Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

61. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 15:45:38 (2673)

     Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. frá meiri hluta menntmn. um frv. til laga um gagnkvæma viðurkenningu á menntun ríkisborgara í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og á Norðurlöndum til starfsréttinda á Íslandi.
    ,,Nefndin hefur rætt frumvarpið á fundum sínum og fengið til viðtals Hörð Lárusson, deildarstjóra úr menntamálaráðuneytinu, og Berglindi Ásgeirsdóttur, ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytisins.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali. Breytingarnar eru eftirfarandi:
    1. Lagt er til að orðin ,,vegna menntunar er veitir starfsréttindi`` í 1. mgr. 1. gr. falli brott og í þeirra stað komi orðin: vegna starfsmenntunar. Með þessari breytingu er verið að orða gildissvið frumvarpsins skýrar þannig að það nái einungis til viðurkenningar á þeirri menntun og prófskírteinum sem aðili hefur hlotið. Jafnframt eru gerðar aðrar smávægilegar orðalagsbreytingar á 1. gr.
    2. Lagðar eru til breytingar á fyrri málsgrein 1. gr., 2. gr., fyrri málsgrein 4. gr. og 5. gr. sem þrengja gildissvið frumvarpsins þannig að það nái einungis yfir eina tilskipun, þ.e. tilskipun 89/48EBE, sem tengist samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, auk þeirra samninga sem ríkisstjórnir Norðurlanda gera og öðlast hafa gildi að því er Ísland varðar.
    3. Lagt er til að felld séu brott ákvæði í 5. gr. er lúta að framkvæmd laganna og eiga að mati nefndarmanna betur heima í reglugerð.
    4. Lagt er til að heiti frumvarpsins verði breytt til að fyrirbyggja mistúlkun á gildissviði þess.
    Í umræðum í nefndinni komu fram efasemdir um hvort nauðsynlegt væri að hafa undanþáguákvæði 1. mgr. 4. gr. inni í texta frumvarpsins. Niðurstaða nefndarmanna var sú að ákvæðið væri nauðsynlegt vegna þeirra skuldbindinga sem felast í Norðurlandasamningnum.
    Árni Johnsen var fjarverandi við afgreiðslu málsins.``
    Undir nál. rita Sigríður A. Þórðardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Björn Bjarnason, Tómas Ingi Olrich og Valgerður Sverrisdóttir, með fyrirvara.
    Frv. það sem hér er til umfjöllunar fjallar um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum og tekur eingöngu til lögverndaðra starfa. Í menntmrn. er unnið að samantekt á þeim starfsheitum sem falla undir tilskipun 89/48EBE og norræna samninginn frá 1990. Sú samantekt er unnin í samráði við önnur ráðuneyti.
    Markmið frv. er að auðvelda frjálsan flutning ríkisborgara innan EES og innan Norðurlanda sem vilja starfa í öðru landi en því sem þeir hlutu menntun sína og starfsþjálfun í. Að fenginni viðurkenningu á prófskírteinum standa erlendir ríkisborgarar jafnfætis íslenskum ríkisborgurum hvað varðar umsóknir um störf. Hins vegar er það að sjálfsögðu á valdi vinnuveitenda hvaða umsækjanda þeir veita starfann og hvaða kröfur þeir gera til hans. Gert er ráð fyrir því að þau stjórnvöld sem nú fjalla um og afgreiða umsóknir um leyfi til að leggja stund á tiltekin störf hér á landi geri það áfram og sjái jafnframt til þess að settum skilyrðum, samkvæmt frv., verði fullnægt. Einnig er gert ráð fyrir að haft verði náið samstarf við aðila vinnumarkaðarins við meðferð og afgreiðslu umsókna útlendinga um heimild til að stunda starf hér á landi.
    Sérstök ástæða er til að vekja athygli á 5. gr. frv. Þar er menntmrn. falið að sjá um og samræma framkvæmd þeirrar tilskipunar og samninga sem falla undir 1. gr. frv. Rétt er að árétta sérstaklega mikilvægi þess að íslensk stjórnvöld safni upplýsingum um nám og forsendur starfsréttinda innan EES og á Norðurlöndum og bregðist skjótt og vel við beiðnum Íslendinga sem hyggjast starfa annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu og á Norðurlöndum um fullnægjandi upplýsingar og vottorð eftir því sem krafist er í hverju landi. Þessi þáttur í framkvæmd laganna er mjög mikilvægur þar sem möguleikar Íslendinga til að nýta sér þá gagnkvæmu viðurkenningu á menntun og prófskírteinum til starfa á Evrópska efnahagssvæðinu grundvallast m.a. á því að vel sé að þessum þætti staðið af hálfu íslenskra stjórnvalda.
    Fjölmargar umsagnir bárust um frv. til menntmn. Athugasemdir voru einkum af þrennum toga:
    1. Um mismunandi menntun innan svæðisins.

    2. Um íslenskukunnáttu.
    3. Um þekkingu á íslenskum lögum og reglugerðum einstakra starfsstétta.
    Hvað menntunina varðar er ljóst að engir tilburðir eru uppi um samræmingu á henni innan EB. Það er víst að hér á landi eru gerðar meiri kröfur til menntunar sumra starfsstétta en í ýmsum löndum EB. Samkvæmt frv. er hægt að krefjast hæfnisprófs, viðbótarmenntunar eða starfsþjálfunar eftir því sem við á. Strangar kröfur um menntun hér á landi ættu að geta skapað Íslendingum sterkari stöðu til að sækja um störf annars staðar á svæðinu sem og hérlendis.
    Um íslenskukunnáttuna er það að segja að það telst ekki mismunun innlendra ríkisborgara og ríkisborgara frá EES-ríkjum að gera kröfur um þekkingu á því tungumáli sem notað er í landinu ef starfið krefst þess. Gjarnan hefur verið tekið dæmi um grunnskólakennara en það hlýtur einnig að gilda um fleiri störf. Það er nauðsynlegt að kveða skýrt á um það hvaða störf hjá hinu opinbera krefjast íslenskukunnáttu. Það verða viðkomandi ráðuneyti að gera og tryggja samræmda framkvæmd um allt land ella er hætta á því að krafist verði íslenskukunnáttu til að vinna starfið í einum landshluta en ekki öðrum. Það mætti hugsa sér að þeim sem annast ráðningar í umboði ríkisins verði sendar leiðbeiningar um það hvaða kröfur verði að gera til erlendu ríkisborgaranna frá EES-ríkjunum um íslenskukunnáttu til að gegna viðkomandi starfi. Höfuðatriðið í þessu sambandi, þ.e. hvað varðar störf hjá því opinbera, er að tryggja að ekki verði ósamræmi í kröfum til íslenskukunnáttu sem ræðst t.d. af framboði og eftirspurn í viðkomandi starf.
    Ljóst er að hægt er að krefjast viðamikillar þekkingar á íslenskum lögum og reglum þar sem það á við.