Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 00:07:29 (2628)

     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Það líður sjálfsagt að lokum þessarar umræðu. Það sem liggur fyrir eftir að þetta mál hefur verið rætt í tvo daga á Alþingi Íslendinga er það að mesta skatta- og tekjuskerðingarár sem íslensk alþýða hefur séð er fram undan. Því miður er staðan sú að ríkisstjórnin hefur ekið út af veginum. Stefna hennar er brostin og vilja sjálfsagt fáir hjálpa þessari ríkisstjórn upp á veginn á nýjan leik. Vinum hennar hefur verulega fækkað eins og ég rakti fyrr í kvöld. Það er auðvitað alvarlegur hlutur fyrir þjóðina að stjórnin skuli ætla að sitja áfram við þær aðstæður að vera búin að glata allri sinni tiltrú.
    Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra --- sem leyfist að vera í hrókasamræðum þegar reynt er að tala við þá eða fjarri salnum --- um viðhorf þeirra í sambandi við þessar aðgerðir. Nú er það svo að ýmis fyrirtæki í einkageiranum hafa á síðustu árum skilað umtalsverðum hagnaði. Ég minntist á nokkur í kvöld sem ég taldi að hefði verið hægt að setja nokkra pinkla á og létta þar með á alþýðunni. Maður hefur séð það í velgengni sumra fyrirtækja að skattalögin eru því miður með þeim hætti að fyrirtækjunum tekst að reikna sig tekjulaus. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort þeir hefðu ekki talið eðlilegt að gera breytingu á skattalögunum þannig, þar sem ríkisstjórnin greiðir fyrir fyrirtækjunum með því að fella burtu aðstöðugjaldið, að láta þau sum hver borga af hagnaði sínum einhver gjöld í ríkissjóð til viðbótar.
    Ég held að það sé staðreynd að í mörgum fyrirtækjum líðst það að menn færa laun sín í stórum stíl sem kostnað á fyrirtækin. Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að hækka viðmiðunarreglur. Ég ætla að spyrja hæstv. forsrh. hvort honum þyki viðmiðunarreglurnar sem í gildi eru ekki fulllágar. Eigum við að skoða með hvaða hætti þær eru?
    Lyfjafræðingum, læknum, lögfræðingum, löggiltum endurskoðendum og ráðgjafasérfræðingum líðst að á þá er áætlað í dag 220 þús. kr. í mánaðarlaun. Þetta mun verða til þess að margir álíta að þeir eigi að sleppa við þessa viðmiðun. Ég get rakið fleiri og ég hygg að margur sé undrandi yfir því hvað þessar viðmiðunarreglur eru lágar. ( Gripið fram í: Bændur.) Bændur t.d. Þar eru viðmiðunarreglurnar 46.000, ef ég man rétt, en ég hygg að ekki sé möguleiki á miklum skattsvikum í landbúnaðinum. Hér eru t.d. ýmsir stjórnendur sem reka sjálfstæð fyrirtæki og þurfa að áætla á sig 113 þús. kr. Væri ekki eðlilegra að hafa þessar viðmiðunarreglur hærri og miða kannski við það meðaltal sem sannarlega gildir hjá mörgum þessara stétta. Ég hygg að það væri betra að láta eigendur fyrirtækjanna og þessa einstaklinga í einkarekstri sanna að þeir séu með lægri tekjur. Þá borga þeir auðvitað ekki meira en þeir eiga að gera.
    Mér finnst þessar viðmiðunarreglur of lágar og ég er sannfærður um að þessar stéttir, sem ég hef verið að lesa upp, eru sumar hverjar með laun á bilinu frá 500 þús. og upp í 2 millj. á mánuði. Mér finnst þessar viðmiðunarreglur bjóða upp á það að menn reyni að halda sig innan þessara marka. Í jafnskatteftirlitslausu þjóðfélagi og við búum við þá líðst þeim það.
    Mig langar að spyrja um t.d. hátekjuskattinn sem ég fyrr í kvöld gagnrýndi ekki og taldi mikilvægan til sátta í samfélaginu en gagnrýndi þó að mér fannst ósanngjarnt að miða við það sem væri fram

yfir 200 þús. á einstaklinga og ætti kannski að fara í 250 þús. kr. Þó er það svo að í þessum hópi manna munu t.d. lenda sjómenn sem fengu á sig verulega skerðingu fyrir síðustu jól þegar sjómannaafsláttur var felldur burtu. Sjómenn sem eru mjög fjarri heimilum sínum munu auðvitað lenda í þessum skatti. Mig langar að spyrja hæstv. forsrh.: Hvernig verður farið með innheimtu á þessum skatti? Verður skatturinn lagður á hvern einasta mánuð? Nú eru þetta menn með mjög misjafnar tekjur. Þeir geta verið með mjög miklar tekjur einn mánuðinn og nánast engar tekjur næsta mánuð. Mig langar því að fræðast um hvaða reglum verður beitt í þessu efni.
    Mín lokaorð eru þau --- ég sé að formaður þingflokks Sjálfstfl. er mættur. Hann hefur auðvitað séð til þess í dag að reka sína menn úr salnum og að þeir væru sem minnst við þessa umræðu og hv. formaður þingflokks Alþfl. er hér allstaffírugur þótt klukkan sé farin að ganga eitt um nótt og hefur sjálfsagt haft sama hlutverk í sínum flokki að menn væru sem minnst við þessa umræðu. Ég er sannfærður um að það að stjórnarliðana hefur vantað við þessa umræðu og í salinn er merki þess að stríðið er fram undan hjá ríkisstjórninni. Það hefst á morgun. Það hefst á morgun þegar ríkisstjórnin ætlar sér bæði í fjárlögum og með sérstökum frumvörpum að koma þeim aðgerðum sínum í framkvæmd sem hér hafa verið boðaðar. Stríðið hefst þegar hækka á tekjuskatt á einstaklinga um 3 milljarða. Stríðið magnast þegar hækka á húshitunarkostnað fjölskyldnanna um allt land. Stríð rís enn þá hærra þegar það blasir við að hækkunin verður mikil á matvælum í gegnum aðgerðir þessarar ríkisstjórnar. Stríðið mun magnast verulega í Alþfl. þegar hæstv. félmrh. reisir sig og segir nei. Það er enginn vafi á því að þegar hæstv. félmrh. rís úr rúminu verður barátta hennar í þingflokki Alþfl. að fá það ákvæði fellt í burtu að 500 millj. verði felldar niður á vaxtabótum sem er 17% hækkun á einstaklinga og raskar þeim útreikningi sem fólk hefur reiknað fram í mörg næstu ár til að ráða við sín húsakaup. Þá rís stríðið í herbúðum þingflokks Alþfl. hátt. Ég hef enga trú á því að þetta atriði fari í gegnum þingið eða ríkisstjórnina þó það sé boðað í pakkanum. Og enn mun stríðið magnast þegar koma á bóka- og fjölmiðlaskattinum á. Það eru því ekki sælir dagar fram undan hjá hæstv. forsrh. á næstu vikum. Það munu koma upp brestir í því þingliði sem styður þessa ríkisstjórn, ekki síst vegna þess að aðalatriðið gleymdist í aðgerðum forsrh., að hann er ekki einn í heiminum, hæstv. forsrh. Hann þarf að hafa samráð í sínu samfélagi við svo ótal marga svo að ríkisstjórn farnist vel.