Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum

61. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 14:33:57 (2655)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það vekur nokkra undrun við lestur frv. að okkur er tjáð að búið sé að þýða það á íslensku. Reyndar er viss deila um það hvort rétt hafi verið þýtt. Svo þegar maður reynir að lesa þessa íslensku sem hér er sett á blað stendur maður frammi fyrir því að hún er nánast illskiljanleg eða óskiljaleg. Ég verð að segja eins og er að ég sakna þess mjög að hér skuli ekki vera staddur í salnum hv. 2. þm. Norðurl. v. Það hefur komið oftar en einu sinni fyrir að hann hafi gert athugasemdir við texta. Með leyfi forseta, vil ég lesa upp smáatriði úr þessum texta. Það er í 1. gr.:
    ,,Vernd samkvæmt lögum þessum tekur ekki til hugmynda, ferla, kerfa, tækni eða upplýsinga sem svæðislýsingin hefur að geyma en teljast ekki til hennar sjálfrar.``
    Þarna er svæðislýsingunni lýst eins og tunnu sem hafi mikið geymslurými. Þar séu alls konar fyrirbrigði, svo sem hugmyndir, ferli, kerfi, tækni eða upplýsingar. Svo eiga menn að vera færir um að greina í sundur hvað sé innihald tunnunnar laust og hvað sé efniviðurinn þar fyrir utan. Þegar þetta er skoðað í 2. gr. kemur skýringin á því hvað þessi orð eiga að þýða. Þar er lögfest skýring á tveimur orðum. Oftast nær kemur þetta fyrir í grenargerðum eða þá að hægt er að finna það í orðabókum hver sé skýring á íslensku máli. Í þessu tilfelli hafa þeir lögfest skýringar á tveimur orðum og hvorki Raunvísindastofnun né Einkaleyfisstofnunin treystir sér til þess að dæma um hvort þetta sé í takt við það sem þeir hafa upplýsingar um. Með leyfi forseta, vil ég lesa upp úr 2. gr.:
    ,,Hálfleiðari er fullbúin vara eða vara á framleiðslustigi, sem
    a. er samsett úr ýmsum efnum, þar á meðal einu lagi af hálfleiðaraefni . . .  ,``
    Engin skýring er á því hvað hálfleiðaraefni sé. ( Gripið fram í: Það átti að standa smárás. Villan er fólgin í því.) Það er ekki skrýtið þótt liðinu sé skemmt. Svo kemur hér á eftir svæðislýsing á smárás og það er rétt að lesa það þá líka upp:
    ,,Svæðislýsing smárása á hálfleiðara er teikning af uppröðun samverkandi hluta sem hver rás er samsett úr, hvernig sem þetta mynstur er áfest eða áritað,
    a. sem sýnir þrívíddarmynstur allra laganna sem mynda smárásir á hálfleiðara og
    b. þar sem hver hluti teikningarinnar hefur að geyma mynstur eða hluta af mynstri á yfirborði hálfleiðara á ákveðnu stigi í framleiðslu þess.``
    Hér vekur það athygli að formaður kemur næsta kokhraustur í pontu og telur að það þurfi ekki að útskýra þetta mál. Þeir hafi fengið fjöldann allan af sérfræðingum í iðnn. sem útskýrt hafi þetta fyrir þeim. En nú er það svo að iðnn. býr ekki til lög. Iðnn. á aðeins að leggja fyrir Alþingi sínar tillögur um það hvernig lög eigi að vera. Í staðinn fyrir að útskýra málið frá grunni, koma með alla fræðsluna sem hann fékk frá sérfræðingunum fimm eða sex í iðnn. og útskýra það hér á mæltu máli, þá er ráðist á menn með fúkyrðum ef þeir hafa ekki háskólapróf í réttri gráðu og þeir bornir þeim sökum að þeir falli á prófum sem mæti ekki í tíma. Það verður að segjast eins og er að hv. 15. þm. Reykv. svaraði því til að enn væri hægt að lesa utan skóla og ekki öruggt að sú fullyrðing stæðist að menn féllu ef þeir ekki mættu í tíma.
    Ég skil ekki tilganginn með nefndarstarfi ef formaðurinn, sem talar fyrir álitinu, telur að það eigi fyrst og fremst að gera grín að þeim stofnunum íslenskum sem ekki treystu sér til umsagnar um málið og sér beri engin skylda til að útskýra málið. Ég tel að formanni beri skylda til að útskýra þetta mál svo skiljanlegt sé, jafnvel þó að menn hafi ekki háskólapróf. Það er nefnilega ekki skylda fyrir veru hér á þingi að menn hafi háskólapróf. Það gefur engin réttindi til þess að vera með fúkyrði út af skilningsleysi manna. Það er ætlast til þess að lög séu á það skiljanlegu máli að hægt sé að fara yfir þau án þess að menn hafi háskólapróf. Ég verð að segja eins og er að það má vel vera að allt sé satt og rétt sem hér hefur verið sagt um að þetta sé mikils virði einhvern tíma í framtíðinni. Það getur vel verið að það sé líka rétt að stutt sé í það. En mér er spurn: Hér fáum við lagakafla þar sem ráðherrum er ætlað að setja reglugerðir yfir viss atriði. Er frv. ekki dæmi um

lög sem ættu að vera á þann veg að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð sem verndar, samkvæmt lögum þessum eins og hér segir? Þá komi upptalningin í 1. gr. sem eru lokaorðin þar? Er rökrétt að það eigi að taka þá stefnu að demba eigi yfir þingheim texta í lögum sem fæstir gera sér nokkra grein fyrir hvað er? Er þá ekki rétt að menn beri ábyrgð á því í ráðuneytinu að setja slíkt upp í reglugerðarformi?
    Ég tel að hér sé verið að snúa lagasetningunni við. Í þessu tilfelli átti fyrst og fremst að setja í lagatexta það sem væri markmiðið, þ.e. ákveðna vernd gagnvart þeim sem fara í svona framleiðslu. Ráðuneytinu sé svo skylt að setja upp í reglugerð þau atriði sem þurfi að vera til þess að hægt sé að ná þessari vernd en ekki setja þetta fram þannig að Alþingi Íslendinga sé gert ábyrgt fyrir því annars vegar að vitlaust sé þýtt og að iðnn. hafi e.t.v. leiðrétt þýðinguna eða að hún hafi ekkert skilið frekar hvað átti að vera í frv. ( EH: Það þarf þá að skoða fleira.) Ég tek undir það sem hv. þm. Eggert Haukdal kom fram með í þessu máli. Það virðist vera nauðsyn að skoða fleira.
    Það sem vekur sérstaka athygli er að hér hafa staðið upp tveir fulltrúar úr iðnn., hv. 1. þm. Norðurl. v. og hv. 17. þm. Reykv., og sagt að þetta væru nánast frumvörpin sem við mættum eiga von á á næstunni, þau yrðu svona. Hv. 17. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, boðar þetta sem hina miklu framtíð. Ég tel að óskiljanlega uppsetningu á lagafrv., eins og hér er, eigi ekki að leggja fyrir þingið. Ég tel að lagafrv. eigi að vera í það skýrum texta að auðskilið sé hverjum manni sem les þann texta. Ef ráðherrar eru að óska eftir heimildum geta þeir gert það á skýru máli innan afmarkaðra lagagreina. En að bera það á þingheim að hann geti bara lesið þetta og skilið því að það sé auðskiljanlegt er eins og hver annar þvættingur. Ég er ekki búinn að sjá að þeir sem voru í iðnn. hefðu orðið nokkurs vísari í þessu máli hefðu þeir bara sest niður og lesið þetta. Hafi það verið svo að sérfræðingarnir hafi útskýrt þetta mál þannig að auðskilið sé ber formanni iðnn. skylda til þess að gera grein fyrir því í þinginu á það skýru máli að það skiljist.