Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 14:15:59 (2542)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég held að ég hafi þegar í upphafsræðu minni gert mjög skýra grein fyrir skoðunum mínum í þessu efni. Ég tel að það hafi verið gengið eins langt og komist varð til að bæta rekstrarskilyrðin. Þegar sjávarútvegurinn verður fyrir jafnmiklum ytri áföllum og hann hefur orðið fyrir er útilokað að búa svo um hnútana að hann verði rekinn með þeim ákjósanlegasta hætti, sem við hljótum að vera sammála um, að hann skili hagnaði. En ég lít svo að aðgerðirnar í heild fari nærri því að bæta rekstrarskilyrðin um 6%. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að það væri eðlilegt að atvinnugreinin sjálf með innri aðgerðum og hagræðingu skilaði um 1--2% í afkomubata þannig að við erum mjög nærri því með þessum aðgerðum að fullnægja þessum markmiðum. Þau eru auðvitað lágmarksmarkmið miðað við þessar aðstæður en ég ítreka, ef menn ætla að ganga lengra og ef hv. þm. er að gera kröfu til þess að ganga lengra þá er það einungis með tilfærslum frá launafólki yfir til atvinnufyrirtækjanna. Er það það sem hv. þm. er að biðja um?