Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 14:28:20 (2553)

     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Reyndar hafa þær spurningar komið fram sem ég hugðist spyrja en svörin verið heldur lítil. En ég get verið stuttorður. Hæstv. sjútvrh. gagnrýndi mig fyrir það að ég teldi þessar aðgerðir ekki nægjanlegar. Hann segir að þær séu nægjanlegar. Hann sættir sig við 3--6% halla á íslenskum sjávarafurðum næstu árin. Það er satt að segja hið ótrúlegasta svar. Hæstv. sjútvrh. taldi að ég vildi bæta hag sjávarútvegsins með því að leggja meiri álögur á almenning. Ég spyr: Getur hæstv. sjútvrh. ekki hugsað sér að leggja hærri skatt á hálaunamenn þar sem tekjumunur er orðinn gífurlegur í dag og getur hæstv. sjútvrh. ekki hugsað sér að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar og leggja skatt á sparifé með skattleysismörkum sem vernda almennt sparifé í landinu?