Mannréttindi í Eystrasaltsríkjunum

62. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 11:03:21 (2692)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. samstarfsráðherra um norræna samvinnu fyrir svör hans og þeim hv. þm. sem tekið hafa til máls og bætt við upplýsingum í þessu máli. Það er fagnaðarefni að Evrópuráðið lætur þetta mál til sín taka. Við fylgjumst daglega með ótíðindum frá Evrópu. Við höfum horft upp á ósköpin í júgóslavnesku ríkjunum eða ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu og við höfum verulegar áhyggjur af ástandinu í Þýskalandi þessa dagana. Það er því full ástæða til fyrir þjóðþing Evrópuþjóða að fylgjast grannt með þróun mála því það eru ekki gleðitíðindi sem berast af meginlandi Evrópu þessa dagana.
    Þeir nágrannar okkar í Eystrasaltslöndunum hafa vissulega átt stríða daga síðustu áratugi og eins og ég gat um áðan er auðvitað ekkert skrýtið þó að þar séu á ferðinni miklar tilfinningar við það að ríkin verða frjáls. Ég vil þakka hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni fyrir að upplýsa að sendiherrar Norðurlandanna í þessum ríkjum hafa áhyggjur. Það sannfærir mig um að áhyggjur mínar hafa við rök að styðjast. Ég vil biðja menn lengstra orða að gera mér ekki upp einhverjar skoðanir á þeim málum. Mér er fullljóst að þarna er um mjög vandmeðfarin og erfið mál að ræða, en það tekur ekki frá okkur ábyrgðina á því að reyna að gera allt það sem við getum til þess að þarna megi fara farsællega.
    Hv. 5. þm. Norðurl. e. sem var á umræddum fundi upplýsti hér réttilega að Eistlendingar eru lengra komnir í setningu löggjafar og ég held að við getum verið sammála

um að það hefur verið talsverður blæbrigðamunur á málflutningi a.m.k. þessara tveggja fulltrúa Eistlands og Lettlands.
    Tími minn er útrunninn og ég hefði viljað segja miklu meira um þetta mál, en ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í þessari umræðu og tel mig ekki hafa farið erindisleysu ef þessi fsp. má verða til þess að við fylgjumst grannt með þróun þessara mála í Eystrasaltsríkjunum hvarvetna þar sem við eigum aðgang að.