Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 15:20:43 (2559)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það var nú strax breyttur og reyndar betri tónn að mér fannst í hæstv. sjútvrh. í þessu stutta andsvari en var í ræðu hans áðan. Nú kallaði hæstv. sjútvrh. ástandið, reyndar fyrir alla aðila en þar með talið væntanlega sjávarútveginn, illþolandi. Það er talsvert annað en mér fannst hæstv. sjútvrh. vera að reyna að segja hér áðan þegar hann með ótal lykkjuföllum reyndi að prjóna þetta saman í þolanlegt ástand.
    Mergurinn málsins er sá að mjög margir sem um þessi mál hafa fjallað á undanförnum vikum hafa varað mjög við því að þegar til aðgerðanna yrði gripið að lokum þá yrðu þær að vera fullnægjandi. Það væri verr af stað farið en heima setið ef menn kæmust hálfa leið upp brekkuna en rynnu svo niður aftur vegna þess að þeir næðu ekki í mark, endar næðust ekki saman. Það er m.a. um það sem hér er verið að ræða. Vonbrigði aðila vinnumarkaðarins og forsvarsmanna sjávarútvegsins leyna sér auðvitað ekki. Fyrst og fremst vegna þess að þeir hafa ekki trú á því að endar hafi náðst saman. Þar með hafa þeir ekki trú á að þessar ráðstafanir dugi, verði varanlegar, nægi til að skapa hér grundvöll til að standa á einhver missiri eða einhver ár fram í tímann, heldur muni þrýstingurinn vaxa á nýja umferð innan skamms og þegar kemur fram á útmánuði verði kominn upp sambærilegur þrýstingur á gengisbreytingar eða aðra slíka þætti.
    Hæstv. sjútvrh. orðar það svo að samkomulag um kvótamál og ,,jónasveinasjóð`` hafi þjónað tvíþættum tilgangi og viðurkennir og staðfestir þar í reynd að fleiri lítt skyld mál blönduðust þarna saman í einum punkti. Hvort menn kalla það kaupmála, hrossakaup eða eitthvað annað það liggur mér í léttu rúmi en þetta hefur skýrt málið í reynd. Þarna blönduðust þræðirnir saman með þessum hætti, það er augljóst mál.