Mannréttindi í Eystrasaltsríkjunum

62. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 10:58:32 (2689)


     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Hér er hreyft mjög flóknu máli og vandmeðförnu sem varðar framtíðarskipan ríkjanna við Eystrasalt, hinna nýfrjálsu ríkja þar. Það er augljóst mál, eins og fram kom í máli hv. 3. þm. Reykv., að það er ákaflega erfitt og engan veginn auðhlaupið að því að skipa þessum málum með skynsamlegum hætti. Það sem blasir við er það einfaldlega að til þessara ríkja voru fluttir hópar fólks af ólíku þjóðerni sem vissulega skapaði ákveðna --- ekki vil ég segja ógnun, en skapaði auðvitað mikla óvissu fyrir framtíð þessara nýfrjálsu ríkja. Ég vil í þessu sambandi, af því að hér var sérstaklega nefndur þáttur Eistlands, benda á að Eistland hafði mjög frjálslynda innflytjendalöggjöf. Þjóðir hafa kosið að skipa þessum málum með lagasetningu og ég tel að það sé mjög ofmælt að segja sem svo að það hafi ríkt óbilgirni í garð þessara þjóða og þjóðabrota sem hafa sest að í þessum ríkjum. Ég held það sé mjög margt sem bendir fremur til þess að þjóðir Eystrasalts hafi sýnt þeim þjóðum og því fólki sem hefur flust til landa þeirra býsna mikið umburðarlyndi.