlilega hátt innheimtuhlutfall sinn hlut. Þeir ættu kannski að svara því í staðinn með því að taka þátt í því átaki að létta kostnaði af sjávarútveginum með því t.d. að skera niður hafnargjöldin.
    Virðulegi forseti. Ég held því fram að þessar tillögur séu hinn gullni meðalvegur sem skynsamlegt var að reyna að feta við þessar kringumstæður. Ég held því fram að við höfum eftir bestu samvisku reynt að koma til móts við sjónarmið vinnumarkaðarins eftir því sem mögulegt var að svo miklu leyti sem það gekk ekki gegn markmiðunum sjálfum, svo sem vaxtalækkunarmarkmiðinu. Kjarni málsins er sá að við erum að reyna að grípa til aðgerða sem eru nægilega róttækar án þess þó að stefna í voða þeim árangri sem náðst hefur fyrir fórnfúst starf margra aðila, ekki síst aðila vinnumarkaðarins, við að koma hér á siðaðra manna hagstjórn.
    Ég óttast ekkert frýjuorð eins og þau: Hefur Alþfl. gengið hér í berhögg við stefnu sína? Ekki síst þegar það er í sömu andránni sagt: Þessar tillögur eru þannig að forsrh. og formaður Sjálfstfl. hefur svikið öll sín kosningaloforð. Er það þá meðaltalið?
    Alþfl. er í ríkisstjórn fyrst og fremst út frá því meginsjónarmiði að gæta almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna. Alþfl. er í ríkisstjórn fyrst og fremst til þess að leggja fram alla krafta sína til þess að varðveita stöðugleika og koma í veg fyrir kollsteypur, óöryggi og allt sem af því leiðir. Berið þið þessa leið saman við það hverjar afleiðingarnar af 20--25% gengisfellingu hefðu orðið fyrir launþega á Íslandi. Hver hefði kaupmáttarskerðingin orðið þá? Hún hefði orðið a.m.k. 12%. Hvert hefði atvinnuleysið orðið þá? Að mati aðila vinnumarkaðarins 20--25%. Auðvitað höfnuðum við þeirri leið. Það er ósatt að ríkisstjórnin hafi fallið frá áformum sínum um fjármagnstekjuskatt en ég hef fært hér þau rök sem eru rétt og sönn um það hvers vegna ekki var unnt að koma á strax vaxtatekjuskatti með þeim skilyrðum að hlífa hefði átt þremur fjórðu á fjármagnsmarkaðnum.
    Að lokum, virðulegi forseti, segi ég enn og aftur að síðar meir, löngu eftir að menn hafa gleymt um hvað þetta þras snerist þessa daga og nætur og löngu eftir að menn hafa gleymt einstökum steinvölum í þessum vegg, þá mun eftir standa að með þessum aðgerðum var loksins með skipulegum hætti lagt til atlögu við það vandamál okkar sem erfiðast verður viðfangs á næstu árum, þ.e. skuldasöfnunin fyrst og fremst í atvinnulífinu og þá sjávarútveginum. Því verki mátti ekki fresta lengur.
    Mér er það þess vegna sérstakt fagnaðarefni að birtar hafa verið tillögur um og samstaða orðið um að stofna þróunarsjóð í sjávarútveginum. Ég legg á það megináherslu að hlutverk hans er hlutverk úreldingarsjóðsins en ekki hlutverk jólasveinsins eða gjafapakkans. Það er fyrir því séð með heimanmundi frá ríkinu --- og það hefur litlu kastljósi verið beint að þessum sjóði --- eru lagðir til miklir fjármunir: 4.000 millj. kr. Honum eru tryggðir gjaldstofnar sem eiga að duga honum til að standa undir þessum kostnaði. Menn spyrja eins og hv. 8. þm. Reykn. sagði: Hvað þýðir þetta? Er þetta dæmi um að Alþfl. hafi fallið frá stefnu sinni? Þetta er tilraun til öfugmælasmíða eins og hv. þm. er stundum kunnur að.
    Við höfum sagt að í framhaldi af því að við höfum náð því fram með aðstoð fleiri aðila á hinu háa Alþingi að fiskimiðin á Íslandi séu lýst þjóðareign sé eðlilegt þegar sú breyting er orðin í okkar þjóðlífi að þau eru ekki lengur frjáls almenningur heldur sóknin takmörkuð að þjóðin fái einhvern arð af þessari eign sinni eins og gerist og gengur almennt samkvæmt venjulegum markaðslausnum. Við höfum hins vegar aldrei sagt að það eigi að ofbjóða gjaldþoli sjávarútvegsins. Við höfum aldrei gert kröfu um að því yrði skellt á fyrirvaralaust. Við erum ekki að boða neinar patentlausnir. Við erum einfaldlega að segja: Það er eðlilegur hlutur í samskiptakjörum sjávarútvegsins og annarra greina á Íslandi að sjávarútvegurinn eins og aðrar atvinnugreinar greiði nokkuð fyrir aðganginn að auðlindinni þegar hún er takmörkuð. Það var allt annað mál þegar hún var alfrjáls.
    Sérstaklega er það svo að þegar við stöndum frammi fyrir 100 milljarða skuldavanda, þar af skuldavanda allt of margra fyrirtækja sem eru með neikvæða eiginfjárstöðu, þá er engin deila um það, vona ég, á hinu háa Alþingi að þetta er vandamál sem verður að taka á. Það verður að fara fram fjárhagsleg endurskipulagning. Það verður að bæta stöðu þeirra sem eiga framtíðina fyrir sér og að svo miklu leyti sem þessar skuldir eru gjaldfallnar getum við ekki hlaupist frá þeim. Hverjir eiga að greiða þessar skuldir? Almenningur í landinu? Endanlega gerir hann það, já. En það er líka eðlilegt að ætlast til þess að greinin sjálf greiði fyrir bætta afkomu sína í þessari fjárhagslegu endurskipulagningu. Það er sanngirnissjónarmið og um

það er ekkert ósætti við forsvarsmenn í greininni.
    Ég segi það að löngu eftir að þessar tillögur að öðru leyti eru gleymdar og grafnar mun það verða svo að þessi þáttur tillagnanna mun verða minnisstæður þó ég viðurkenni það að sjálfsögðu að mikið er komið undir því að framkvæmdin takist farsællega.