Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 14:26:39 (2551)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þessar ákvarðanir eru handa ríkisstjórn framtíðarinnar en ekki þeirri sem nú situr. Það er ríkisstjórn framtíðarinnar sem á að taka á þessum málum. En ég vek athygli á því að hæstv. ráðherra svaraði hvorugri spurningunni. Hann vék sér undan því. Hann vék sér undan því að svara hvort það ætti að borga úreldingu frystihúsanna með auðlindaskatti. Það þarf enginn að segja manni það að í þeim umræðum sem þarna hafa farið fram hafi ekki verið rætt um það atriði. Og hann vék sér líka undan því að svara seinni spurningunni vegna þess að það ætti eftir að ganga frá því síðar. Það þarf enginn að segja manni það að í svona samningaviðræðum og hrossakaupum, sem hér hafa verið á ferðinni, hafi ekki verið rætt um þessi mál.