Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 21:47:28 (2602)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta var sérkennileg ræða hjá hæstv. forsrh. þar sem hann lýsti því yfir að ráðstafanirnar hefðu það í för með sér að hagur sjávarútvegsins batnaði ekki aðeins heldur batnaði hann stórkostlega og að þessar aðgerðir sem kveðið væri á um í yfirlýsingunni væru varanlegar ólíkt því sem áður hefði verið í þessum efnum. Þetta er auðvitað sérstaklega undarlegt með hliðsjón af því að stórkostlegur ágreiningur hefur komið fram jafnvel á milli ráðherra, t.d. utanrrh. og sjútvrh., um þennan þróunarsjóð nú þegar. M.a. um það hvort hann á að standa undir skuldbindingum Atvinnutryggingarsjóðs og Hlutafjársjóðs. Það er nauðsynlegt í framhaldi af þessari undarlegu yfirlýsingu forsrh. að spyrja: Er það ætlunin að þróunarsjóðurinn standi undir skuldbindingum Hlutafjársjóðs og Atvinnutryggingarsjóðs? Í öðru lagi úr því að þetta er svona pottþétt og hagur sjávarútvegsins batnar svona stórkostlega og þetta er svona varanlegt, þá spyr ég: Kemur frv. um þróunarsjóðinn á morgun eða hinn inn á hv. Alþingi?