Friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana

61. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 13:51:15 (2644)


     Frsm. utanrmn. (Björn Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Ég sé mig knúinn til að standa upp aftur til þess að útskýra að þetta frv. sem er til umræðu snertir ekki málefni sendiráða eða samstarf ríkja á grundvelli stjórnmálasambands. Það eru um það sérstakir alþjóðasamningar kenndir við Vínarborg sem hafa verið fullgiltir og lögteknir á Íslandi. Þetta mál snertir það ekki neitt og alls ekki það sem síðasti ræðumaður var að tala um í sambandi við friðhelgi sendiráðsstarfsmanna. Hér er verið að ræða um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana og starfsmanna alþjóðstofnana sem hugsanlega yrðu starfræktar á Íslandi. Það er ekki verið að fjalla um sendiráðsmenn. Það er verið að fjalla um starfslið alþjóðastofnana, þá sem koma fram eða starfa á vegum alþjóðastofnana, fulltrúa, sendimenn og erindreka aðila að alþjóðastofnunum, þá sem taka þátt í rekstri mála fyrir alþjóðastofnunum og fjölskyldur þessa fólks. Það er ekki verið að tala um neina þá sendiráðsstarfsmenn sem starfa á Íslandi heldur er verið að lögfesta ákvæði sem hafa verið í einstökum samningum sem Ísland hefur gerst aðili að og lúta þessu sérgreinda atriði.
    Mér þótti nauðsynlegt að þetta mál yrði skýrt með þessum hætti þannig að menn telji ekki að hér sé verið að fjalla sérstaklega um friðhelgi sendiráðsmanna eða sendiráða. Það mál hefur verið afgreitt á Alþingi fyrir nokkrum árum, ég hef ekki tilækt hvenær það var gert, og byggist á sérstökum alþjóðasamningi sem Ísland er aðili að og er kenndur við Vínarborg eins og ég lét áður getið.