Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 23:27:56 (2618)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin. Ég vil nefna nokkur atriði. Í fyrsta lagi það að mér fannst svar hans slappt að því er varðar verðhækkanaskriðuna sem er fram undan. Mér finnst að ríkisstjórnin eigi núna að skera upp herör gegn þeim sem ætla sér að hirða stórfé í skjóli þessara ráðstafana og það eigi að búa Verðlagsstofnun út af krafti til að taka á móti þeirri holskeflu verðhækkana sem bersýnilega er fram undan og hefur komið fram í verslunum og hjá þjónustufyrirtækjum strax í dag.
    Í öðru lagi varðandi þróunargjaldið eða þróunarsjóðinn vil ég segja að ég tel það mikilvægt að forsrh. hefur sagt það skýrt núna að þetta gjald verði ekki notað til almennrar tekjujöfnunar fyrir ríkissjóð. Það verði með öðrum orðum ekki notað með þeim hætti sem veiðileyfagjaldið hefur verið hugsað af Alþfl. Þar með get ég út af fyrir sig tekið undir hrósið til hæstv. sjútvrh. um að hann hafi snúið á Alþfl. í þessu máli. Það gat ég hins vegar ekki gert fyrr en þetta svar forsrh. lá fyrir með afdráttarlausum hætti eins og það gerir núna. Með öðrum orðum er því hafnað að hér verði lagt á almennt veiðigjald til að standa undir almennum rekstri ríkissjóðs.
    Mér finnst líka mikilvægt að taka það fram, virðulegur forseti, að ég tel að við lok þessarar umræðu hafi forsrh. sagt eina setningu sem getur svo sem alveg verið endirinn á umræðunni. Það var: Atvinnuleysið mun halda áfram að rísa nú og á næstunni. Það er ekki lausn í þessum ráðstöfunum. Vonin sem þjóðin batt við þessar ráðstafanir um allt land mun því ekki rætast. Það er niðurstaðan af þessum umræðum, virðulegur forseti.