Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum

61. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 14:27:37 (2653)

     Frsm. iðnn. (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Í skólum er það svo að þeir sem ekki mæta á prófum falla á prófi. Ég verð að segja að mér þykir sem hv. þm. Kristín Einarsdóttir hafi fallið á þremur prófum. Í fyrsta lagi var hún fjarstödd þegar yfir þetta var farið með sérfræðingum og í öðru

lagi var hún fjarstödd þegar formaður reyndi að skýra þetta fyrir þeim nefndarmönnum sem ekki skildu. Og í þriðja lagi þá hefur hún bersýnilega ekki lesið greinargerðina vegna þess að þar er þetta skýrt mjög nákvæmlega.
    Ég hygg að hér sé ekki staður til að fara nákvæmlega út í öll þessa tæknilegu smáatriði. En hv. þm. spurði m.a. einnar ,,konkretar`` spurningar: Hver er munurinn á svæðislýsingu og rásarteikningu? Það er auðvelt að skýra það. Rásarteikning er í tvívíðu plani en svæðislýsing, eða íslenska þýðingin á topography, er í þrívídd vegna þess að smárásin liggur ekki í einu plani heldur er hún í þrívídd. Þetta veit ég að þingmaðurinn með 2 eða 3 háskólapróf á bakinu skilur.
    Að öðru leyti er það hárrétt hjá hv. þm. Páli Péturssyni að í dag eru engar smárásir framleiddar hér á landi. Hins vegar er talið að með EES muni koma hér fyrirtæki stærri eða smærri sem munu gera það og þau þurfi þessarar verndar við. Það er líka rétt hjá honum að Raunvísindastofnun háskólans taldi sig ekki hafa tækniþekkingu til að gefa á þessu álit. Og það er enn fremur rétt að það komi fram að Einkaleyfastofan treysti sér ekki til að gera efnislegar athugasemdir við þetta frv. vegna þess að það er svo flókið. Vissulega hefði það verið heppilegt fyrir bæði Raunvísindastofnun háskólans og Einkaleyfastofuna að fá að njóta þeirrar þekkingar sem okkur var útbær á fundum iðnn. og þar sem hv. þm. Kristín Einarsdóttir var því miður ekki viðstödd.
    Með frv. eru menn að byggja til framtíðar. Allir í þessum sölum eru sammála því að við viljum draga hingað til landsins þekkingu, hátækniþekkingu, og helst erlend fyrirtæki sem vilja fjárfesta hér í hátækni. Það verður hins vegar erfiðara að fá þau til að hefja framleiðslu hér á því sviði nema umrædd vernd sé til staðar. Það er einu sinni svo að svæðislýsing, þótt hún byggi á kunnáttu og hugviti, hefur ekki það nýnæmi til að bera að hægt sé að sækja um einkaleyfavernd. Það er ekki hægt. Þá eru tvær leiðir til þess að vernda það hugvit sem er lagt fram við gerð svæðislýsinga. Það er í fyrsta lagi hægt að gera kröfur um formlega skráningu hjá ákveðnum skráningaraðila. Sú leið er til að mynda farin í Danmörku. Hún er kostnaðarsöm og tímafrek. Hér á landi er talið rétt að fara ekki þá leið vegna þess hversu umfang greinarinnar er lítið. Þess vegna er farin sú leið að byggja á sömu vernd og er gert í höfundalögunum, þ.e. skráningin er ekki gerð að skilyrði en eigi að síður er vernd til staðar. Það er þessi vernd sem frv. gengur út á. Það getur vel verið að þingmenn kjósi að koma hingað og gera grín að frv., frv. sem er lagt fram til þess að reyna að leggja grunn að nýrri tækniþekkingu, að nýjum greinum. Ég bendi á að ágætur þingmaður, hv. þm. Svavar Gestsson, kýs að skrifa undir þetta án fyrirvara vegna þess að við féllumst á það í nefndinni að taka út gildistökuákvæði sem tengdist EES. Þó að þingmaðurinn hafi að vísu ekki háskólapróf í raungreinum eins og ýmsir aðrir þingmenn sem ekki skilja gildi þessa þingmáls, skilur það að þetta er ein af okkar leiðum inn í framtíðina, til þess að búa til betri framtíð, til þess að byggja upp öðruvísi iðnað, hátækniiðnað. Það var þess vegna sem menn féllust á það, þrátt fyrir að margt sé til í því sem hv. þm. Páll Pétursson segir að í dag sé gildi þessa frv. tiltölulega lítið, að standa að samþykkt frv. vegna þess að menn höfðu trú á framtíðina, a.m.k. sumir í þessum sölum.