Friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana

61. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 13:42:45 (2642)

     Frsm. utanrmn. (Björn Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 337 frá utanrmn. um frv. til laga um

friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana o.fl. og hljóðar það þannig:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarp þetta sem felur í sér að sett verði almenn lög um að alþjóðastofnanir skuli njóta þeirrar friðhelgi og þeirra forréttinda hér á landi sem kveðið er á um í alþjóðasamningum sem öðlast hafa stjórnskipulegt gildi að því er Ísland varðar. Með slíku er tryggt að ekki þurfi að setja sérlög um þessi réttindi í hvert skipti sem Ísland gerist aðili að alþjóðastofnun.
    Nefndin fékk til viðræðna um frumvarpið Þorstein Ingólfsson, ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu, og Pétur Gunnar Thorsteinsson sendifulltrúa.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali. Breytingarnar eru eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi er lögð til sú breyting í fyrri málsgrein 1. gr. að í stað orðsins ,,gildi`` komi orðin ,,stjórnskipulegt gildi``. Með því er ákvæði greinarinnar gert skýrara og tekin af öll tvímæli um að það nái til allra samninga sem fengið hafa þá stjórnskipulegu meðferð sem 21. gr. stjórnarskrárinnar mælir fyrir um.
    Í öðru lagi er lögð til sú breyting á 2. gr. að heimild til að setja nánari reglur um framkvæmd laganna verði á hendi utanríkisráðherra en ekki ,,hlutaðeigandi ráðherra`` eins og kveðið er á um í frumvarpinu. Það er skoðun nefndarinnar að ekki sé heppilegt að Alþingi veiti svo almenna heimild til útgáfu reglugerða að allir ráðherrar ríkisstjórnar geti sett reglugerð um framkvæmd einna tiltekinna laga.
    Í þriðja lagi er gerð sú orðalagsbreyting á 2. gr. að í stað þess að kveðið sé á um að utanríkisráðherra geti sett reglugerð um nánari framkvæmd laganna er ráðherra skyldaður til að setja nánari reglur um framkvæmd þeirra. Það er skoðun nefndarinnar að sé ástæða talin til að hafa reglugerðarheimild í lögum sé það í þágu hagsmuna borgaranna, sem og almenns réttaröryggis, að tekin séu af öll tvímæli um skyldu ráðherra í þessu efni.
    Í fjórða lagi er lagt til að 3. gr. frumvarpsins falli brott þar sem ýmislegt í henni varði frekar almenna lagahreinsun en efni frumvarpsins. Nefndin telur því eðlilegra að ráðuneytið flytji sérstakt lagahreinsunarfrumvarp þar sem tekið verði á þeim atriðum sem eru í 3. gr. frumvarpsins. Í samræmi við þessa breytingu eru orðin ,,o.fl.`` felld úr heiti frumvarpsins.``
    Undir nál. rita Björn Bjarnason, Rannveig Guðmundsdóttir, Steingrímur Hermannsson, Ólafur Ragnar Grímsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Geir H. Haarde, Páll Pétursson, Árni R. Árnason og Tómas Ingi Olrich.