Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 14:19:10 (2545)

     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér staðfestir hæstv. sjútvrh. í ræðu sinni að það væri ljóst að þrátt fyrir þessar aðgerðir yrði sjávarútvegurinn enn um sinn rekinn með verulegum halla. Þrátt fyrir það er greininni ætlað að taka að sér verulegar fjárskuldbindingar til þess að bæta rekstrarskilyrðin í greininni. Lagt verður á sérstakt rúmlestagjald fiskiskipa, gjald á fasteignir, vinnslu og gjaldtaka af veiðileyfum, svonefndur auðlindaskattur. Þetta er það rekstrarumhverfi sem núv. ríkisstjórn er að skapa sjávarútveginum í dag. Áframhaldandi rekstrartap blasir við og einmitt nú þegar menn þurftu að styrkja grundvöll þessara greina, eru menn ekki bara að opna dyr sjávarútvegsins upp á hálfa gátt heldur vel það því nú er stefna ríkisstjórnarinnar og liggur á borðum okkar þingmanna að opna þessar dyr verulega fyrir erlenda aðila til að komast inn í sjávarútveginn, veiðarnar og vinnsluna. Þvílík stefnumið, virðulegi sjútvrh., þvílík stefnumið.