Sjávarútvegssamningur Íslands og EB

63. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 11:44:27 (2708)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Hæstv. sjútvrh. sagði að okkar samningamenn hefðu umboð til þess að ganga frá samningum en hann sagði ekki hvernig það umboð væri. Ég vil í þessu sambandi taka fram tvö atriði sem ég tel að eigi að vera alveg skýr. Ef verið er að tala um gagnkvæmar veiðiheimildir eiga menn fyrst og fremst við jafngilda stofna þar sem áhættan er sambærileg. Það er hægt að hugsa sér að semja um gagnkvæmar veiðiheimildir með þeim hætti ef það eru jafngildir stofnar. Loðnustofninn er hins vegar ekki jafngildur karfastofninum og þess vegna þarf sérstök ákvæði í því sambandi ef tryggja á að þarna sé um algera gagnkvæmni að ræða. Þetta verður að vera algjört úrslitaatriði í þessu máli og umboð okkar samningamanna hlýtur að vera með þeim hætti.
    Í öðru lagi vil ég leggja á það áherslu að Efnahagsbandalagið er að bjóða fram veiðiheimildir í lögsögu annars ríkis, þ.e. í lögsögu Grænlendinga. Það hlýtur að vera krafa af okkar hálfu að við getum jafnframt framselt til Evrópubandalagsins veiðiheimildir sem við fengjum hugsanlega í lögsögu annars ríkis. Það má vel vera að við getum skipt á þessari loðnu við aðrar þjóðir, við Norðmenn eða við Færeyinga, og það er líka mjög líklegt að við getum samið við þessar þjóðir um það að veiðiheimildir Evrópubandalagsins verði hjá þeim gegn því að við látum þá t.d. hafa þessa loðnu. Þetta er grundvallaratriði sem ég hef oft bent á hér en því miður fengið afar lítil viðbrögð. Ég vil því spyrja: Verður þannig gengið frá málum að við getum skipt á þessum veiðiheimildum og látið Efnahagsbandalaginu í té hugsanlegar veiðiheimildir sem við mundum semja um hjá öðrum þjóðum? Þetta tel ég vera mikið atriði því það er afar þýðingarmikið að við komumst hjá því að nýir aðilar komi inn í okkar landhelgi.