Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 21:13:32 (2599)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Hér hafa farið fram alllangar umræður um skýrslu hæstv. forsrh. um aðgerðir í efnahagsmálum. Það hafa verið bornar fram margar spurningar til hæstv. ráðherra og sumum þeirra verið svarað en önnur svör verið harla óljós svo ekki sé meira sagt. Ég vil víkja að örfáum atriðum sem við eru spurningarmerki í mínum huga.
    Hæstv. sjútvrh. hóf þessa umræðu í dag fyrir hönd ríkisstjórnarinnar með ræðu sinni. Þar voru ýmis atriði sem ég vildi víkja að. Ég vil því spyrja hæstv. forseta hvort hæstv. sjútvrh. muni verða viðstaddur þessa umræðu meira. ( Forseti: Ég hygg að sjútvrh. sé ekki í húsinu. Það má láta gá að því. Ef ræðumaður óskar að honum sé gert viðvart er sjálfsagt að verða við því.) Ég mun ekki tefja þessa umræðu með því en mun snúa máli mínu til hæstv. forsrh. og óska eftir því að hann svari þeim spurningum sem ég ber fram, enda hefur það komið fram fyrr hjá hæstv. sjútvrh. í umræðum á Alþingi og víðar að hæstv. forsrh. hefur tekið að sér ákvarðanir og svör í sambandi við sjávarútvegsmálin eins og ég mun kannski víkja að síðar.
    Fyrir nokkrum dögum spurði ég hæstv. sjútvrh. um stefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í sjávarútvegsmálum. Þau svör sem þá komu voru harla lítil um stefnuna fram undan. Í svörum sínum sagði hæstv. sjútvrh. svo m.a., með leyfi hæstv. forseta, þar sem rætt hafði verið um rekstrarstöðu sjávarútvegsins:
    ,,Það er enginn ágreiningur hvorki milli mín né þeirra um það að þegar þessum ráðstöfunum sleppir stöndum við frammi fyrir því að rekstraraðstaðan er óviðunandi og svo óviðunandi að jafnvel forustumenn launamanna hafa boðist til að taka höndum saman við forustumenn atvinnurekenda til að mynda þjóðarsátt um ráðstafanir til að styrkja undirstöðu framleiðslu og útflutnings í landinu. Ég hef áður fagnað því frumkvæði og vona að það leiði til lausnar.``
    Þetta var ljósið sem hæstv. sjútvrh. sá þá um stefnumörkun fyrir ríkisstjórn Davíðs Oddssonar í sjávarútvegsmálum. Nú höfum við séð árangurinn. Að vísu keppast forustumenn launamanna og atvinnurekenda við að sverja af sér að þetta séu þeirra tillögur sem hér liggja fyrir. Jafnframt hefur komið fram að ýmislegt í þeim sem helst er bitastætt er runnið frá viðræðum sem þessir aðilar áttu. Það kom fram í máli hæstv. sjútvrh. í dag að sjávarútvegurinn verður áfram rekinn með halla. Menn deila um það hversu mikill hann verður en það kom fram t.d. hjá formanni Samtaka fiskvinnslustöðva í gær að hallinn yrði allt of mikill og afkoman óviðunandi, enda hefur ekki fengist nein trygging frá ríkisstjórninni um vaxtalækkun sem þessi forustumaður í sjávarútvegi var búinn að segja að væri algjör forsenda fyrir því að nokkuð gagn yrði að aðgerðum, þ.e. a.m.k. 2--3% vaxtalækkun.
    Ef staða sjávarútvegsins hefði verið góð fram að þessum tíma hefði atvinnugreinin kannski getað þolað einhverja mánuði án þess að hafa tryggingu fyrir því að komast upp undir núllið, en því miður hefur þar verið öðru að heilsa þar sem stöðugt hefur þyngst fyrir fæti. Í september sagði Þjóðhagsstofnun að horfur væru á 8% halla í sjávarútvegi. Það kom fram í máli hæstv. forsrh. í gær að síðan í september hefði í raun orðið 3% gengishækkun íslensku krónunnar fyrir sjávarútveginn. Sá baggi hlýtur því að bætast við. Það er furðuleg ráðstöfun þegar aðalútflutningsatvinnuvegurinn stendur í svo miklum erfiðleikum að ríkisstjórnin skuli í margar vikur láta verða gengishækkun á íslensku krónunni í staðinn fyrir að halda henni í jafnvægi.
    Hæstv. sjútvrh. ræddi nokkuð um sjóðinn stóra, jónasveinasjóðinn, eins og hann hefur verið nefndur í umræðum á Alþingi. Það er margt furðulegt í sambandi við það fyrirbæri. A.m.k. urðu flestir þingmenn stjórnarliðsins undrandi í gær þegar hæstv. utanrrh. fór að segja frá þessu fyrirbæri sem á að verða óbrotgjarn minnisvarði þessarar ríkisstjórnar þar sem hæstv. forsrh. hafði ekki minnst á hann einu orði í skýrslu sinni til Alþingis um efnahagsaðgerðirnar. Menn veltu því fyrir sér af hverju þetta stafaði. Var þetta gleymska eða vissi hæstv. forsrh. ekki um tilvist þessa sjóðs eða hver var skýringin?
    Síðan hefur ýmislegt fleira komið fram í sambandi við þetta. Í sjónvarpinu í kvöld sáum við hvernig stjórnarliðið deilir um þennan stóra sjóð, þ.e. hvað hann . . .  (Gripið fram í.) ,,Ríkisstjórnin mun hlutast til um að . . .  stofnaður verði þróunarsjóður``, segir hæstv. forsrh. hér, en þetta kom mörgum þingmönnum þessara flokka mjög á óvart.
    Það eru margar spurningar í sambandi við þennan sjóð. Eins og ég sagði áðan var í sjónvarpinu í kvöld verið að deila um það hvað í þessum sjóði fælist. Það finnst mér nauðsynlegt að fá skýrt fram nú frá hæstv. forsrh. Hæstv. sjútvrh. sagði að tekjur hans ættu að vera 80 millj. kr. af þróunargjaldi skipa sem hefði verið greitt nú. Einnig ætti að leggja sambærilegt gjald á frystihús. Það er ekki vitað hvað það verður mikið. Það á eftir að reikna það út, sagði hæstv. sjútvrh. Síðan ræddi hann um fast gjald af veiðiheimildum. Á það að koma strax að loknu þessu fiskveiðiári? Ég gat ekki áttað mig á því í máli hans hvort

þetta fastagjald ætti að koma strax að loknu þessu fiskveiðiári eða á ekki að koma neitt gjald af veiðiheimildum fyrr en á árunum 1996 og 1997?
    Það sem hins vegar var sérstaklega deilt um í sjónvarpsfréttum í kvöld er hvað gjaldið á að verða 1996 eða 1997 eða þegar það tekur við. Þar féllu þung orð frá formanni LÍÚ um það hvort sú fullyrðingin væri rétt, sem annar formaður tvíhöfðanefndarinnar hélt fram, að sjóðurinn ætti að taka á sig allt það sem ekki yrði greitt af lánum Aflatryggingasjóðs og Hlutafjársjóðs sem renna inn í þennan nýja sjóð.
    Ég held að nauðsynlegt sé að hæstv. forsrh. skeri úr um þetta atriði. Það kom skýrt fram hjá formanni Landssambands ísl. útvegsmanna. Hvort þetta verður eins og aðstoðarmaður utanrrh. segir, að þessi baggi eigi að leggjast á sjávarútveginn þó enginn viti hvað hann verður mikill. En búast má við að hann verði mikill ef rekstrargrundvöllurinn heldur áfram að vera eins og hann er í dag. Kannski er hæstv. sjútvrh. núna að reyna að komast að niðurstöðu um þetta til þess að geta sagt hver stefnan er í sjávarútvegsmálum en væntanlega hefði hann ekki þurft að fara nema til hæstv. forsrh. til þess að fá úr því skorið. A.m.k. verður að ætla að hæstv. forsrh. viti um hvað var verið að semja.
    Í þeim orðum sem hæstv. forsrh. hafði um endurskipulagningu í sjávarútvegi að segja í gær er tekið fram að tekjur sjóðsins verði með eftirfarandi hætti, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Gjald sem leggst á fiskiskip og fari gjaldið eftir stærð skipa.
    Gjald sem lagt er á fasteignamat þeirra fasteigna sem nýttar eru til fiskvinnslu.
    Tekjur af eignum.
    Frá og með kvótaárinu 1996--1997 verði ákveðið þróunargjald lagt á úthlutuð þorskígildi.``
    Hér er, og ég átti við það áðan, ekki minnst einu einasta orði á 4 milljarðana sem ríkissjóður á að leggja í þetta og hlýtur að vera aðalgrundvöllurinn fyrir sjóðinn því að þessar eignir a.m.k. fyrstu árin eru tiltölulega litlar og bundnar í útlánum t.d. hjá Aflatryggingasjóði og eignum t.d. í Hlutafjársjóði. Eða komu þessir 4 milljarðar sem hæstv. utanrrh. talaði um fram eftir að hæstv. forsrh. flutti sína ræðu?
    Ég held að meðan allt svífur í lausu lofti um það hver raunveruleikinn er í sambandi við þessi sjávarútvegsmál eins og fleira sé erfitt fyrir hæstv. forsrh. að segja að það sé ábyrgðarleysi af stjórnarandstöðu að lýsa ekki yfir stuðningi við þessa stefnu. Við hvað eigum við að lýsa stuðningi þegar ráðherrarnir deila um það sjálfir innbyrðis og vita ekki einu sinni hvað í þessu felst?
    Síðan er eitt atriði enn sem virðist vera bundið í þetta samkomulag. Það er sjávarútvegssamningurinn við Evrópubandalagið, þ.e. að hæstv. sjútvrh. falli frá kröfu sinni, sem hann stóð fast á í sumar, að þar yrði um gagnkvæman veiðisamning að ræða, þ.e. að fiskur kæmi á móti fiski, en ekki eins og hæstv. utanrrh. vildi að við hleyptum togurum Evrópubandalagsins inn í fiskveiðilögsöguna án þess að nein trygging væri fyrir því að við fengjum afla á móti. Ef fara á eftir þessari stefnu hæstv. utanrrh. er augljóst að hér er eingöngu verið að láta veiðiheimildir fyrir markaðsaðgang.
    Í svari sínu við spurningu minni til hæstv. sjútvrh. um stefnuna í sjávarútvegsmálum sagði hann einnig, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Varðandi þá spurningu hvernig komið sé þeim athugunum sem ákveðnar voru til þess að bæta þeim tjónið sem verst urðu úti í þorskbrestinum, þá er það svo að um það náðist ekki samkomulag að nota Hagræðingarsjóð í þessu skyni. Þá var ákveðið að fela Byggðastofnun að koma fram með tillögur. Hún gafst upp við að útfæra þær tillögur og sérstakri nefnd sem þrír ráðherrar skipuðu, sjútvrh., fjmrh. og viðskrh. hefur verið falið það verkefni. Hún vinnur undir forustu ráðuneytisstjórans í fjmrn. og ég vænti þess að tillögur frá henni komi innan ekki langs tíma.``
    Eins og við vitum var það hæstv. forsrh. er tók ráðin af hæstv. sjútvrh. um að nota Hagræðingarsjóðinn og ætlaði að leysa málið á annan hátt. Það kom ekki, svo ég heyrði, fram í máli hæstv. sjútvrh. neitt um þetta atriði. Því vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Er þetta atriði nú leyst? Hvernig verður það leyst eða á ekkert að leysa það? Úr því að það var ekki gert í sambandi við þessa lausn núna um sjávarútvegsstefnuna og samkomulagið í tvíhöfðanefndinni er ríkisstjórnin þá hætt við að bæta þeim það upp sem fyrir mestri skerðingu urðu við lækkun fiskveiðiheimilda?
    En það eru fleiri atriði þar sem spurningar vakna um ábyrgðarleysi stjórnarandstöðunnar. Ætli það séu margir landsmenn sem finnst það ábyrgðarleysi að lýsa ekki yfir stuðningi við gjald á ferðaþjónustuna, þennan vaxtarbrodd íslensks atvinnulífs sem talinn hefur verið og núv. hæstv. ríkisstjórn hefur stundum nefnt sem eina dæmið um það sem hún sæi í sambandi við atvinnumál. Það er áreiðanlegt að þeir sem nálægt þeim málum koma finnst það ekki ábyrgðarleysi þó að menn lýsi ekki yfir stuðningi sínum við virðisaukaskattinn.
    Ég býst við að þeir séu nokkuð margir sem finnst það ekki ábyrgðarleysi af stjórnarandstöðunni að lýsa ekki yfir stuðningi við 14% gjaldið á upphitun í landinu sem leggst með svo gífurlegum mismun á fólk eftir því við hvaða aðstæður það býr og er því miður eitt dæmi um þann rangláta skatt. Eða 14% skattinn á ferðalög innan lands sem að sjálfsögðu leggst fyrst og fremst á þá sem úti á landi búa. Þannig er því miður með allt of mörg atriði af ákvörðunum hæstv. ríkisstjórnar sem leggjast svo misjafnlega á.
    Það er eitt atriði enn sem mig langaði að spyrja hæstv. forsrh. um ef hann er ekki alveg búinn að yfirgefa forsætisráðherrastólinn. Eitt þeirra atriða sem hann nefndi í yfirlýsingu sinni var um 1.240 millj. kr. sparnað á fjárlögum næsta árs sem ætti að koma með niðurskurði. Hann skilgreindi ekki frekar hvernig því ætti að ná. Nú hefur það komið fram, minnir mig í fjölmiðlum í morgun, að meira en helmingurinn af þessu ætti að koma frá heilbr.- og trmrn. án þess að það væri skilgreint nánar hvernig það yrði. Að öðru leyti veit ég ekki hvernig þessu verður náð eða hvar það á niður að koma.
    Ég þóttist vera öruggur um eitt þegar hæstv. forsrh. nefndi þetta að það mundi ekki koma niður á landbrn. Ekki eingöngu vegna þess að þar er þegar búið að skera niður frá núgildandi fjárlögum töluvert yfir 3 milljarða kr. heldur vegna þess að í útvarpsviðtali nýlega sagði hæstv. forsrh. þegar hann var spurður hvort þar mætti ekki ná fjármagni að það væri ódrengilegt að láta sér detta í hug að taka fjármagn þaðan. Þar væri búið að skera svo mikið og bændur búnir að taka á sig svo þungar byrðar að það væri sannarlega ódrengilegt að láta sér einu sinni detta slíkt í hug.
    Nú heyrði ég því hvíslað hér í dag að þrátt fyrir þessa yfirlýsingu væri landbrn. ætlað að taka eitthvað af þessum bagga. Ég vil ekki trúa því að hæstv. forsrh. ætli að gefa þessum aðgerðum nafnið ódrengilegt með sínum eigin orðum en finnst æskilegt að fá upplýst hvort við þurfum nokkuð að óttast það. Ég veit ekki hvort hæstv. forsrh. hefur tekið svo til orða að þarna væri nógu langt gengið vegna þess sem fram hefur komið hjá formanni landbn., hv. 3. þm. Austurl., Agli Jónssyni, að 250 millj. kr. vanti upp á að í fjárlagafrv. sé staðið við samningsbundin framlög til landbúnaðarins samkvæmt búvörusamningnum og því augljóst að ríkisstjórnin ætli ekki við þann samning að standa. Það var boðað í útvarpinu í kvöld að hann mundi gera nánari grein fyrir þessu eftir fréttir eftir hálftíma. Þá er það auðvitað spurning hvort þarna verður úr bætt eða hvort virkilega verður svo að þarna verði gengið enn þá lengra.
    Ég skal svo ekki tefja þessa umræðu lengur en vænti þess að hæstv. forsrh. svari þessum spurningum sem ég hef fram borið og eru ekki margar.