Tilkynning frá ríkisstjórninni

59. fundur
Mánudaginn 23. nóvember 1992, kl. 15:30:28 (2525)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það voru fjögur atriði sem hæstv. utanrrh. nefndi til þess að verja þessar aðgerðir:
    1. Að þær væru ,,í sátt og samlyndi við aðila vinnumarkaðarins`` hvað meginatriði snertir, svo ég vitni orðrétt í ráðherrann. Ég held að hann ætti að bíða með þær fullyrðingar þar til þing Alþýðusambands Íslands sem nú er haldið á Akureyri svarar því næstu daga. Þá mun koma í ljós hvort Alþýðusamband Íslands telur að þessar aðgerðir séu í sátt og samlyndi við það. Ég held að ráðherrann ætti að bíða með stóru orðin þangað til það svar kemur.
    2. Að með þessum aðgerðum hafi tekist að treysta ríkisfjármálin. Það sagði hæstv. ráðherra líka fyrir ári þegar ríkisstjórnin sagði að hallinn á ríkissjóði á árinu 1993 yrði rúmir 3 milljarðar. Nú er að koma í ljós að niðurstaðan verður 9--10 milljarða halli svo hæstv. utanrrh. hefur nákvæmlega enga tryggingu fyrir því að þessar aðgerðir muni minnka hallann á ríkissjóði eins og ég mun koma að eftir augnablik.
    3. Að hann byndi miklar vonir við það að sú verðbólguspá sem er sýnd í töflu Þjóðhagsstofnunar fyrir árið 1994 sýni að þetta sé allt saman skynsamlegt. Má minna hæstv. ráðherra á það að fyrir tæpum tveimur mánuðum síðan lagði ríkisstjórnin fram fjárlagafrv. á Alþingi sem miðaði við það að verðbólgan yrði á næsta ári, árinu 1993, 2%. Nú kemur ríkisstjórnin áður en nóvembermánuður er liðinn, næsti mánuður á eftir framlagningu fjárlagafrv., og tilkynnir okkur að verðbólgan verði tvisvar sinnum meiri á næsta ári en spáð var í fjárlagafrv. fyrir um það bil sex vikum. Heldur svo ráðherrann að einhver hér í salnum taki mark á spá fyrir árið 1994? Auðvitað gerir það ekki nokkur maður.
    4. Að lokum sagði ráðherrann að ríkisstjórnin hefði ákveðið að setja 4 þús. millj. kr. í þennan sjóð. Það stendur hvergi í þessum plöggum sem forsrh. kynnti hér. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra: Er það rétt skilið sem hann sagði (Forseti hringir.) --- ég er að ljúka máli mínu, virðulegi forseti --- að ríkisstjórnin ætli að leggja skuldabréf inn í þennan sjóð sem nemur 4 þús. millj. á næsta ári? Það þýðir samkvæmt aðferðum Ríkisendurskoðunar og fjárln. að fjárlagahallinn á næsta ári muni aukast að sama skapi um þær 4 þúsund millj. sem nemur framlagi ríkissjóðs í þennan sjóð. Það er því auðvitað nauðsynlegt að ríkisstjórnin átti sig á því hvað hún er að gera.