Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum

61. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 15:28:42 (2667)


     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 17. þm. Reykv. fyrir síðustu ræðu sem var miklu meira upplýsandi en hans fyrri ræða. Ég vil jafnframt taka undir með hv. 9. þm. Reykv. að auðvitað erum við ekki að setja okkur á móti því að löggjöf verði sett um hluti sem þessa. En það er auðvitað algert lágmark að þannig sé frá því gengið að ekki sé um beinar villur að ræða.
    Andsvar mitt er til komið vegna þess að ég spurði hv. 17. þm. Reykv. hvort það væru ekki villur í greinargerðinni líka og ég spyr enn. Það kann vel að vera að það sé misskilningur minn og þá leiðréttist það bara, en á bls. 4 er talað um hálfleiðarakubb. Er það ekki smárásakubbur? Ég er hrædd um að mönnum hafi láðst að leiðrétta greinargerðina til samræmis við breytingu á hugtökum í frv. sjálfu. Ég vil enn og aftur ítreka að greinargerð skiptir máli vegna þess að þeir sem síðar leita skýringar á lögum leita oft viðbótarupplýsinga í greinargerð. Ég vil af einskærri forvitni og til þess að ég geti talið sjálfri mér trú um að ég byrji að skilja frv. spyrja hvort það er ekki rétt hjá mér að þetta getur ekki heitað hálfleiðarakubbur. Kubburinn er kubbur á smárásum ef ég skil upp eða niður í þessu máli. Ég vil heyra frá hv. 17. þm. Reykv. hvort þetta er rangt hjá mér.