Lögbýli í sveitum

62. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 10:48:12 (2684)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Fyrst vil ég nefna að þeir sem geta sótt um lán til félagslegra íbúða eru sveitarfélög eða félagasamtök. Framkvæmdaraðilar hafa kaupskyldu og síðan forkaupsrétt þegar íbúðir koma til endursölu. Endursöluíbúðum skal síðan ráðstafa til þeirra í sveitarfélaginu sem mesta þörf hafa fyrir aðstoð í húsnæðismálum.
    Í sumar kom á mitt borð erindi frá sveitarfélagi sem vildi aðstoða bónda á lögbýli sem býr við mjög lélegar húsnæðisaðstæður með því að byggja félagslega íbúð á jörðinni á vegum sveitarfélagsins. Við athugun á umsókninni kom í ljós að óframkvæmanlegt er að veita félagsleg íbúðarlán vegna lögbýla þar sem jörðin fylgir með. Reglur félagslega húsnæðislánakerfisins um t.d. innlausn og endursölu komu í veg fyrir að hægt sé að byggja félagslegar íbúðir á eignarjörðum eða bújörðum vegna samhengis íbúðar og atvinnustarfsemi á bújörðum og skyldu til að hýsa jörð samkvæmt ábúðarlögum.
    Í sumar fól ég nefnd á vegum félmrn. sem falið var að meta reynsluna af lögum nr. 70/1990, um félagslegar íbúðir, að taka til athugunar möguleika á því að veita félagsleg íbúðarlán til fólks á lögbýlum. Nefndin mun skila mér tillögum á næstunni. Flest bendir til að breyta þurfi lögunum og hugsanlega gera undanþágu varðandi kaupskyldu sveitarfélags í þessu sambandi. Ég mun þegar tillögur nefndarinnar liggja fyrir taka ákvörðun um frekari aðgerðir í þessu efni og ég vil láta það koma fram að ég tel mikilvægt að fólk í sveitum sitji við sama borð og þéttbýlisfólkið hvað varðar möguleika í húsnæðiskerfinu.