Sala rafmagns til skipa

61. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 13:40:55 (2641)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég á sæti í iðnn. og var fjarverandi þegar málið var afgreitt og get fyrir mitt leyti sætt mig við þessa afgreiðslu málsins. Ég vek hins vegar athygli á því að það er dálítið sérkennilegt að afgreiða ágreiningslaust mál að fjórum nefndarmönnum fjarstöddum. Ég tel að það sé í raun og veru óþarfi að halda þannig á málum og vil koma þessari athugasemd á framfæri.
    Í öðru lagi vil ég benda á að fyrir þinginu liggur tillaga frá nokkrum þingmönnum Alþb. um skylt efni, um víðtækt átak til þess að auka notkun á innlendum orkugjöfum í stað erlendra. Þessi till. sem hér er á dagskrá er auðvitað aðeins hluti af því máli. En engu að síður eru málin skyld og ég taldi eðlilegt að vekja athygli á þessu, virðulegi forseti, vegna þess að sú tillaga sem ég nefndi og flutt er af mér og fleiri þingmönnum Alþb. kemur væntanlega hér til umræðu einhvern tíma næstu daga. Ég endurtek að ég er sáttur við niðurstöðu nefndarinnar, en tel að það sé nokkuð sérkennilegt að taka ágreiningslaust mál út með fimm nefndarmönnum að fjórum fjarstöddum.