Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 15:26:20 (2562)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins leiðrétta það að í tillögum eða hugmyndum Alþýðusambandsins um skatt á vexti þá var rætt um skatt á vexti af öllum tekjum, ekki bara hjá þeim sem hærra hefðu, heldur af öllum tekjum frá minnstu inneign, flatt á alla. Það var ekki fallist á það. Að öðru leyti var erindi mitt í ræðustól að hugleiða það með hv. 4. þm. Norðurl. e., sem flutti hér langa og þróttmikla varnarræðu fyrir launþega í tilefni þess að gengið hefði verið fellt um 6% og kaupmáttur mundi skerðast um 4%, hvort hann ætti í fórum sínum og gæti sýnt mér eintak af þróttmikilli ræðu sem hann flutti um sama efni og auðvitað enn þá lengri og enn þá þróttmeiri um það þegar hann var ráðherra og tók þátt í því árið 1989 að láta gengið falla mánaðarlega, mánuð eftir mánuð eftir mánuð með þeim afleiðingum að kaupmáttur fólksins rýrnaði um tæplega 15%. Á þingmaðurinn þróttmikla varnarræðu sem hann getur afhent mér frá þeim tíma?