Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 17:03:13 (2576)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég hefði viljað óska eftir því við hæstv. forseta að það yrði kannað hvort hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. gætu verið í salnum vegna þess að ég þarf að beina til þeirra nokkrum spurningum. Ég vil biðja forseta um að vera svo vinsamlegan að kanna það mál. ( Forseti: Forseti kannar það þegar í stað.) Ég þakka forseta.
    Ég hafði, virðulegi forseti, hugsað mér að ræða í fyrsta lagi um aðdragandann að þessum aðgerðum í mjög stuttu máli. Í öðru lagi hafði ég hugsað mér að leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. ráðherra, bæði hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. Síðan hafði ég hugsað mér að fara nokkrum orðum um þann þátt þessa máls sem hefur verið ótrúlega lítið ræddur en það eru þær skattahækkanir á einstaklinga sem þessar tillögur sem hér hafa verið kynntar gera ráð fyrir. Hér er um að ræða meiri skattahækkanir á einstaklinga en nokkurn tíma hafa áður verið lagðar fram tillögur um á hv. Alþingi. Það hefur aldrei áður verið lögð fram tillaga um aðra eins skattahækkun. Má heita athyglisvert að slíkt skuli gerast í stjórnartíð flokka sem báðir hafa svarið og sárt við lagt að þeirra höfuðkeppikefli sé að afnema tekjuskatt vegna þess að tekjuskattur sé launamannaskattur, eins og það var orðað t.d. af forustumönnum Alþfl. fyrr á árum og einnig af forustumönnum Sjálfstfl. Ég man reyndar ekki betur en þessir flokkar hafi báðir lýst því yfir að þeir stefni að því að afnema tekjuskatt af launum einstaklinga.
    Varðandi aðdragandann að þessu máli þá hefur hann verið með býsna athyglisverðum hætti. Allri þjóðinni hefur verið ljóst í marga mánuði að grípa þyrfti til aðgerða í efnahags- og atvinnumálum. Þetta hefur verið rætt í þjóðfélaginu öllu. Þetta hefur verið rætt í verkalýðshreyfingunni. Þetta hefur verið rætt í samtökum atvinnurekenda og þetta hefur líka verið rætt í stjórnarflokkunum og þó ekki síður í stjórnarandstöðuflokkunum. Ég hygg að það sé einsdæmi, eða a.m.k. man ég ekki eftir því í mjög langan tíma að stjórnarandstöðuflokkur hafi gengið fram með þeim hætti sem Alþb. gerði og lagði fram ítarlegar tillögur lið fyrir lið um lausn á þeim efnahags- og atvinnumálavanda sem þjóðin stendur enn frammi fyrir.
    Í framhaldi af þeirri tillögugerð Alþb. áttu forustumenn Alþb. viðtöl við fulltrúa núv. hæstv. ríkisstjórnar og sömuleiðis fjölmarga forustumenn verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda. Ég taldi um skeið að það hlyti að vera vilji til þess í þjóðfélaginu að reyna að ná heildarsamstöðu allra stærstu hagsmunasamtaka og stjórnmálaflokka um þær ráðstafanir sem þarf að grípa til.
    Vissulega er það óvenjulegt, virðulegi forseti, að þannig sé að hlutunum staðið vegna þess að auðvitað er það svo að þegar ein ríkisstjórn situr sem hefur meiri hluta á bak við sig á hún náttúrlega að stjórna og bera ábyrgð á stjórnarathöfnum. Hins vegar verður að viðurkenna það líka að vandinn er óvenjulega stór. Þann tíma sem ég hef setið á Alþingi hygg ég að sá vandi sem við blasir í dag sé að mörgu leyti snúnari en hann hefur áður verið. Þess vegna var það í raun og veru eðlilegt að menn létu sér til hugar koma að það þyrfti að kalla alla að þessu borði, alla stjórnmálaflokkana, stjórn og stjórnarandstöðu, verkalýðsfélögin í landinu og samtök atvinnurekenda líka. Þegar ég er að tala um verkalýðsfélögin í landinu er ég auðvitað ekki aðeins að tala um Alþýðusambandsfélögin heldur líka Bandalag starfsmanna ríkis og bæja

og Kennarasamband Íslands.
    Þrátt fyrir þennan vilja sem þannig hefur komið fram frá forustumönnum stjórnarandstöðu og sömuleiðis af hálfu verkalýðshreyfingarinnar liggur það núna fyrir að ríkisstjórnin tekur einhliða ákvarðanir um hluti sem ganga þvert á hagsmuni launafólks og í þessum tillögum um ráðstafanir eru engar hugmyndir um jöfnunaraðgerðir af neinu tagi. Það er ekki milligramm af jafnaðarstefnu í þessu plaggi eins og það lítur út nema ef vera skyldu þessar 300 millj. sem skotið var inn í plaggið af sálfræðilegum ástæðum samkvæmt upplýsingum sem hæstv. forsrh. lét frá sér fara við flokksráðs- og formannafund Sjálfstfl.
    Hæstv. forsrh. sagði þá að hann óttaðist að Sjálfstfl. þyrfti tímabundið að víkja af braut stefnu sinnar. Það er vissulega nýjung í íslenskri stjórnmálaumræðu að formaður stjórnmálaflokks lýsi því yfir að það þurfi að leggja flokkinn niður tímabundið til þess að hægt sé að koma saman ráðstöfunum í efnahagsmálum. Það lýsir líka mikilli fórnfýsi af formanni Sjálfstfl. að lýsa því yfir að flokkinn þurfi að leggja niður tímabundið meðan sé verið að ganga frá þessum tillögum í efnahagsmálum.
    Niðurstaðan er sú að ríkisstjórnin hafnar í raun og veru þeim góða vilja sem fram kemur frá forustumönnum stjórnarandstöðu og verkalýðssamtaka og atvinnurekenda líka og leggur fram þetta einstæða skjal hér. Á grundvelli þess, virðulegi forseti, áður en lengra er haldið vil ég leggja fyrir hæstv. forsrh. nokkrar spurningar. Ég hygg að það sé kannski þægilegra fyrir hann að vísa til þess að ég legg þessar spurningar fram á grundvelli skjalsins þannig að það er auðvelt fyrir hæstv. ráðherra að fylgjast með þessum spurningum.
    Í fyrsta lagi vil ég spyrja um aðstöðugjaldið og spyrja hæstv. forsrh. að því hvernig ætlunin sé að vinna að því af hálfu ríkisstjórnarinnar og Sambands ísl. sveitarfélaga að tryggja að önnur gjöld komi í staðinn. Ég vil spyrja hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., ef hann vill svara því, hvort þeir hafi trú á því að fyrirtækin samþykki fyrir árið 1994 að þessi skattur, sem nú á að leggjast á einstaklinga, fari þá á fyrirtækin. Hafa þeir trú á því að eitthvert samkomulag náist um það?
    Ég óttast það, virðulegi forseti, að með því að stíga þetta skref og leggja þennan skatt allan á einstaklinga sé verið að taka ákvörðun um að leggja þennan skatt á einstaklinga upp á 2.850 millj. kr. til frambúðar. Hér sé verið að taka ákvörðun um skattahækkun til frambúðar upp á nærri 3 milljarða kr. Ég fullyrði, virðulegi forseti, að það verður erfitt fyrir ríkisstjórnina og það verður erfitt fyrir Samband ísl. sveitarfélaga að ná samkomulagi um annan skattstofn í þessu efni en tekjur einstaklinganna. Þess vegna tel óhjákvæmilegt að þeir greini frá því núna hvernig þeir hugsa sér að taka á þessu máli sérstaklega, hvernig þeir hugsa sér að leysa það og hvaða skattstofn þeir eru með í huga sem koma á í staðinn fyrir þessar 2.850 millj. kr. sem lagðar eru á einstaklinga samkvæmt ráðstöfununum.
    Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvernig ætlunin er að úthluta þeim fjármunum sem gert er ráð fyrir til sérstakra aðgerða í atvinnumálum, annars vegar 500 millj. kr. til aðgerða í atvinnumála á Suðurnesjum og í öðru lagi 500 millj. kr. til sérstakra framkvæmda við byggingu og viðhald opinberra mannvirkja. Ég vil spyrja þá að því hvort ætlunin er að gera þetta síðarnefnda í gegnum fjárlagafrv. og þá með hvaða hætti.
    Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvernig sú hækkun virðisaukaskatts skiptist á einstaka þætti sem tillögur þeirra gera ráð fyrir. Þeir gera ráð fyrir því að lagður verði virðisaukaskattur á húshitun. Hvað á það að gefa mikið í ríkissjóð? Það er virðisaukaskattur á afnotagjöld útvarps, það er virðisaukaskattur á bækur, blöð og tímarit. Það er virðisaukaskattur á hótelgistingu og fólksflutninga. Ég óska eftir upplýsingum um það hversu mikla upphæð hæstv. ráðherrar gera ráð fyrir að fá í ríkissjóð af hverjum þessara þátta. Ég er sannfærður um að tölur um það liggja fyrir og þeir ættu þess vegna að eiga hægt með að svara því.
    Í fjórða lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er á bak við töluna 1.240 millj. kr. niðurskurður hjá ríkissjóði? Það er stafliður h undir 3. tölulið. Það hefur flogið fyrir að heilbrrn. eigi af þessari tölu um 650 millj. Er það rétt að ætlunin sé að skera niður útgjöld til heilbrigðismála um 650 millj. kr.? Hvaða þættir eru það sem á að skera niður? Mér er kunnugt um að ekki hefur tekist að fá neinar upplýsingar um það í efh.- og viðskn. hvaða þættir það eru sem þarna á að skera niður en ég trúi ekki öðru en hæstv. ráðherrar hafi það þegar í grófum dráttum a.m.k. og óska ég eftir upplýsingum þeirra um það.
    Í fimmta lagi vil ég spyrja: Gera þeir ráð fyrir minnkandi útgáfu húsbréfa? Hversu mikilli minnkun í útgáfu húsbréfa er gert ráð fyrir? Það er satt að segja mjög óljóst orðalagið á þeim þætti í yfirlýsingunni. Það er 4. töluliður, stafliður b og ég sé ekki betur en hæstv. félmrh. hafi haldið býsna fast á því máli og að þarna sé um að ræða eitthvert samkomulagsorðalag sem menn hafa þvælst með nokkuð lengi. Menn hljóta að vera með einhverjar hugmyndir um það í grófum dráttum hversu mikið á að minnka útgáfu húsbréfa. Ég vil spyrja að því hvaða markmiðum ríkisstjórnin ætlar að ná í þessu efni að því er varðar minnkandi útgáfu húsbréfa á árinu 1993.
    Enn fremur vil ég spyrja hæstv. ráðherra um lífeyrissjóðina þar sem gert er ráð fyrir því í tillögunum og í greinargerðinni að það eigi að taka 5% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna til kaupa á hlutabréfum í íslenskum fyrirtækjum. Hvernig er ætlunin að framkvæma þetta? Það er auðvitað ljóst að lífeyrissjóðirnir hafa verið með það í undirbúningi hvort sem er að fara inn í vaxandi mæli á hlutabréfamarkaðinn að svo miklu leyti sem hann er til. Lífeyrissjóðirnir hafa þegar keypt hlut ríkisins í Þróunarfélaginu ef ég man rétt og út af fyrir sig er hugsanlegt að þetta séu einhverjir sjálfsagðir hlutir sem eru þarna inni og

þar með engin frétt. Er það svo eða liggja fyrir niðurstöður einhverra viðræðna við lífeyrissjóðina um þetta nú þegar og hverjar eru þær þá ef svo er?
    Enn fremur vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því sem lýtur að vöxtunum og mér finnst vera dálítið óljóst í þessum skjölum. Það er snilldarsetning á bókmenntavísu í þessu skjali um vextina. Hún er svona:
    ,,Með þessum aðgerðum er stefnt að því að raunvextir geti lækkað en afar erfitt er að spá fyrir um hversu mikið og hvenær það mun gerast. Einnig þarf að hafa í huga að þróun í vaxtamálum ræðst einnig af efnahagsskilyrðum almennt og ekki síst af ytri skilyrðum þjóðarbúsins.``
    Mér sýnist að snillingurinn frá Gautlöndum hljóti að hafa komið að þessum texta vegna þess að í þessu eru einir 5--6 fyrirvarar. Það er í fyrsta lagi sögnin að geta í viðtengingarhætti. Í öðru lagi stendur hér: Hversu mikið? Það er spurning. Í þriðja lagi: Hvenær? Það er spurning. Í fjórða lagi ræðst það svo af þróun vaxtamála, ytri skilyrðum þjóðarbúsins og í fimmta lagi af efnahagsskilyrðum almennt. Hafi einhver annar hæstv. ráðherra samið þennan texta er það til marks um áhrif hæstv. viðskrh. í ríkisstjórninni.
    Hvað eru mennirnir í raun og veru að tala um? Er hægt að fá það með einhverjum hætti sett í tölur með hliðsjón af því að hér á að hreyfa dráttarvexti og síðan er gert ráð fyrir því að breyta bindiskyldu. Það eru reyndar fleiri óskyldir þættir liggur mér við að segja taldir upp í þessu skjali af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hvað eru menn í raun og veru að tala um í vaxtalækkun? Hvað sjá menn fyrir sér? Eru menn kannski að tala um 0,5% í vaxtalækkun eða eru menn að tala um 1% eða eru menn að tala um eitthvað minna eða hvað? Það er athyglisvert að Þjóðhagsstofnun hefur lært þetta líka í sinni greinargerð. Í greinargerð ríkisstjórnarinnar er svo þessi athyglisverða setning á bls. 8:
    ,,Í því sambandi má nefna að lækkun þeirra um 1 prósentustig skilar tæplega 0,5% afkomubata.``
    Þetta er almenn fræðileg niðurstaða hjá ríkisstjórninni eftir að hafa íhugað vaxtamálin mjög vandlega. Ég geri út af fyrir sig ekki ráð fyrir því að hún fái sérstök vísindaverðlaun Nóbels fyrir þessa niðurstöðu enda er þetta svo sem engin speki. En hvað er það sem mennirnir eru þarna að hugsa um? Hvaða vonir eru það sem þeir vilja gefa atvinnulífinu í þessu efni?
    Þá hef ég lagt fyrir hæstv. ráðherra einar sjö eða átta spurningar. Síðan ætla ég að tala við þá um skatta. Hvaða skattahækkanir eða skattbreytingar eru það eru í þessum hugmyndum? Nú er þetta náttúrlega ekki orðið frv. og auðvitað er það alveg ljóst að eitthvað af þessu breytist á langri vegferð eins og gengur. Hvaða breytingar eru það á sköttum sem menn eru að tala um? Menn eru að tala um tekjuskatt einstaklinga og að hann gefi á næsta ári 2.850 millj. kr. Tekjuskatturinn í heild, nettó, á næsta ári samkvæmt fjárlagafrv. er talinn verða 13.450 millj. kr. Síðan ætla menn að leggja á þennan 5% aukaskatt sem á að gefa 300 millj. á næsta ári. Samtals er þetta hækkun á beinum tekjusköttum einstaklinga um 3.150 millj. kr., úr 13.450 millj. kr. Þetta er hækkun á tekjusköttum einstaklinga um 23,4%. Til viðbótar við þetta ætla skattleysisflokkarnir, sem vilja ráðast gegn skattinum á launamenn, að lækka barnabætur um 500 millj. og þeir ætla að lækka vaxtabætur 1994 um 500 millj. Samkvæmt þessu ætla þeir að hækka beinar skattgreiðslur einstaklinga út úr þessum pakka eða tekjurnar sem fara í gegnum ríkissjóð út úr þessum pakka um 4.150 millj. kr. Hvað er það mikil skattahækkun? Hvað er það mikil hækkun á beinum greiðslum tekjuskatta einstaklinga? Það er hækkun upp í 17,6 milljarða kr., úr 13,4 upp í 17,6. Þetta er hækkun um 31%.
    Ég minnist þess, virðulegi forseti, að á undanförnum árum hafa verið settar á langar ræður hér, m.a. af Sjálfstfl. þegar hann hefur verið í stjórnarandstöðu, um lítils háttar hreyfingar á sköttum. Það eru engin dæmi á síðasta áratug um aðra eins skattahækkun á einstaklingum og þá sem hér er verið að tala um. Þetta er ekki bara skattur á hátekjumenn vegna þess að hann skilar einungis 300 millj. kr. af þessu dæmi eða um það bil 5% af allri súpunni. Hér er um að ræða skatta á alla vegna þess að til viðbótar þessu á að leggja á virðisaukaskatt upp á 1.800 millj. kr. og það á að leggja á bensíngjald upp á 350 millj. kr. Ef maður tekur virðisaukaskattinn eins og hann lítur út miðað við árið 1994, þ.e. 1.350 millj. kr., tekur þá tölu sem er rétt í þessu, þá er heildarskattlagningin út úr þessu dæmi öllu og bensíngjaldinu 6 þús. millj. kr. Hún er 6 milljarðar kr. Þetta er ekki frá hinum vondu skattahækkunarflokkum, Framsfl., Kvennalista eða Alþb. Nei. Þetta er frá hinum miklu skattalækkunarflokkum sem hafa farið fram fyrir kjósendur kosningar eftir kosningar, ár eftir ár, áratugum saman, vaðið fram með það að lækka þurfi skatta og skera niður skatta á einstaklingum af því að þeir séu ranglátir. Hækkanir á beinum sköttum strax á næsta ári eru 27,1%. Hækkanir alls í þessum pakka eru 30,9%. Ef við tökum alla þá hækkun sem hér er um að ræða, þá er verið að hækka skatta miðað við nettó tekjuskatta einstaklinga um 44,2%. Núna segja hæstv. ráðherrar geri ég ráð fyrir: Þetta er ekki bein skattahækkun vegna þess að þarna er verið að létta af aðstöðugjaldi og þessir peningar hafa stuttan stans í ríkissjóði af því að þeir eru svo borgaðir aftur til sveitarfélaganna og það eru 4.250 millj. sem fara til þeirra. Þá segi ég: Þetta er ómerkilegur peningaþvottur. Ríkisstjórnin er að flytja frv. til laga um bann við peningaþvætti og það hefði út af fyrir sig verið ástæða til að ræða það í tengslum við þetta. Sú skattahækkun á einstaklinga sem hér er verið að gera upp á nærri 6.000 millj. kr. er staðreyndin sem blasir við einstaklingunum meðan það er verið að skera niður skattana stórkostlega af fyrirtækjunum. Auðvitað geta menn komið upp og sagt: Það verður að skera niður skattana af fyrirtækjunum. En auðvitað eiga fyrirtækin að taka þátt í hinni almennu samneyslu í landinu.
    Staðreyndin er sú að hér er um að ræða 31% hækkun beinna skatta samkvæmt þessum ráðstöfunum og eins og ég sagði leggjast þær ekki bara á hátekjufólk. Þær leggjast á alla vegna þess að hækkunin á virðisaukaskatti leggst líka á atvinnuleysingja. Hækkunin á bensíngjaldi leggst líka á atvinnuleysingja. Niðurskurðurinn á barnabótum kemur líka niður á atvinnulausu fólki. Hér er auðvitað verið að ráðast að öllum aðilum í þjóðfélaginu með gífurlega þungum skattaálögum, þyngri en við höfum nokkru sinni áður séð.
    Það væri fróðlegt, virðulegi forseti, að velta því fyrir sér hér hvað Sjálfstfl. mundi hafa sagt ef aðrir flokkar hefðu flutt tillögu um þessar skattahækkanir á Alþingi t.d. í síðustu ríkisstjórn. Það væri fróðlegt að velta fyrir sér ræðum hæstv. samgrh. Halldórs Blöndals í því sambandi. Ég ætla að ekki að gera það. Það hefur hins vegar komið á daginn að það er rétt sem hæstv. forsrh. sagði á flokksráðsfundi Sjálfstfl. Sjálfstfl. hefur að því er þetta varðar ákveðið í grófum dráttum að leggja sig niður tímabundið, leggja stefnu sína til hliðar um tíma. Hann tekur inn nokkrar sálfræðilegar lagfæringar á skattakerfinu upp á 300 millj. kr. og samþykkir síðan að hækka skatta á einstaklinga um 4 þús. millj. kr. Það er afrek Sjálfstfl. Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti, hér úr þessum ræðustól hvort það geti verið að allir þingmenn Sjálfstfl. hafi gert sér grein fyrir þessu. Getur það verið að allir þingmenn Sjálfstfl. hafi gert sér grein fyrir því að til viðbótar við virðisaukaskattinn og til viðbótar við bensíngjaldið sé verið að hækka skatta á almenningi um 4 þús. millj. kr.? Getur verið að allir þingmenn Sjálfstfl. hafi gert sér grein fyrir því að verið er að hækka skatta á launamönnum þannig að það jafngildi 100 þús. kr. skattahækkun á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu? Þetta er 100 þús. kr. aukaskattur á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu sem hér er verið að gera tillögur um. Þessi skattur er auðvitað misjafnlega þungur. Hann er ekki langþyngstur á hátekjumenn. Hann er langþyngstur t.d. á fólk sem býr á olíuhitunarsvæðunum svo ég nefni dæmi vegna þess að það er fólk sem þarf að greiða olíuhitunina í framtíðinni með virðisaukaskatti.
    Niðurstaðan af þessu máli í heild og umræðum hér, virðulegi forseti, er þessi:
    1. Ríkisstjórnin hefur hafnað samstarfi við stjórnarandstöðuflokka og aðila vinnumarkaðarins á örlagaríkum tímum. Það eitt út af fyrir sig er gagnrýni vert.
    2. Hún stendur fyrir stórkostlegri kjaraskerðingu einstaklinganna langt umfram það sem þjóðhagsleg rök eru fyrir þannig að kaupmátturinn lækkar um 4,4% á næsta ári að mati þeirra sjálfra.
    3. Það er gagnrýnivert að í þessum tillögum eru engar ráðstafanir til að fjölga atvinnutækifærum og engar ráðstafanir til að stuðla að jöfnun í þjóðfélaginu. Það er ekki milligramm af jafnaðarstefnu í þessu plaggi nema ef vera skyldi það skref sem stigið er til að leggja á hátekjuskatt sem hæstv. forsrh. hefur svarið í fjölmiðlum að verði lagður niður áður en kemur til næstu kosninga ef þær verða á árinu 1995.
    4. Það er auðvitað niðurstaðan af þessu öllu að þessar ráðstafanir eru með þeim hætti að þær kalla til annarra ráðstafana. Launafólk í landinu getur ekki sætt sig við að kaup sé skert einhliða með þeim hætti sem hér er verið að tala um. Hér er í raun og veru verið að segja: Þessar ráðstafanir duga e.t.v. í nokkra mánuði en áður en kemur að útmánuðum munu menn á ný hefja hér umræður um ráðstafanir í efnahagsmálum vegna þess að þetta dugir ekki. Þar með erum við auðvitað, virðulegi forseti, komin inn á stig sem við vildum forðast, kollsteypustigið þar sem hlutirnir ganga þannig fyrir sig að það er verðbólga einn daginn og gengislækkun hinn, stig sem við lögðum grunn að í síðustu ríkisstjórn að menn þyrftu aldrei að lenda inn á aftur í íslenskum stjórnmálum. Menn eru aftur að lenda á því glæfrastigi, því miður, virðulegi forseti.
    Ég vænti þess að hæstv. ráðherrar sjái sér fært að svara þeim átta spurningum sem ég lagði fyrir þá áðan.