Sjávarútvegssamningur Íslands og EB

63. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 11:46:49 (2709)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Þetta er vitaskuld framhald af þeirri ákvörðun sem ríkisstjórnarflokkarnir tóku í sambandi við EES-samningana að erlendum aðilum yrði hleypt inn í íslenska landhelgi að nýju. Rammasamningurinn, sem hæstv. sjútvrh. talaði um áðan að væri í öllum megintriðum væri fastur leiðarvísir fyrir því hvað yrði gert, varð þar til og það var þá sem stjórnarflokkarnir ákváðu að hleypa erlendum aðilum á ný inn í íslenska landhelgi.
    Það vakti vitaskuld mikla athygli þegar síðan sást hvernig átti að útfæra þetta, að Íslendingar ættu

að greiða í staðinn fyrir óvissa loðnuveiði 3 þús. tonn af karfa og um það hefur verið mikið fjallað. Enginn vandi hefur verið að veiða karfann á Íslandsmiðum. Loðnan er aftur á móti ekki stofn sem menn hafa nýtt sér. Efnahagsbandalagið hefur keypt veiðiheimildir af Grænlendingum sem það hefur ekki notað. Íslendingar hafa síðan fengið að veiða þessa loðnu sem ekki hefur verið veidd af viðkomandi aðilum. Nú eigum við sem sagt að taka þessa loðnu, sem ekki hefur verið veidd, sem uppígreiðslu og frá því á að fara að ganga hér. Ekki nóg með það. Það á ekki einu sinni að gera ráð fyrir því að við fáum möguleika á því að bæta okkur það upp ef hún gengur ekki á Íslandsmið. Þannig virðist málið standa og yfirlýsingar hafa legið fyrir um að það sem ráðherra hefur sagt að samningamenn hafi umboð til að ljúka samningunum. Það skil ég þannig að á þessum nótum eigi að ljúka þessum samningum.