Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 00:03:20 (2625)


     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. forsrh. sagðist ætla að láta þetta nægja. Ég sé reyndar að það virðist vera tilgangslaust að spyrja um þessi atriði sem ég hef verið að spyrja um. Við þeim fást ekki svör. Það fást engin svör við því hvort það eigi að borga úreldingu frystihúsanna með veiðileyfagjaldinu. Það fást ekki heldur skýr svör við því hvort um hærri upphæðir verði að ræða en sem svara til Hagræðingarsjóðsins. Þetta er allt saman greinilega í lausu lofti, enda höfum við orðið varir við það í dag að verulegur ágreiningur er um málin. Það er þess vegna sem svörin fást ekki. Menn eru ekki búnir að komast að niðurstöðu.

    Hæstv. forsrh. sagði að það væri ekki hægt að fara ofan í smáatriði í þessari umræðu. Eru það smáatriði hvort útgerðin eigi að greiða úreldingu frystihúsanna í landinu? Ég tel það ekki vera neitt smáatriði. Ég tel fráleitt að það sé bara hugsanlegt að menn hafi gert svona samkomulag sem virðist liggja á bak við öðruvísi en það hafi verið tekið á þessu máli. En það má greinilega ekki segja frá því hver niðurstaðan var. Það er alveg furðulegt að verða var við það hvernig ágreiningurinn er innan stjórnarflokkanna um þessi mál. Ég hef t.d. hitt alþýðuflokksmenn sem segja: Við unnum. Það var okkar sigur hér á ferð. Svo hitti ég sjálfstæðismann úr þingflokki Sjálfstfl. sem sagði að Þorsteinn hefði rúllað þeim upp í sjávarútvegsmálinu. Það fer ekki alveg saman.