Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum

61. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 14:52:50 (2659)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hafa bent á að það er nauðsynlegt fyrir okkur að fylgjast með tækniframförum og aðlaga okkur að þeim. Það á vissulega ekki að vera neitt gamanmál að gera slíkt. Ég vil líka taka undir það sem hv. 2. þm. Vestf. sagði að æskilegt sé að skoða vel hversu nákvæm lög þurfa að vera um tæknileg atriði og hvað má vera í reglugerð, hvort ekki er hægt að setja inn í lög með orðalagi, sem allir geta skilið, ákvæði sem tryggja það nægilega vel hvernig slík reglugerð á að líta út án þess að notuð séu svo sérstæð og tæknileg orð eins og eru í frv. Ég er þó ekki með því að taka undir það að lög eigi aðeins að vera heimildir til ráðherra til að gefa út reglugerðir.
    Ég held að það sé sama þótt búið sé að leiðrétta 2. gr. frv., það verði ákaflega erfitt fyrir þá sem lesa lögin í lagasafni að skilja raunverulega hvað í þessum lögum felst og það verði ákaflega fáir sem munu gera það, jafnvel þó að þekking sé sífellt að vaxa og kennsla að aukast í skólunum um þessa nýju tækni. Greinargerð verður ekki sett upp í lagasafni svo hún veitir enga stoð við lestur þar. Það verður þá að rekja hana aftur til frv.
    Ég vil sérstaklega benda á annað í sambandi við greinargerðina. Hún á að skýra hvað í frv. felst og þá að nokkru leyti að vera kennslugagn fyrir þingmenn til þess að skilja það. Þess vegna vil ég koma því á framfæri hvort það væri ekki athugandi að í slíkum greinargerðum með jafntæknilegu máli og hér er á ferðinni yrði hafður sami háttur á og gjarnan er í góðum kennslubókum að málin séu skýrð með myndum. Ég held það væri allt annað fyrir okkur ef við hefðum getað flett upp í mynd strax í upphafi greinargerðar þar sem það kæmi fram á táknrænan hátt hvað er svæðislýsing, hvað er smárás og hvað er hálfleiðari. Það dettur mér í hug m.a. vegna þess sem stendur í greinargerðinni, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Segja má að hægt sé að líkja þessu plani við uppdrátt af húsi, þar sem sýnt er á fleti hvar hvert herbergi er. Fyrir smárásina á þetta þá við um hvar hver hlutur fyrir sig á að vera.``
    Hér er reynt að gera grein fyrir þessu á þrívíddarplani eins og hv. frsm. sagði. Ef það hefði verið gert með einföldum teikningum og uppdrætti í staðinn fyrir svo flókið orðalag, sem það virðist vera án skýringa, held ég að það hefði einfaldað málið mjög mikið. Ég vil taka undir með þeim sem hafa borið fram ósk til hv. frsm. að hann, af sinni þekkingu, skýri þetta örlítið betur.