Tilkynning frá ríkisstjórninni

59. fundur
Mánudaginn 23. nóvember 1992, kl. 15:26:55 (2523)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. utanrrh. sagði, ef ég heyrði rétt áðan, að niðurskurður um 1.250 millj. kr. mundi styrkja stöðu ríkissjóðs og minnka hallann í ríkisfjármálum. Spurning mín er þessi: Hefur allt dæmið verið skoðað? Hefur hækkun á erlendum skuldum við 6% gengisfellingu um 10 milljarða króna og afborganir af þeim, ekki síst með tilliti til hækkunar dollarans þar að auki, verið tekin inn í dæmið? Eða umframfjárþörf t.d. Lánasjóðs ísl. námsmanna í kjölfar gengisfellingar sem hlýtur auðvitað að koma til svo eitthvað sé nefnt?
    Ég vil biðja hæstv. utanrrh. að segja það hér og nú að ekki verði um að ræða aukin útgjöld ríkissjóðs á árinu 1993 og þar af leiðandi verði ríkisfjárhallinn minni.