Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 23:30:48 (2620)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í dag er það svo að 10--15% yngstu kynslóðarinnar á Íslandi eiga erfitt með að fá atvinnu. Í dag er það svo að menn horfa framan í hærri atvinnuleysistölur en nokkru sinni um langt árabil. Og í dag er það svo að við höfum rætt ráðstafanir í efnahags- og atvinnumálum sem hafa þann tilgang að reyna að draga úr atvinnuleysinu og reyna að berja atvinnuleysisvofuna frá þúsundum íslenskra heimila. Það liggur fyrir og það er vafi í mínum huga, hæstv. forsrh., að þessar ráðstafanir dugi. Það er vafi í mínum huga. Ég vona líka að menn geti sameinast um það við annað tækifæri að koma í veg fyrir að atvinnuleysisvofan haldi áfram að kollsigla fjárhag heimilanna í landinu. Það hefur komið hér fram af hálfu Alþb., virðulegur forseti, aftur og aftur í þessum umræðum, bæði í dag og í gær, að við erum tilbúin til samstarfs við stjórnarflokkana og aðra aðila og stjórnarandstöðuflokkana um raunhæfar ráðstafanir til þess að snúa atvinnuleysisdrauginn niður. Ég er reyndar þeirrar skoðunar, virðulegur forseti, að atvinnuleysið sé alvarlegasta efnahagslegt, félagslegt og menningarlegt vandamál Íslendinga í dag. Það sé ekkert brýnna en að finna leiðir til þess að snúa atvinnuleysisdrauginn niður. Í raun og veru ber okkur sem hér erum að snúa bökum saman um það. Til þess erum við hér og til þess er ætlast af okkur af því fólki sem hefur kosið okkur til að sitja í þessari virðulegu stofnun.