Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum

61. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 14:15:39 (2650)

     Frsm. iðnn. (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti iðnn. um frv. til laga um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum. Nefndin hefur fjallað lengi og ítarlega um þetta frv. við almenna og djúpa ánægju nefndarmanna. Við höfum fengið okkur til fróðleiks fjölmarga sérfræðinga til að skýra þetta frv. sem að öðru leyti skýrir sig sjálft eins og þingheimur vafalaust skilur. Við fengum m.a. á okkar fund Rán Tryggvadóttur, deildarstjóra í iðnrn., Valgerði Skúladóttur, verkfræðing í iðnrn., og Gunnar Guttormsson, forstjóra Einkaleyfastofunnar.
    Nefndin leggur til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á frv.:
    Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á 1. tölul. 2. gr. og 3. tölul. 5. gr. vegna hugtakabrengls. Það er rétt að það komi fram að í þessu tiltölulega einfalda máli víxluðust hugtökin ,,hálfleiðari`` og ,,smárás`` og gerði það að verkum að fundum nefndarinnar um þetta mál fjölgaði nokkuð. Í öðru lagi er lagt til að kveðið verði skýrar á um vernd rétthafa í 5. tölul. 6. gr. Í þriðja lagi er lagt til að fyrningarákvæði 8. gr. verði fellt út og almennir fyrningarfrestir gildi. Í fjórða lagi þykir eðlilegt að miða gildistöku frv. við 1. jan. 1993.
    Nefndin mælir með samþykkt frv. með þeim breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Ég tel ekki ástæðu, virðulegur forseti, til að fjalla ítarlegar um þetta. Ég hygg að öllum þingheimi sé ljóst hvað er smárás, hvað er hálfleiðari og hvað er svæðislýsing smárásar. En ég vil geta þess að Guðjón Guðmundsson var fjarstaddur afgreiðslu málsins.
    Undir nál. rita: Össur Skarphéðinsson, Pálmi Jónsson, Sigríður A. Þórðardóttir, Svanhildur Árnadóttir, Svavar Gestsson, Kristín Einarsdóttir, með fyrirvara, Finnur Ingólfsson, með fyrirvara og Elín R. Líndal, með fyrirvara. Rétt er að geta þess að Svavar Gestsson ritar ekki undir með fyrirvara vegna þess að gildistökuákvæðið er ekki tengt EES.