Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 00:22:29 (2632)

     Jón Helgason :

    Hæstv. forseti. Í þessari umræðu hefur verið varpað fram mörgum spurningum til hæstv. ráðherra. Svör hafa fengist við ýmsum þeirra og fá þeirra hafa aukið mönnum bjartsýni. Í lokin er mér einna efst í huga fullyrðing hæstv. forsrh. um að atvinnuleysi muni ekki fara minnkandi á næstu mánuðum. Ég er sammála hæstv. forsrh. um að það er sama hvaða aðgerðir hefði verið komið fram með. Það markmið mundi ekki nást nema að uppfylltu einu skilyrði. Það er að þjóðin fengi strax trú á því að þessar aðgerðir séu jákvæðar og mundi skila góðum árangri í því að treysta atvinnulíf og okkar þjóðarbúskap. Því miður er þegar að koma í ljós að því er ekki þannig varið með þessar efnahagstillögur. Það kom skýrt fram í viðtölum frá þingi Alþýðusambands Íslands á Akureyri sem kom í fréttum í kvöld. Þar var talað við allmargra einstaklinga og ég hygg að þeir hafi verið úr ýmsum flokkum, en það var alls staðar sami tónninn. Því miður hefur það sama komið fram úr hópi atvinnurekenda, vonbrigði. Af þessum sökum óttast ég að hæstv. forsrh. verði allt of sannorður að árangurinn verði því miður sá sem hann lýsti.