Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 14:25:06 (2550)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það verður að segja það alveg eins og er að nákvæm útfærsla á starfsreglum sjóðsins liggur ekki fyrir. Það er nú verið að vinna að lagafrv. um þetta efni. Ég minni hv. þm. á að um það bil 80% af fiskiskipunum eru í eigu fiskvinnslustöðva? Í þessu frv. verða einnig nákvæm skilyrði um það hvaða fyrirtæki eigi rétt á fyrirgreiðslu eða aðstoð í gegnum þennan sjóð því að eðlilega verður að setja almenn og skýr skilyrði fyrir starfsemi sjóðsins og stjórnendur hans til þess að vinna eftir.
    Eins og kom fram í ræðu minni í upphafi er ekki búið að ákveða nákvæmlega enn hvert þetta gjald verður og þarf m.a. að hafa hliðsjón af því hverjar eru skuldbindingar sjóðsins því að honum er ætlað að starfa um alllangan tíma. Endurgreiðslan á að taka 15 ár. Það þarf að meta greiðslubyrðina þann tíma og ekki hægt að fastsetja krónutöluna nákvæmlega en þar að auki get ég auðvitað ekki svarað fyrir ríkisstjórnir framtíðarinnar í þessu efni.