Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 18:45:20 (2597)

     Jón Kristjánsson :
    Frú forseti. Þessi umræða er að verða nokkuð löng, en eigi að síður eru nokkur atriði varðandi það mál sem hér er á dagskrá sem ég vildi leggja orð í belg um.
    Þegar farið er yfir þessa yfirlýsingu um aðgerðir til eflingar atvinnulífi landsmanna þá kemur fyrst í hugann hvort þessar aðgerðir komi að nægilegu gagni, hvort fleiri gengisbreytingar séu væntanlegar og hvaða áhrif þessar aðgerðir hafi á atvinnustigið í landinu, hvort þær muni snúa við þeim ískyggilegu horfum sem eru í atvinnumálum. Ég held því miður að það sé mikill vafi á því að svo verði.
    Ég kemst ekki hjá því í upphafi að gagnrýna harðlega hvað hefur dregist lengi að bregðast við þeim vanda sem hefur verið í atvinnumálum. Það hefur legið fyrir allt þetta ár að undirstöðuatvinnuvegur landsmanna er rekinn með miklum halla. Fyrir tveimur mánuðum varð mikill órói í gjaldeyrismálum í nágrannalöndunum og á tveggja mánaða tímabili hefur sterlingspundið fallið um 13%. Það eru hvorki meira né minna en 25% af útflutningstekjunum sem fer inn á Bretlandsmarkað og er greitt í sterlingspundum.
    Þó að þessar staðreyndir hafi legið fyrir svo vikum skiptir og sjávarútvegurinn hafi verið í hallarekstri áður en þessi órói kom til þá hefur ekkert verið aðhafst að öðru leyti en því að greiða út úr Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins. Því hefur verið harðlega neitað að það kæmi til greina að fella gengið. Það ætti frekar að fara svokallaða kostnaðarlækkunarleið. Fyrir ári man ég að hæstv. sjútvrh. ræddi um kostnaðarlækkunarleið í einu af ávörpum sínum á fundum hagsmunaaðila víða um land. Hæstv. forsrh. sagði þá að vandinn væri ekki aðkallandi og síðan er heilt ár liðið. Ég hlýt að gagnrýna harðlega að ekki hafi verið brugðist við fyrr en raun er á.
    Mörg orð hafa fallið í umræðunni og margar nafngiftir um þá sem hafa verið að ýja að því að gengið væri ekki rétt skráð. Eitt af því sem féll í umræðu um daginn í hv. Alþingi var að þeir voru kallaðir heilagsandahopparar sem ýjuðu að því að óróinn í gengismálum kynni að hafa þau áhrif að það þyrfti að breyta gengisskráningunni. Ég ætla í sjálfu sér ekki að elta ólar við það.
    Það alvarlegasta í þessum aðgerðum eins og fram hefur komið hjá þeim sem hafa talað hér á undan mér í dag er að sjálfsögðu að það rekur sig eitt á annars horn í þeim og það skýtur auðvitað skökku við að leggja auknar álögur á ferðaþjónustuna í aðgerðum sem eiga að efla stöðu atvinnuveganna í landinu. Það er lagður á hana virðisaukaskattur að upphæð um 600 millj. kr. Á móti kemur niðurfelling á aðstöðugjaldi um 250 millj og tryggingagjaldi um það bil 230 millj. Viðbótarálagning á þessa þjónustugrein

er því um 120 millj. en á móti því koma auðvitað áhrifin af breyttu gengi krónunnar sem er talið bæta stöðu hennar. Í heild er staða þessarar greinar, sem er alveg á dampinum í sinni verðlagningu, ekkert bætt.
    Það er einnig algerlega óljóst hver áhrif þróunarsjóðs eða úreldingarsjóðs, eða hvaða nafn menn vilja hafa á þessum 4 milljarða sjóði sem skaust allt í einu inn í umræðuna, verða á atvinnulífið í landinu. Ég geri auðvitað enga kröfu til þess að það verði upplýst í þessum umræðum hver þau áhrif verða en það hlýtur þó að hafa mjög mikil áhrif á atvinnustig á ýmsum stöðum úti um land þegar verið er að kaupa fiskvinnslustöðvar út úr rekstri og leggja skipum. Ég viðurkenni auðvitað þörfina á þeirri hagræðingu í sjávarútvegi og þörfina á slíkum sjóði. Ég skil reyndar ekki þær vendingar sem verið hafa með Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins sem hafði þetta hlutverk og það hefði verið heppilegra fyrir hæstv. ríkisstjórn að láta hann í friði á sínum tíma svo hann hefði verið búinn að sinna sínu hlutverki á þessum tíma sem hún hefur setið að völdum.
    Það voru ekki mjög sannfærandi viðbrögð í morgun hjá fulltrúum Þjóðhagsstofnunar þegar þeir mættu á fund fjárln. og voru spurðir um það hvort vextir mundu lækka. Þau svör voru jú jú, segir formaður fjárln. Ég skrifaði hjá mér að efnislega hafi þau svör verið að styrking ríkissjóðs skapaði forsendur fyrr lækkun vaxta. Það er vissulega rétt. En það er margt óljóst í þeim efnum eins og ég kem að. Hins vegar komu líka fram þær upplýsingar að það væri afar erfitt að meta hve mikið eða hvenær það yrði og hugsanlegt væri að ekki yrði nein vaxtalækkun. Þetta er því miður eins og svo margt annað í þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar, því miður segi ég, það er óljóst hvaða áhrif þær hafa eða hvort þær eru nægjanlegar.
    Það hefur verið minnst á ýmis álitamál hér og margt í þessum tillögum er óútfært. Ef ég vík að ríkisfjármálunum sérstaklega þá er enn þá óljóst með hverjum hætti þessar aðgerðir koma inn á ríkisfjármálin. Að vísu liggja fyrir nokkrar upplýsingar um fyrirætlanir í þeim efnum en það er eins og hv. 14. þm. Reykv. kom inn á óljóst hvernig viðbrögðin verða við vanda Lánasjóðs ísl. námsmanna. Hér á að spara 500 millj. með endurskoðun barnabóta. Það segir ekki nema hálfa söguna því að í fjárlagafrv. er ákvæði um að spara eigi 580 millj. í viðbót með ýmsum breytingum á löggjöf á tryggingasviðinu. Hér er því yfir milljarður sem á eftir að koma fram í fylgifrv. við fjárlagagerð um sparnað á þessu sviði.
    Það er óskilgreindur sparnaður á útlánahliðinni upp á 1.240 millj. sem enginn listi er kominn yfir enn þá og við fjárlaganefndarmenn höfum engar upplýsingar um enn hvaða liðir það eru sem verða fyrir þessum hníf. Fjárlagafrv. er í jafnmiklu uppnámi og það hefur verið nema að það er ljóst að þessar aðgerðir hafa þau áhrif að velta ríkissjóðs mun minnka og veltuáhrifin af því eru um 1.000 millj. kr. Á tveimur liðum einkum er aflað tekna í ríkissjóð til að mæta niðurfellingu aðstöðugjaldsins og framlögum ríkisins til að mæta því. Það er að tekjuskattshlutfall einstaklinga verður hækkað um 1,5%. Þar með verður skatthlutfall þeirra komið upp í 41,35% og síðan verður fækkað undanþágum í virðisaukaskatti og aflað með því 1.800 millj. kr., þar af var áður búið að gera ráð fyrir í fjárlagafrv. 1.000 millj. kr. Síðan verður hækkun á bensíngjaldi um 1,50 kr. á lítra. Svo er þessi klassíska afrúnunartala að það verður endurskoðun á reglum um reiknuð laun og hert skatteftirlit. Þetta er upp á 300 millj. Það er klassísk tala á öllum slíkum listum sem ég hef séð síðustu árin. Auðvitað er með öllu óljóst hvort þessar tekjur nást.
    Það versta við þessa yfirlýsingu er að þess hefur ekki verið gætt að reyna að ná um hana nógu víðtækri samstöðu. Því samráði sem virtist hafið hefur verið splundrað á einhverju ákveðnu stigi. Ég vísa því algerlega á bug ummælum hæstv. forsrh. um óábyrga stjórnarandstöðu. Stjórnarandstaðan kom ekki með neinu móti í veg fyrir að slíku samráði yrði haldið áfram og var ekki að neinu leyti kölluð til á lokasprettinum. Verkalýðshreyfingin, sem frábiður sér alla ábyrgð á þessum aðgerðum, var ekki heldur kölluð til.
    Mér er það auðvitað fullljóst að staða atvinnuveganna verður ekki styrkt nema það komi einhvers staðar við. Eins og fram hefur komið hér er byrðunum af því mjög misskipt og hin margumtöluðu breiðu bök í landinu virðast ekki vera fundin enn þá eða það fer algerlega fram hjá hæstv. ríkisstjórn hvar þau eru. Það er alveg ljóst varðandi þetta mál.
    Því miður er útlit á því að atvinnuleysið í landinu muni ekki minnka við þessa yfirlýsingu og þá fjárlagagerð sem fylgir í kjölfarið. Þeir sérfræðingar, sem fjárln. ræddi við um málið, voru sammála um það að áhrif þessara aðgerða mundu láta á sér standa og það yrði ekki fyrr en á árinu 1994 sem þau yrðu komin að fullu fram ef allt færi á hinn besta veg. Það leiðir hugann að því hve glæfralegt það var að halda að sér höndum allt þetta ár. Dýrmætur tími hefur farið til spillis. Síðan eru málin afgreidd á kvöld- og næturfundum og um helgar í tímahraki þegar allt er komið í óefni og allir gjaldmiðlar hjá okkar helstu viðskiptaþjóðum eru að falla. Þegar hæstv. ríkisstjórn er búin að mála sig út í horn koma pappírar eins og þessir. En því miður er ekkert útlit á því að þessar ráðstafanir muni duga til að snúa við hinni geigvænlegu þróun í atvinnumálum sem við blasir. --- [Fundarhlé.]