Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 00:01:28 (2624)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna síðustu orða hv. þm. tek ég fram að ég tel að umræða af þessu tagi í framhaldi af tilkynningu ríkisstjórnarinnar um tiltekin atriði sé ekki til þess fallin að fara nákvæmlega ofan í einstök atriði. Það gera menn þegar viðkomandi frumvörp verða lögð fram og þingnefndir fara síðan að skoða málin. Það er efnisumræða, stefnuumræða sem getur farið fram um tilkynningu af þessu tagi en ekki umræða sem gengur í smæstu smáatriði. Ég er því ósammála þingmanninum um það efni að allt eigi að gerast á þessari stundu. Ég ætla ekki heldur að ræða almennt um sjávarútvegsmál í tengslum við þessar aðgerðir á þessari stundu.
    Ég hef áður svarað því að þeir fjármunir sem sjávarútvegurinn greiðir til þessa sjóðs á að svara til þess kostnaðar sem á sjóðnum er. Það er einmitt mergurinn málsins varðandi sukksjóðina, sem hv. þm. nefndi svo, að það þarf enga skattpeninga til þess að standa straum af þessum sjóði. Hann verður í raun, eins og margoft hefur komið fram, á ábyrgð atvinnugreinarinnar sjálfrar. Honum er hjálpað af stað en ábyrgðin og fullnusta greiðslna verður á ábyrgð atvinnugreinarinnar sjálfrar. Það er meginþátturinn og mergur máls.
    Varðandi húshitunina þá er ljóst að í fjárlagafrv., eins og fram hefur komið fyrr í kvöld, eru 80 millj. kr. til að jafna húshitunarkostnað vegna einmitt virðisaukaskatts umfram það sem áður var gert ráð fyrir. Við vitum líka að stærsti hlutinn af þessum aukna kostnaði kemur fram á svæðum sem slík jöfnun þarf ekki að koma til þannig að þessi upphæð dugar meira og betur en heildarupphæð virðisaukaskattsins mundi gefa tilefni til. Þetta verða menn að hafa í huga. Auðvitað verður þetta líka skoðað betur í þinginu.
    Ég læt þetta nægja sem svar.