Gjald fyrir greiðsluáskorun Húsnæðisstofnunar ríkisins

62. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 10:36:34 (2678)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Forsaga þessa máls er sú að fyrri hluta árs 1990 tók Húsnæðisstofnun sjálf að annast innheimtu vanskilalána. Áður hafði veðdeild Landsbanka Íslands

annast þetta fyrir stofnunina. Gjaldskrá stofnunarinnar tók mið af því að jafna niður á skuldara sérstökum kostnaði vanskila, t.d. vegna búsetu. Áður var verulegt ósamræmi í greiðslum eftir búsetu. Skuldarar af landsbyggðinni báru lögfræðikostnað og útlagðan ferðakostnað vegna uppboðsmeðferðar en skuldarar á höfuðborgarsvæðinu ekki ef skil voru gerð fyrir þriðja uppboð.
    Í maí sl. tilkynnti umboðsmaður Alþingis í bréfi að stofnuninni væri ekki stætt á að haga gjaldtöku við vanskilainnheimtu þannig að taka mið af gjaldskrá Lögmannafélags Íslands og jafna niður kostnaði vegna vanskila í einstökum tilfellum. Fram kemur í áliti umboðsmanns Alþingis að Húsnæðisstofnun hafi heimild til að fá endurgoldinn þann kostnað sem stafar af eðlilegum og réttmætum ráðstöfunum stofnunarinnar við innheimtu lána sem eru í vanskilum við sjóði sem undir stofnunina heyra. Sá lagagrundvöllur sem stofnunin hefur til innheimtu gjalda í þessu sambandi er sú almenna réttarregla að kröfuhafi geti krafið skuldara um þann kostnað sem stafar af réttmætum aðgerðum til innheimtu kröfu vegna vanskila þannig að kröfuhafi verði skaðlaus.
    Lagastofnun Háskóla Íslands skilaði einnig í júní sl. álitsgerð fyrir Húsnæðisstofnun ríkisins og taldi að Húsnæðisstofnunin gæti látið semja gjaldskrá vegna innheimtu vanskilaskulda og eðlilegt sé að miða við að stofnunin verði í meginatriðum skaðlaus. Álit umboðsmanns leiddi til þess að fram fór gagnger endurskoðun á innheimtumálum stofnunarinnar. Leiddi hún til þess að framkvæmdastjóri hennar tók ákvörðun um gjaldskrá stofnunarinnar með hliðsjón af áliti umboðsmanns Alþingis. Auglýsing um gjaldskrá vegna vanskilainnheimtu var síðan birt í Lögbirtingablaðinu hinn 31. júlí 1992 og tók þegar gildi. Var þar m.a. kveðið á um greiðslu fyrir sendingu greiðsluáskorunar sem send er fyrir sérhvert skuldabréf í vanskilum. Var ekki talið fært að hafa annan hátt á. Stafaði það m.a. af því að í framangreindu bréfi umboðsmanns er það talið grundvallaratriði að hver og einn beri sinn kostnað af vanskilum og eigi sé heimilt að jafna honum út á aðra, þar með t.d. að sá sem er í litlum vanskilum verði látinn bera kostnað fyrir þann sem er í meiri vanskilum, né heldur að sá sem býr í þéttbýli sé látinn taka á sig kostnað vegna ferða lögmanna til þess sem býr víðs fjarri í dreifbýli.
    Spurt er hvers vegna hafi verið tekin ný ákvörðun um að gjaldið legðist einungis á tvö bréf. Ástæðan er sú að fram kom mikil óánægja hjá þeim sem voru með mörg skuldabréf í vanskilum. Lán úr Byggingarsjóði ríkisins voru oft greidd út í tveimur til þremur hlutum og því geta verið tvö eða fleiri skuldabréf sem þarf að greiða á gjalddaga en tilheyra í raun sama láninu.
    Eins og áður hefur verið vikið að er það álit umboðsmanns að grundvallaratriði sé að hver og einn beri sinn kostnað af vanskilum og ekki sé hægt að jafna honum út á aðra. Af þessum sökum töldu stjórnendur Húsnæðisstofnunar ekki fært annað en að leita leiða til að leysa málið. Niðurstaðan varð sú að miða skyldi við tvö skuldabréf þar sem útreikningar sýna að rétt rúmlega tvö skuldabréfalán frá stofnuninni hvíla að meðaltali á hverri íbúð sem veðsett er fyrir lánum frá henni. Ákvörðun þessa tók framkvæmdastjóri stofnunarinnar og tilkynnti hana á fundi húsnæðismálastjórnar hinn 15. okt. sl. Fyrir liggur að vegna þess verður stofnunin fyrir tekjutapi er nemur 10,9 millj. kr. Ákvörðunin er afturvirk frá gildistöku gjaldskrárinnar hinn 31. júlí sl. Rétt er að vekja athygli á því að hún varðar eingöngu þann lið gjaldskrárinnar sem fjallar um sendingu greiðsluáskorunar. Eftir sem áður verður skuldari að greiða allan kostnað vegna vanskilainnheimtu eftir atvikum, svo sem til ríkissjóðs.
    Í þriðja lagi er spurt: Er það skilyrði að bréfin séu greidd á sama gjalddaga eða er miðað við ársgreiðslur? Gjaldtaka fyrir sendingu greiðsluáskorunar miðast að hámarki við tvö skuldabréf á hverjum gjalddaga. Þetta fyrirkomulag miðast þannig við fjölda skuldabréfa í vanskilum á hverjum gjalddaga þannig að ef viðkomandi er með fjögur skuldabréf í vanskilum sem eru með mismunandi gjalddaga þarf að greiða gjald fyrir greiðsluáskorun vegna þeirra allra.
    Ég vænti þess, herra forseti, að ég hafi með þessu svarað öllum atriðum fsp.