Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 00:05:54 (2627)


     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér finnst þetta út af fyrir sig vera svar. Þetta svarar spurningunni um að það er þá ekki á ferðinni að menn hafi gert samkomulag um að greinin ætti ekki að borga meira en sem svarar til hagræðingarsjóðsupphæðarinnar heldur geti sú upphæð orðið einhver önnur.
    Til viðbótar við það vil ég segja líka að ég misvirði það alls ekki og ég tel það út af fyrir sig góðan hlut að inni í fjárlagafrv. eru 80 millj. vegna niðurgreiðslna á húshitun en nú hefur vandinn aukist mjög mikið við síðustu aðgerðir við virðisaukaskatt og gengisfellinguna. Það sem ég hef miklar áhyggjur af er að fólk sem býr á köldu svæðunum þarf að borga 12.000 kr. hækkun að lágmarki ofan á það sem það greiddi áður. Sums staðar enn þá meira þar sem hitaveitur eru mjög skuldugar. Þess vegna spurði ég hæstv. forsrh. um það hvort hann ætlaði að beita sér fyrir einhverju sérstöku átaki til þess að koma til móts við fólk á þeim svæðum þar sem dýrast er að kynda hús.