Gjald fyrir greiðsluáskorun Húsnæðisstofnunar ríkisins

62. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 10:40:51 (2679)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir þetta svar. En mér þykir það satt að segja með hreinum ólíkindum því að þessar greiðsluáskoranir sem ég er að tala um bera svo sem engan kostnað í sér, póstgjald í hæsta lagi. Hér er um að ræða prentuð bréf sem einhverjar tölur eru fylltar inn í. Sá sem sendir bréfið er þegar búinn að skrifa undir það, það er sem sagt fjölritað svo að hér er ekki um neinn kostnað að ræða. Þetta er auðvitað bara tekjustofn fyrir stofnunina. Og leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra sem talar nú um tekjutap. Var þetta gróðafyrirtæki innan stofnunarinnar? Hagnaðist stofnunin á vanskilum? Auðvitað borga allir sem skulda vexti af skuldum sínum og það mótmælir því ekki nokkur maður. En það er ansi hátt gjald fyrir eitt lítið bréf til að minna menn á að þeir megi nú fara að borga bréf þegar dálítill tími er liðinn frá gjalddaga, að greiða fyrir það 5.600 kr. án tillits til hver skuldin er. Í þessu tilviki var hér um mjög lágar skuldir að ræða, enda lág lán upphaflega.
    Nú vitum við það að við öll sem erum með húsnæðisstofnunarlán að þau færast upp og framreiknast þannig að stofnunin er ekki að tapa neinu á okkur nema síður sé. Var það virkilega ætlunin að græða á fátækum íbúðakaupendum og húsbyggjendum með því að finna tekjustofn innan stofnunarinnar? Ég lýsi furðu minni yfir þessu. Ég var ekki að spyrja um þá sem komnir eru að lögfræðikostnaði og ferðalögum lögfræðinga út á land né nauðungarsölu. Það gilda aðrar reglur um það sem einnig er sagt frá í þessari umræddu grein að þar verða menn að greiða þúsundir kr. En áður en að því var komið, þá var farið að skattleggja fólk á þennan hátt og ég vil nú spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki væri eðlilegra að stofnunin næði jafnvægi í lánum og í greiðslum og innheimtu og skuldum með eðlilegum vöxtum heldur en vera að búa til einkatekjustofn innan stofnunarinnar. Ég á enn þá eftir að fá skýringu á af hverju nú er skattur af tveimur bréfum en þá ekki þremur ef þau eru þrjú. Og hvers konar geðþóttaákvarðanir eru þetta innan stofnunarinnar? Ráðherra talar eins og hún hefði hvergi komið nálægt þessu. Og ég spyr: Var hún ekki spurð?