Tilkynning frá ríkisstjórninni

59. fundur
Mánudaginn 23. nóvember 1992, kl. 15:39:35 (2530)


     Ragnar Arnalds (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vek á því athygli að hæstv. utanrrh. gerði enga tilraun til þess að útskýra blekkingarleik sinn hér áðan en spyr mig hins vegar einfaldrar spurningar hér. Ég á mjög auðvelt með að svara henni vegna þess að ég flutti í fyrra frv. til laga um fjármagnsskatt. Þar var einmitt gert ráð fyrir því að sparisjóðsbækur almennings yrðu undanþegnar, þ.e. að það væri ákveðið frítekjumark og ekki væri lagður skattur á hinn almenna sparnað hins almenna manns, heldur væri fyrst farið að leggja skattinn á þegar komið væri yfir ákveðin mörk. Það kom einmitt vel á vondan, ef svo má segja, að spyrja mig að þessu því að við alþýðubandalagsmenn höfum alltaf gert ráð fyrir því að ákveðin mörk væru undanþegin.