Mótmæli gegn plútonflutningum

62. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 11:13:39 (2697)

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherrum fyrir svör þeirra þar sem fram kemur að þegar hafi verið ákveðið að senda orðsendingu til ríkisstjórnar Japans af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar til að mótmæla þessum flutningum og að í ráði sé að umhverfisráðherrar Norðurlanda standi að sameiginlegu erindi til umhverfisráðherra Japans til að mótmæla af sama tilefni.
    Þetta er gott svo langt sem það nær og ber að þakka það. Ég vil hins vegar benda á að það koma fleiri aðilar en Japan að þessu máli. Það eru þeir aðilar sem endurvinna þetta geislavirka plúton fyrir Japani, þ.e. í þessu tilfelli Frakkar. Mér er að vísu ekki kunnugt um hvort Bretar leggja þar einnig til frá endurvinnslustöð í Sellafield en þar er alla vega ráðgert að endurvinna hluta af því mikla magni af geislavirku plútoni sem Japanir vilja fá endurunnið í Evrópu. Ég skora á hæstv. ráðherra að taka þetta mál einnig upp við ríkisstjórnir í Vestur-Evrópu sem hlut eiga að máli bæði frönsku ríkisstjórnina og e.t.v. þá bresku og einnig gagnvart Evrópubandalaginu sem auðvitað er óbeinn aðili að þessu máli. Ég tel að Ísland eigi að beita sér mjög hart í þessu efni. Þó að ekki sé farið alveg við bæjardyrnar hjá okkur með þetta efni tengist þetta baráttu sem Íslendingar eru samhuga um, að koma í veg fyrir stórfellda mengun sjávar og önnur óhöpp sem stafa af geislavirkum efnum. Ég minni á að fyrrv. hæstv. forsrh., nú sjútvrh. Íslands, tók þetta mál upp við Ronald Reagan, ef ég man rétt, sumarið 1988 í opinberri heimsókn til Bandaríkjanna. Það ber að fylgja þessum málum eftir af fyllstu einbeitni af Íslands hálfu. Það stendur til að vinna upp 30 tonn á þessum áratug. Það er ekki bara þessi farmur heldur 30 tonn af plútoni sem ráðgert er að flytja með þessum hætti frá Evrópu til Japans. Hér er aðeins upphafið á löngum ferli sem auðvitað getur leitt til verulegrar hættu. Geigvænleg slysahætta stafar af þessu. Ég skora því á ríkisstjórnina að beita sér harðar í þessu máli en fram hefur komið.