Tilkynning frá ríkisstjórninni

59. fundur
Mánudaginn 23. nóvember 1992, kl. 15:28:12 (2524)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst árétta að í þessum tillögum að því er varðar ríkisfjármál felst lækkun útgjalda upp á 1.240 millj. kr. Eins og ég nefndi verður áætlaður halli ríkissjóðs, þrátt fyrir aukið álag á hann vegna framlaga til atvinnuskapandi aðgerða, lægri en í fjárlagafrv. var sýnt.
    Að því er varðar áhrif 6% gengisfellingar á skuldir er það augljóst mál að það er gallinn við gengisfellingarleið að höfuðstóll skulda hækkar í innlendum gjaldmiðli. Þar er spurningin hins vegar sú: Hversu varanleg verður þessi breyting? Í töflum Þjóðhagsstofnunar kemur fram að hún gerir ráð fyrir meðalhækkun verðbólgu milli ára upp á 4,5% en gerir ráð fyrir að verðbólguhjöðnunin verði síðan hröð og leiði til þess eftir aðgerðir að á árinu 1994 verði verðbólgan 0,8%. Að því er varðar hreina erlenda skuld gerir hún ráð fyrir því að metið að raungildi milli ára, ef við tökum grunndæmið 1993 var hrein erlend skuldaaukning upp á 2,5% og hefði orðið 2,4% árið 1994 en verður eftir aðgerðir milli ára 0,4% og lækkar um 0,2% eftir aðgerðir á árinu 1994. Þessi hófstilling og vonin um að þetta sé skammvinnur, tiltölulega lítill verðbólgukúfur er því einmitt dæmið um það, einn af ákvörðunarþáttunum um það hvers vegna reynt var að þræða þennan gullna meðalveg.