Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

61. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 15:52:50 (2674)

     Frsm. minni hluta menntmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Nú eru tekin að streyma inn í þingsali þau EES-frv. sem nefndir hafa haft til athugunar eftir fyrstu umræðu enda styttist óðum sá frestur sem þingið hefur til að afgreiða þetta mál ef rás viðburðanna verður ekki sú að samningurinn verði felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss. Ég held í rauninni að við ættum að fara okkur hægt á Alþingi Íslendinga og sjá hver niðurstaðan verður í Sviss því það kallar auðvitað á frestun málsins ef samningurinn fellur þar. Þar af leiðandi liggur ekkert á að við séum að hamast við að afgreiða hvert málið á fætur öðru. Það verður auðvitað að segjast að þessi mál sem teljast fylgifrv. með EES-samningnum eru af mörgum toga og sum þeirra tengjast samningnum beint, önnur eru þess eðlis að þau eru einfaldlega lagasetning af einu eða öðru tagi, misjafnlega góð. Mörg þessara lagafrv. eru vissulega mál sem allir þingflokkar geta staðið að. Það frv. sem hér er komið til 2. umr., frv. til laga um gagnkvæma viðurkenningu á menntun ríkisborgara í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og á Norðurlöndum til starfsréttinda á Íslandi, er frv. sem tengist EES-samningnum beint. Það er afleiðing af einum fjórða hluta fjórfrelsisins svokallaða, þ.e. frelsi fólks til flutninga milli þeirra landa sem eru aðilar að EES-samningnum.
    Það er meginástæðan fyrir því að hér liggur fyrir minnihlutaálit frá tveimur fulltrúum í menntmn. Frv. er bein afleiðing af EES-samningnum. Gildistaka þess er tengd því að samningurinn komist í framkvæmd. Þar af leiðandi treystum við okkur ekki til að styðja þetta mál en munum sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    Ég ætla að gera grein fyrir nál. minni hlutans sem er að finna á þskj. 327. Það er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur á þessu hausti haft til umfjöllunar eitt af þeim frumvörpum sem beinlínis tengjast hugsanlegri aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að ríkisborgarar aðildarríkja EES geti komið hingað til lands, lagt fram próf sín eða skírteini um menntun, fengið þau viðurkennd og síðan hafið leit að vinnu. Jafnframt gildir áfram sá samningur sem um árabil hefur tengt saman Norðurlöndin sem einn vinnumarkað. Á móti kemur að Íslendingar hafa sömu möguleika til viðurkenningar á menntun og prófum í þeim ríkjum sem munu gerast aðilar að EES verði samningurinn að veruleika.

    Samvinna í menntamálum þjóða í milli er bæði æskileg og nauðsynleg svo og gagnkvæm viðurkenning á prófum og menntun þannig að þekkingu og reynslu verði miðlað milli þjóða. Slík samvinna á að okkar dómi að vera óháð efnahagsbandalögum og ríkjaheildum. Því væri mun nær að gera ráð fyrir viðurkenningu á prófum og menntun fólks alls staðar að úr heiminum að því tilskildu að þau standist þær kröfur sem gerðar eru hér á landi sé á annað borð vilji til að opna íslenskan vinnumarkað. Það hlýtur að vera grundvallaratriði að kröfur verði ekki minnkaðar til samræmis við það sem kann að gerast í ýmsum löndum Evrópu.
    Ljóst má vera að það er flókið mál að átta sig á skólakerfum og þeim mismunandi kröfum sem gerðar eru til hinna ýmsu starfsstétta. Menntakerfi eru mismunandi eftir löndum og álfum og því verður engan veginn einfalt að framfylgja fyrirhuguðum lögum, jafnvel þótt ríki EES verði ein um hituna. Íslendingar hafa þó manna mesta reynslu af því að leita sér menntunar vítt um veröld alla enda hafa menntamálaráðuneytið og Lánasjóður íslenskra námsmanna aflað sér mikilla upplýsinga um skóla víða um heim. Íslendingar ættu því alveg eins að ráða við heiminn allan eins og EES þegar próf og menntun eru annars vegar.
    Minni hluti nefndarinnar er andvígur þeirri úreltu heimssýn sem birtist í EES þótt vissulega megi benda á nokkra kosti sem fylgja mundu aðild Íslands að EES. Minni hlutinn telur hagsmunum og framtíð þjóðarinnar betur borgið utan þessarar efnahagsheildar en innan og vill fremur sjá sem frjálsust viðskipti milli allra þjóða heims en blokkamyndun og einangrunarstefnu af því tagi sem einkennir Evrópubandalagið. Því styður minni hlutinn ekki þau mál sem eru bein afleiðing af samningnum um EES og hefðu annaðhvort ekki komið til umfjöllunar á Alþingi eða verið með allt öðrum hætti hefði Alþingi eitt um vélað. Þá leiðir gildistökuákvæði frumvarpsins einnig af sér að minni hlutinn styður það ekki þótt hann sé efnislega samþykkur því að fólk eigi greiðan aðgang að viðurkenningu á menntun og prófum utan sem innan EES. Minni hluti nefndarinnar mun því sitja hjá við afgreiðslu málsins.``
    Þetta var álit minni hluta menntmn. Undir það skrifa Svavar Gestsson og Kristín Ástgeirsdóttir.
    Virðulegi forseti. Þetta mál er þess eðlis að það er ómögulegt að gera sér grein fyrir því hversu margir munu nýta sér þann rétt sem lögin munu fela í sér, þ.e. til viðurkenningar á prófum og menntun, og leita síðan eftir vinnu hér á landi. Reynslan hefur þó sýnt að hingað koma karlar og konur frá ýmsum löndum, ekki síst frá Norðurlöndunum og leita hér eftir störfum þótt flestir séu þeirrar skoðunar að þessi opnun, sem verður með EES, muni tæplega leiða yfir okkur einhverja holskeflu fólks frá hinu Evrópska efnahagssvæði vegna þess einfaldlega að hér er atvinnuleysi vaxandi. Hið sama gildir auðvitað um Íslendinga, atvinnuleysi er gríðarlega mikið á hinu Evrópska efnahagssvæði og því varla eftir miklu að slægjast nema í einstaka greinum. Þó getur enginn fullyrt hvað muni gerast. Þess vegna stöndum við frammi fyrir því að ákveða hvort við erum hlynnt því að opna íslenskan vinnumarkað með þessum hætti og hvort við viljum opna fyrir þennan takmarkaða hluta Evrópu eða fyrir heiminum öllum eins og kemur fram í þessu nál.
    Þess eru mörg dæmi að fólki hefur gengið illa að fá próf sín viðurkennd hér á landi, ýmist vegna þess að hér hafa verið gerðar kröfur um tungumálakunnáttu eða að gilt hafa mjög harðar reglur um það hvaða skilyrði eigi að uppfylla til að geta hafið störf hér á landi. Ég nefni t.d. heilbrigðisgreinar og það er ekki ýkja langt síðan það gerðist að íslenskur guðfræðingur, sem hlotið hafði menntun sína í Svíþjóð þar sem líka er að finna hina evangelísku, lútersku kirkju, þurfti að sæta þeim reglum að taka hér námskeið. ( Forseti: Forseti vill aðeins benda hv. þm. á að klukkan er orðin fjögur og spyrja hvort langt er eftir af ræðu hv. þm., hvort hún geti lokið henni á skömmum tíma eða frestað henni.) Ég held ég kjósi að fresta ræðu minni.