Staðlar

61. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 15:38:30 (2672)


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Mér sýnist að með þessu frv. sé verið að stíga skynsamlegt skref í sambandi við löggjöf er varðar staðla hérlendis þar sem horfið er frá fyrri hugmyndum, sem voru kynntar á Alþingi í frumvarpsformi á fyrri þingum, að því er varðar málsmeðferð í sambandi við staðla hér, þátt staðladeildar Iðntæknistofnunar og fleira sem fram kemur í frv. Því styð ég lögfestingu þessa máls eins og það liggur fyrir frá iðnn. Ég tel að nefndin hafi haldið rétt á málinu og ekki síst í því að skilja þetta mál frá samningi um Evrópskt efnahagssvæði sem hefur verið til umræðu í þinginu en enginn veit hvaða afdrif mun fá. Ég held að það ætti að vera regla varðandi þau frv. sem a.m.k. er samstaða um og tengjast ekki efnislega þessum samningi. Það er auðvitað fráleitt að leggja þetta mál fyrir með þeim hætti og fleiri mál sem eru þess eðlis að þau eru efnislega jákvæð og skynsamleg, alveg óháð því hvar Ísland skipar sér á bekk í alþjóðlegu samstarfi eða hvaða alþjóðasamningar eru gerðir.
    Ég vil líka vekja athygli á því að þetta mál um staðla og Evrópusamvinna varðandi staðlamálefni á vegum svokallaðra staðlasambanda, sem eru skammstöfuð CEN og CENELEC og eru vel þekkt hugtök hjá þeim sem eru að sýsla við þessi efni, þetta samstarf hófst löngu áður en hugmyndir komu fram um Evrópskt efnahagssvæði. Ísland var þátttakandi í þeirri vinnu sem fór fram á vegum EFTA-ríkjanna í samvinnu við Evrópubandalagið um þessi málefni svo sem eðlilegt var. Á sama tíma er þetta mál, þetta efni, notað af þeim talsmönnum sem eru að knýja á um aðild Íslands að EES, mál sem liggur opið fyrir Íslendingum að vera þátttakandi í sem liður í alþjóðlegu samstarfi, gjörsamlega óháð þessum samningi. Svo er um mjög margt fleira sem reynt er af þeim aðilum sem reka áróður fyrir Evrópsku efnahagssvæði og inngöngu Íslands í það og skýra nauðsynina á því með atriðum eins og þessu sem og atriðum sem varða fjölmarga þætti sem hafa verið í gangi og komin eru á góðan rekspöl. Um 20--30 eru reyndar frágengin í mörgum atriðum. Það eru samstarfsverkefni milli EFTA og Evrópubandalagsins sem samkomulag var um í framhaldi af svonefndri Lúxemborgaryfirlýsingu 1984 eða 1985 að taka upp á milli Evrópubandalagsins og EFTA-ríkjanna. Síðan er verið að reyna að skreyta sig varðandi þennan samning og fegra þennan samning um Evrópskt efnahagssvæði út á slík málefni sem ýmist er búið að ganga frá í tvíhliða samningum við Evrópubandalagið eða er á vinnslustigi. Við heyrum það dögum oftar og það í sjónvarpsþáttum frammi fyrir alþjóð þar sem haldið er á málum eins og gert var af hálfu sjónvarpsins sl. sunnudag --- ég ætla ekki að ræða það út af fyrir sig sérstaklega þar sem verið er af talsmönnum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði að nota sjónvarpið --- t.d. samvinnu á sviði menntamála og í sambandi við framleiðslumálefni og afnám viðskiptahindrana með ákvæðum sem þessum.
    Það var auðvitað hárrétt hjá iðnn. að víkja burt því ákvæði í frv. og það er að gerast í ýmsum öðrum málum þar sem verið er að binda gildistöku þessara laga við samning um Evrópskt efnahagssvæði sem, eins og ég sagði, enginn veit hvaða afdrif mun fá og langt frá því að menn sjái í land með það sem betur fer. Það á eftir að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla í Sviss innan skamms um það efni, um aðra helgi hér í frá. Ég skal ekki leiða neinum getum að því hvernig niðurstaða verður þar. Það er eftir að taka á þessu máli á Alþingi Íslendinga. Heilir stjórnmálaflokkar eru að búa sig í það að taka efnislega afstöðu til málsins, ég held um komandi helgi, þar sem afstaða hefur ekki legið ljóst fyrir. Það er auðvitað langt frá því að þetta mál er varðar Evrópskt efnahagssvæði sé í höfn eins og má skilja af talsmönnum þessa samnings. Því er það óháð því hvað um hann verður og eðlilegt af hálfu Alþingis að tengja ekki mál sem er efnislega eðlilegt að lögfesta hér við samþykkt þess samnings. Þeir sem reka áróður fyrir þessum samningi ættu að leggja það af að tengja atriði sem eru þessum samningi óviðkomandi við þann samning þótt auðvitað sé hugmyndin sú, ef af þessu Evrópska efnahagssvæði verður, að fella það stjórnunarlega undir í samskiptum Evrópubandalagsins og EFTA-ríkjanna sem snýr að samstarfsverkefnum. Það er kannski ekkert skrýtið þótt það sé hugmyndin. En það er önnur saga.